Útlendingar

Föstudaginn 30. apríl 2004, kl. 10:59:47 (7281)

2004-04-30 10:59:47# 130. lþ. 107.1 fundur 749. mál: #A útlendingar# (aðlögunarheimildir stækkunarsamnings ESB og EES o.fl.) frv. 20/2004, RG
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 130. lþ.

[10:59]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Við ræðum nú við 3. umr. stjfrv. ríkisstjórnar Íslands um breyting á lögum um útlendinga. Það er ekki laust við að vel fari á því að hefja þessa 3. umr. í kjölfar umræðunnar sem hér varð um störf þingsins um innrásina í Írak og aðild okkar að henni sem hefur dregið fram gerræðisleg vinnubrögð þeirrar ríkisstjórnar sem við búum við sem hefur farið sínu fram án þess að tala við kóng eða prest, án þess að tala við utanrmn., án þess að ráðgast við Alþingi og hvað þá heldur þjóðina sína í þessu stærsta máli síðustu ára, innrásinni í Írak. Og hvað höfum við rætt undanfarna daga? Við höfum rætt gerræðisleg vinnubrögð núverandi ríkisstjórnar.

[11:00]

Herra forseti. Á morgun, 1. maí, stækkar Evrópusambandið í 25 lönd. Íbúafjöldi þessa mikla sambands fer úr 385 milljónum í 460 milljónir. Í álfunni er gert ráð fyrir miklum hátíðahöldum í kvöld. Stöðuna á Evrópska efnahagssvæðinu, sem nú er að verða 460 milljónir, munum við ræða síðar í dag undir því þingmáli sem hv. þm. Katrín Júlíusdóttir mun mæla fyrir, þáltill. um stækkun Evrópusambandsins. Þar mun ég koma aftur í umræðuna og ræða þennan þátt.

Þessi viðburður, jafnótrúlegt og það hljómar, er orsök þess að hér er flutt þetta umdeilda frv. um útlendinga sem skilur ríkisstjórnina eftir berskjaldaða í viðhorfum sínum til umheimsins. Sá viðburður að Evrópusambandið stækki í 25 lönd og 460 milljóna sambúð fólks sem vill fara með friði, vera með friði, vinna hvert með öðru og leysa upp stríð og hörmungar í álfu sem logaði í óeirðum fyrir u.þ.b. 60 árum þegar við vorum að verða sjálfstætt ríki, árið 1944, er hvati frv. Þetta munum við líka ræða síðar í dag, friðarþátt Evrópusambandsins. Sá atburður að 460 milljónir ætli að starfa saman í einu sambandi og umræðan um frelsi fólks til atvinnu eru ástæður þess að Sjálfstfl. og Framsfl. gripu til þess örþrifaráðs að taka óvænt inn í slíkt frv. atriðin sem hafa orðið svo umdeild á síðustu vikum og sérstaklega á síðustu dögum. Sá atburður að Evrópusambandið verði 460 milljónir er ástæða þess að Framsfl. og Sjálfstfl. grípa til þess að taka inn tvo varamenn stjórnarliðanna í skjóli myrkurs í gær til að geta greitt atkvæði og geta gengið til verka og lögfest þau vafasömu ákvæði sem er að finna í því frv. sem í raun átti bara að vera vegna stækkunar Evrópusambandsins.

Undir kvöld í gær kom í ljós að þingmenn sem voru með fjarvist og voru á leið heim um helgina mundu ekki geta greitt atkvæði sem varð að greiða út af ákvæðunum um EES. Þá var gripið til þess ráðs að kalla inn varamenn þannig að þeir þingmenn sem hefðu átt að koma heim, þar á meðal formaður utanrmn. sem á ólokið verkum sínum í utanrmn., komast ekki til starfa nema þingið starfi lengur en næsta hálfa mánuðinn. Það getur líka svo sem orðið. Það verður samt ekki hún sem stýrir vinnu í utanrmn., það verður ekki hún sem axlar þá ábyrgð sem hún hefði viljað viðhafa þegar hún kæmi heim um helgina.

Þessa vandræðagangs sem þjóðin varð vitni að verður lengi minnst vegna þess að hann var fullkomlega ástæðulaus, bara ef menn hefðu haldið á málum eins og fólk. Ástæðan byggist fyrst og fremst á tvennu, valdasýki og skorti á samráði. Það er það sama sem við höfum séð í öllum málunum sem við höfum rætt að undanförnu, valdasýki og skortur á samráði. Þetta er einkennisbragur á þeirri ríkisstjórn sem nú situr. Ég harma það.

