Stríðsátökin í Írak

Föstudaginn 30. apríl 2004, kl. 10:55:26 (7279)

2004-04-30 10:55:26# 130. lþ. 107.91 fundur 519#B stríðsátökin í Írak# (aths. um störf þingsins), EKG
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 130. lþ.

[10:55]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þm. sem hér talaði síðast væri sæmra að reyna að hlusta á það sem sagt er úr þessum ræðustóli. Ég var einfaldlega að vekja athygli á því að hvorki væri tilefni né tóm við þessa aðstæður undir þessum formerkjum að ræða þessi mál efnislega og eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon benti réttilega á er það auðvitað kjarni þessa máls.

Ég er ekki að biðjast undan því að þessi mál séu rædd í þingsölum enda hafa þau margoft verið rædd hér og það er auðvitað margs konar tilefni til þess. Þetta er stórt mál. Þetta er stórpólitískt og utanríkispólitískt mál. Ég vakti athygli á því að við vorum heilan dag, 6. apríl, eðlilega að ræða um utanríkismálin og þessi mál voru kjarni þeirrar umræðu og þau voru burðarásinn í ræðu hæstv. utanrrh. Þess vegna var fullt og nægilegt tilefni til þess að fara yfir þau mjög efnislega og mjög ítarlega þann dag eins og þingmenn gerðu. Ég vakti einfaldlega athygli á því að þarna höfðum við tækifæri til að ræða málin efnislega.

Ef menn vilja ræða þessi mál þá er það a.m.k. hvað mig áhrærir mér alls ekki á móti skapi. Ég tel þvert á móti mjög nauðsynlegt að við vekjum athygli á því að við Íslendingar kusum að berjast gegn harðstjóranum Saddam Hussein. En ég vek líka athygli á því að þeir sem hér hafa talað hafa allir með tölu komið sér undan því að fjalla um það með hvaða hætti þeir vildu koma þeim harðstjóra (Gripið fram í.) frá ef þeir þá vildu það. (Gripið fram í: Þeir vildu ekki koma honum frá.)