Meginforsendan í frv. er nefnilega heimildin til að nýta sér aðlögun á breytingum á vinnumarkaði sem fylgir því að 10 lönd bætast í Evrópusambandið, sem fylgir fjölgun á svæðinu, eins og ég hef sagt, úr 385 milljónum í 460 milljónir. Lengi vonuðust menn til þess að ekki þyrfti að hafa aðlögun að því að vinnumarkaðurinn opnaðist fyrir alla. Niðurstaðan varð samt sú að næstum öll lönd Evrópusambandsins, ég held meira að segja öll nema eitt, ákváðu að nýta sér aðlögunina. Ekki vegna þess að hún beindist beinlínis gegn því fólki sem væri að koma 10 nýjum löndum inn í Evrópusambandið heldur vegna þess að gera mátti ráð fyrir því að þegar svona stór stækkun yrði í einu kæmi mikið los á fólk og að vinnumarkaður, ekki síst lítill og viðkvæmur vinnumarkaður eins og hjá okkur, þyldi ekki breytinguna ef hún yrði of hröð. Það er til fyrirmyndar að fram til síðustu stundar var Alþýðusamband Íslands fylgjandi því að ekki yrði nýtt neitt aðlögunarákvæði, heldur yrði vinnumarkaðurinn opnaður eins og hann hefur verið á öllu Evrópska efnahagssvæðinu og út frá þeirri hugmyndafræði sem við ætluðum okkur sem unnum að því að Evrópska efnahagssvæðið og samningurinn yrði að veruleika á sínum tíma.

Aðlögunarheimildin er eiginlega í þremur fösum, ef mér leyfist að nota það orð. Sá fyrsti nær til tveggja ára og á honum er tekið í frv., í fyrsta lagi í 17. gr. en þar er lagt til að við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða þar sem gildistöku tilvitnaðra ákvæða 35. og 36. gr. laganna um EES-útlendinga verði frestað um tvö ár gagnvart ríkisborgurum hinna nýju ríkja í Evrópusambandinu að frátöldum Möltu og Kýpur. Að öðrum kosti mundu þær ívilnanir sem EES-útlendingar njóta gilda um þessa ríkisborgara frá og með 1. maí 2004. Um efni ákvæðisins vísast að öðru leyti til almennra athugasemda sem eru í frv.

Hins vegar vil ég aðeins geta hér um rétt EES-íbúa sem getið er um í greinargerð á bls. 2 en þar segir:

,,Þannig gera stækkunarsamningarnir ráð fyrir að landslög hvers ríkis, sem í gildi eru 1. maí 2004, gildi um þá ríkisborgara nýju aðildarríkjanna sem eru launþegar. Ríki getur ekki kveðið á um strangari takmarkanir en í gildi voru við gildistökudag samningsins en því er heimilt að setja reglur sem eru meira ívilnandi fyrir ríkisborgara nýju aðildarríkjanna.

Ríkisstjórnin hefur, í samráði við aðila vinnumarkaðarins, ákveðið að leggja til að fyrrnefndum aðlögunarákvæðum verði beitt.``

Þess vegna erum við að ræða þau hér í þessu frv. og ég ætla að leyfa mér að setja fram þá von, um leið og ég tek það fram að við styðjum þessi ákvæði, að ekki þurfi að beita fösum númer tvö og þrjú í framhaldi af því ef einhver vandræði skyldu vera eftir þennan tveggja ára aðlögunartíma. Vonandi þurfum við ekki að taka seinni heimildirnar, vonandi verðum við búin að fara í gegnum þá aðlögun sem þarf þannig að hér geti verið það opna flæði sem samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið tekur mið af.

Herra forseti. Það var sátt um það á Alþingi, a.m.k. var sátt um það gagnvart okkur í Samf., að beita þessum aðlögunarákvæðum. Slíkt frv. um aðlögunarákvæðin sem var bundið af tímasetningunni 1. maí hefði því fengið greiðan aðgang gegnum þingið og verið lögfest þess vegna fyrir löngu vegna þess að um það var enginn ágreiningur. Þetta frv. sem varðar stækkun Evrópusambandsins hefði fengið greiða afgreiðslu gegnum þingið og verið lögfest. Þá hefði ekki orðið vandræðagangur og tímaþröng. Þá hefði ekki þurft að kalla á varamenn í skjóli myrkurs til að greiða atkvæði klukkan 22 í gærkvöldi til að tryggja að hinum umdeildu áformum yrði komið í gegn. Það hefði ekki þurft að kalla inn varamenn og það hefði ekki þurft að fara í útgjöld vegna þess að nú verða tveir varamenn hér í hálfan mánuð sem ekkert hefði þurft að kalla inn. Stjórnarflokkarnir og aðrir sem eru áhugamenn um framgang samningsins um Evrópska efnahagssvæðið hefðu svo sannarlega séð til þess að þessi ákvæði hefðu náð fram að ganga og verið lögfest.

Þegar málið er skoðað í því umhverfi að sá tími sem þingmönnum er ætlaður til hefðbundinna þingstarfa og löggjafarstarfa er nú kominn niður fyrir hálft ár og að ráðuneytin ráða ekki við að koma öllum frv. ráðherra sinna tímanlega fyrir þingið í þessu starfsumhverfi eru það dæmalaus vinnubrögð að setja svona umdeild ákvæði, eins og hér voru rædd í gær og eru áfram rædd í dag, í sama frv. og aðlögunina sem varð að ná fram að ganga fyrir 1. maí. Satt að segja nær eitt orð best yfir það sem við hefur blasað í þeim umdeildu málum sem hafa skekið þjóðina, fjölmiðlafrumvarpinu og útlendingafrumvarpinu, og sannarlega höfum við heyrt það fyrr á þessum morgni. Orðið er frekja. Langur valdatími, þau áhrif að stjórnarliðum finnst sjálfsagt að keyra allt í gegn sem þeim sýnist í stað þess að ástunda lýðræðisleg vinnubrögð og samráð, leiðarljós sem eru viðhöfð annars staðar en þekkjast ekki hér --- það er ekkert orð yfir þetta lengur annað en frekja. Það er óviðunandi að fylgjast með þeim vinnubrögðum sem stjórnarliðið hefur smám saman tekið upp.

Ég hlýt að minna á það hér, og ágætt að það kom fram í umræðunni áðan um Írak að danskur ráðherra axlaði ábyrgð vegna þess að Danir höfðu skrifað upp á þá 30 viljugu, að það hefur verið haft að leiðarljósi í öllum stærri málum á Norðurlöndunum að hafa samráð um alla þýðingarmikla og stærri löggjöf, að það sé a.m.k. upp undir 80% stuðningur í þingunum þeirra við þýðingarmikil mál sem eiga að lifa lengi með þjóðinni. Það er farsælt vegna þess að ef þau vinnubrögð eru viðhöfð kemur ekki næsta ríkisstjórn og eyðir miklum kröftum í að breyta öllu til baka. Þá hefur verið haft samráð um mál sem hafa þýðingu fyrir fólkið í landinu og samfélagið sem við höfum verið að skapa hér í gegnum áratugi og aldir.

Í stað þess er það þannig með þann stjórnarmeirihluta sem svo lengi hefur ríkt að menn vilja ekki sjá og ekki heyra og þeir segja þegar þeir mæta andstreymi: Áróður, áróður. Það er ekkert skrýtið þó að það sé svona mikil ólga í samfélaginu, þetta er bara áróður.

Þetta höfum við heyrt hér og manna á meðal á kaffistofunni þegar verið er að ræða hvað þjóðin hefur risið harkalega upp vegna fjölmiðlafrumvarpsins: Áróður. Það er ekki af því að við höfum gert rangt, ekki af því að við séum ekki með lýðræðisleg vinnubrögð, ekki af því að við höfðum ekki samráð, heldur er það bara vegna þess að einhverjir óprúttnir aðilar hafa verið með áróður. Þess vegna rís þjóðin upp gegn okkur.

Það er viðkvæði stjórnarliða.

Það er dálítið furðulegt ef satt skal segja. Það sem verið er að tala um þarna úti --- þá vísa ég aftur til fjölmiðlafrumvarpsins og biðst velvirðingar á því, herra forseti, en það er algengt að maður vísi til annarra frumvarpa eða laga í umræðu sinni um tiltekin mál --- og veldur eldfiminni eru staðreyndir sem sérfræðingar hafa sett fram. Ekki pólitíkusar, ekki óvinveittir pólitíkusar, heldur sérfræðingar á sviðinu, sumir hverjir sérstakir vinir ríkisstjórnarinnar, sérfræðingar sem eru hliðhollir ríkisstjórninni og starfa jafnvel í flokkunum þeirra. Þeir hafa komið fram og sagt að það sé mat þeirra að fjölmiðlafrumvarpið brjóti í bága við stjórnarskrá, að frv. sem þessi ríkisstjórn leggur fram í krafti valdsins brjóti í bága við stjórnarskrá. (Gripið fram í: Hvað kemur það útlendingamálinu við?) Það kemur því við að ég er hér að fjalla um mjög umdeilt útlendingafrumvarp og svo virðist sem þannig sé komið fyrir ríkisstjórninni að hún stjórnist miklu fremur af frekju en nokkru sinni lýðræðislegum vinnubrögðum. Það á ekkert skylt við pólitík.

Það á í rauninni ekkert skylt við pólitík þegar hér eru keyrð í gegn frumvörp sem fullyrt er af sérfræðingum að standist ekki stjórnarskrá. Það er að verða vani að Hæstiréttur felli dóma um að lög, því miður, standist ekki stjórnarskrá, að þau brjóti í bága við tiltekin ákvæði og hingað inn hafa komið frumvörp þar sem þarf að breyta fyrri lögum sem byggðust á frumvörpum af þessu tagi sem við gagnrýndum af því að niðurstaðan hefur orðið að þau brjóti í bága við ákvæði stjórnarskrár. Þetta er auðvitað ólíðandi vinnulag, vinnulag sem er ekki til sóma fyrir Alþingi. Þetta eru slæm vinnubrögð og það er þess vegna sem ég leyfi mér að nota þetta barnalega orð, frekja, þegar menn eru orðnir þannig að þeir hlusta ekki á neinn, ekki á ráðgjöf og fara sínu fram hvað sem tautar og raular.

[11:15]

Í öðrum þingum er þessu öðruvísi farið. Ég nefni Finnland. Ég átti nefnilega því láni að fagna að vera þar á ráðstefnu í desember á vegum Alþingis þar sem fjallað var m.a. um vinnu þinganna í sambandi við gerðir Evrópusambandsins. Þegar Finnarnir urðu frjálsir settu þeir upp merkilegustu nefndina á sínu þingi og hún hefur það verkefni og hefur haft það alla tíð síðan að skoða hvert einasta frv. með tilliti til stjórnarskrárinnar. Ekki eitt einasta frv. fer í gegn og verður að lögum í Finnlandi nema það hafi fengið þessa vönduðu skoðun. Hér er ekki einu sinni hlustað á það, hvorki þegar stjórnarandstaðan í nefnd eða aðilar úti í bæ, sérfræðingar og lögfræðingar, lýsa því yfir að nú skuli vara sig, nú skuli hægja á.

Af því að ég geri EES-málið að svo miklu meginmáli, a.m.k. í upphafi ræðu minnar, vil ég árétta það að stjórnarandstaðan bauð það tímanlega í allshn. að taka út EES-ákvæðin og lögfesta þau þannig að tímaþröng yrði því máli ekki til trafala. Það var auðvitað ekki þegið. Stjórnin ætlaði í gegn með mál sitt á þeim tíma sem hún ætlaði sér. Þannig er það. Þess vegna voru þau ekki tekin út og afgreidd með stuðningi okkar, nei. Þannig vinnur ekki stjórnarmeirihlutinn. Við viljum, við ætlum, við ráðum. Það eru einkunnarorð hans. Ég hlýt að gagnrýna það vegna þess að tilefnið er liðnir dagar á Alþingi og að hér er verið að koma inn með frv. eftir að fresturinn er útrunninn, hér er verið að koma með umdeild frv. og menn ætla að fara með þau í gegn. Það á að fresta þinglokum og ég harma það ekki. Mér finnst að þingið eigi að standa miklu lengur en 51/2 mánuð en vinnubrögðin við það eru óásættanleg.

Svo ég víki aftur að útlendingafrumvarpinu var ríkisstjórnin mjög lengi að koma sér að því að endurskoða gamla úrelta útlendingalöggjöf sem hér var við lýði. Ég get farið aftur til þess tíma þegar Þorsteinn Pálsson, hæstv. þáverandi dómsmrh., var með dómsmálin. Vetur eftir vetur var ég nefnilega með fyrirspurnir um hvað liði endurskoðun á útlendingafrumvarpinu. Ég var þá mjög upptekin af því að mannréttindasamtök kölluðu eftir breytingum á hinni gömlu úreltu löggjöf. Samkvæmt henni var ekki farið að alþjóðasamningum, ekki var gætt réttar flóttamanna þegar þeir komu til landsins, hvorki að tryggja þeim eðlilegan málflutning, túlk né réttaraðstoð. Það var ekki farið að flóttamannasamningi SÞ og þegar ég kallaði eftir endurskoðun á útlendingafrumvarpinu var ég fyrst og fremst með það í huga að lýðræðisríkið Ísland mundi bæta löggjöf sína þannig að það gæti verið hnarreist gagnvart því hvernig það fer samkvæmt alþjóðasamningum og að meðferð flóttamanna væri ævinlega slík að um hana ríkti sátt og að meðferðin væri samkvæmt því sem við, miðað við okkar gildi, gætum verið ánægð með.

Það er fyndið að hugsa til þess núna að þegar maður var að reka á eftir endurskoðuninni hefði maður trúað því að ný íslensk löggjöf, endurbætt ný íslensk löggjöf, mundi bæta réttindi útlendinga. Hún yrði eingöngu sett til að bæta réttindi útlendinga. Það varð ekki þannig, því miður. Þvert á móti þegar löggjöfin leit loksins dagsins ljós --- það var þegar hv. þm. Sólveig Pétursdóttir var dómsmrh. --- virtist eins og það væri leitast við að nýta öll finnanleg ákvæði í alþjóðasamningum sem gerðu okkur kleift að vísa flóttamönnum alltaf til baka, reyna að finna allar leiðir til að vera með það í löggjöf að við gætum alltaf vísað flóttamönnum til baka. Það gerum við líka, sendum þá til annarra landa, þvoum hendur okkar af óþægindum og höldum áfram að úthýsa flóttamönnum sem hingað leita af því að við getum það samkvæmt löggjöf. Við veljum þá af kostgæfni sem okkur þóknast að flytja hingað inn samkvæmt því að ákveðið var í ríkisstjórn í nokkur ár að taka á móti um það bil 30 flóttamönnum á ári. Við veljum þá af kostgæfni og vísum svo helst öðrum frá. Þetta er inntak þeirrar löggjafar sem varð til loksins þegar endurskoðuð löggjöf sá dagsins ljós. Það er ekki mjög glæsilegur vitnisburður fyrir þjóðina sem er yfirleitt svo hátt metin á erlendum vettvangi vegna aldagamallar lýðræðishefðar.

Það hefur líka komið fram í umsögnum með frv. að verið er að taka af réttinn til talsmanns. Það verður afdrifaríkt fyrir flóttamenn sem hingað koma. Þeir eiga ekki lengur möguleikann á því að fá talsmann sér til aðstoðar og þetta er gagnrýnt mjög alvarlega í þeim góðu umsögnum sem sendar voru til allshn. Ég vil sjá að við tökum í vinsemd og með virðingu á móti því fólki sem velur Ísland sem sinn nýja samastað. Það er fólkið sem í meginatriðum er fjallað um með nýju ákvæðunum í flóttamannafrumvarpinu. Það á nefnilega ekki að taka á móti þessu fólki í vinsemd og með virðingu sem hingað kemur og sem í nærri öllum tilfellum kemur hingað til að vinna hér og deila kjörum með okkur. Það er ekki eins og við þurfum ekki á þessu fólki að halda. Alls staðar á Vesturlöndunum þurfum við á því að halda að fólk annars staðar frá velji að koma og búa með okkur, deila kjörum og gera okkar land að sínum samastað. Það er orðið þannig að í sumum löndunum þar sem þjóðháttabreytingar urðu á undan okkar breytingum er beinlínis mikil þörf fyrir að útlendingar setjist að í löndunum ef fólk á að geta farið með þeim hætti á eftirlaun. Það er of fátt fólk í þeim löndum til að vinna fyrir þeim stóra hópi sem fer á eftirlaun. Það blasir við okkur og ekki bara það, heldur blasir við að í mjög mörgum störfum sem ekki er hægt að manna lengur hefur komið fólk annars staðar frá sem vinnur þessi störf fyrir okkur. Ég harma það að þetta fólk vinnur fyrst og fremst láglaunastörfin. En það kemur hingað og vinnur og a.m.k. höfum við þannig löggjöf að það sama gildir í launum um Íslendinga og aðra þá sem koma til að dvelja með okkur. Ég vil sjá löggjöf sem tryggir þá lýðræðislegu opnu samfélagsvitund sem við Íslendingar höfum alltaf búið við, alltaf. Ég vil sjá réttláta löggjöf sem gildir um Íslendinga og útlendinga og að þeir sem hingað koma geri það með því hugarfari að lifa við og samkvæmt þeim lögum sem Íslendingar búa við, deila með okkur kjörum og reglum sem byggja á fullum mannréttindum allra, þeirra sem eru á vinnumarkaði, barna, fullorðinna, aldraðra. Þess vegna vekur frv. furðu og andúð. Þess vegna hefur þetta útlendingafrumvarp mjög verið rætt í öllum þeim geirum þar sem fólk þekkir til, að ríkisstjórnin setji allt önnur lög um útlendinga sem hér ætla að lifa en um okkur sjálf, allt önnur lög um þá sem ætla að gera Ísland að samastað sínum ef þeir koma annars staðar að, ef þeir koma frá fjarlægum stöðum.

Stjórnin ætlar að búa þeim annan hjúskaparaldur, önnur ákvæði, setja aldursmörk á það hvort ættingjar, foreldrar, afi og amma fái að koma. Þetta er það sem blasir við. Stjórnarliðið hefur reynt að klóra sig út úr þessu en þetta er það sem blasir við. 24 ára reglan um giftingu, 66 ára reglan um ættingja sem mega koma og dvelja og lífsýnaákvæðið endurspegla það viðhorf til þeirra sem hingað koma að þeir séu með annarleg áform. Þetta hefur verið harðlega gagnrýnt. Þetta er ekki eitthvað sem við í stjórnarandstöðunni erum að finna upp. Laganefnd Lögmannafélagsins leggst gegn samþykkt þessa ákvæðis um lífsýni að óbreyttu og því hefur verið lýst yfir að það væru fyrst og fremst orðalagsbreytingar en ekki efnisbreyting á lífsýnaákvæðinu. Líka hefur verið gagnrýnt af þeim sem sendu inn umsögn frá Persónuvernd að það eigi að vera meginregla að reglur verði látnar gilda um líkamsrannsóknir fyrir alla, ekki sér fyrir einhverja, heldur jafnt fyrir alla á Íslandi.

Virðulegi forseti. Í umræðum í gær, í nefndaráliti, framsögu og öðrum umræðum hefur Samf. fært mjög vel rök fyrir því hvaða afstöðu hún hefur til þessa frv. sem ég hef líka tekið til umræðu. Ég hef fyrst og fremst viljað vekja athygli á því vegna þeirra sem fylgjast með umræðum á Alþingi að forsenda fyrir frv. var EES-aðild okkar. Samf. vill fella brott 16. gr. frv. og hún vill og hefur flutt brtt. um að frekar verði tryggt refsinæmi málamyndahjónabanda og nauðungarhjónabanda en að setja þessa 24 ára reglu. Sú tillaga var að sjálfsögðu felld.

Í frv. er líka lagt til að það verði gert refsivert að hafa í vörslu sinni falsað vegabréf, fölsuð skilríki eða falsaða vegabréfsáritun. Eðli málsins samkvæmt koma ákveðnir hópar fólks yfirleitt ólöglega yfir landamæri og þá oft með fölsuð ferðaskilríki. Þá vísa ég aftur til þess sem mér hefur verið hugleikið og það eru flóttamenn og koma þeirra hingað. Það er í andstöðu við 31. gr. flóttamannasamnings SÞ sem Ísland fullgilti 1. mars 1956 að ákæra í öllum málum vegna falsaðra skilríkja án þess að tillit sé tekið til sérstakra aðstæðna flóttamanna. Þessi regla er undirstrikuð í leiðbeiningarreglum UNHCR til ríkja um málefni flóttamanna. Minni hlutinn telur að setja beri í lagatextann sjálfan fyrirvara um að þetta ákvæði eigi ekki að ná til flóttamanna. Það náði að sjálfsögðu ekki fram að ganga.

Þann 13. desember 2000 var af Íslands hálfu undirritaður Palermo-samningur SÞ gegn alþjóðlegri skipulagðri glæpa\-starfsemi og viðauki við samninginn um mansal. Ákvæði 16. gr. frv. í h-lið ganga gegn samningnum um að refsa skipuleggjendum mansals en vernda fórnarlömbin. Fórnarlömb mansals eru nefnilega oft með fölsuð ferðaskilríki. Þess vegna hefur Samf. talið að það bæri að gera fyrirvara í lagatextanum varðandi fórnarlömb mansals sem kunna að hafa fölsuð skilríki í vörslu sinni.

Virðulegi forseti. Samf. flutti í gær afar góðar tillögur til að bæta frv. Því miður voru þær allar felldar. Þetta mál er á ábyrgð ríkisstjórnarinnar, það er samkvæmt vilja hennar og endurspeglar hug hennar. Við viljum ekki vera þar með í liði.