Útlendingar

Föstudaginn 30. apríl 2004, kl. 11:32:36 (7283)

2004-04-30 11:32:36# 130. lþ. 107.1 fundur 749. mál: #A útlendingar# (aðlögunarheimildir stækkunarsamnings ESB og EES o.fl.) frv. 20/2004, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 130. lþ.

[11:32]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað munu þessi ákvæði sem við erum að setja út á gilda fyrst og fremst um útlendinga utan EES. Það veit hvert mannsbarn hvaða forsendur eru fyrir EES-samningnum. Það á bara ekkert saman að taka frv. sem á að fjalla um EES-samninginn og var bundið við 1. maí og setja þar inn þessi ákvæði um útlendinga utan EES. Þess vegna hefði verið nóg að fjalla um slíkt frv. í haust. Það hefur ekkert með það að gera að við erum að stækka EES-svæðið. Við skulum hafa það á hreinu.

Það komu 22 gestir á fund allshn. og það var ekkert gert með það. Við gerð frv. var ekkert samráð haft við samtök þess fólks sem á í hlut á sama hátt og ekkert samband var haft við þá aðila sem eiga hlut að máli við samningu fjölmiðlafrumvarpsins. Alls staðar úti í bæ er búið að vera að fjalla um það. Þó að þingmaðurinn kunni því illa að ég dragi saman vinnubrögðin í ólíkum málum er það samt algengt hér á Alþingi. Undir þingmálum getum við rætt það sem okkur býr í brjósti um málið og skyld málefni. Það gerði ég. Það var full ástæða til þess á þessum morgni að draga fram hver vinnubrögð ríkisstjórnarinnar eru, að hún hefur t.d. ekki samráð þegar hún undirbýr löggjöf. Hún leyfir það, jú, að kallað sé á aðila í nefndirnar en hún gerir bara ekkert með það. Þetta styður allt sem ég hef hér sagt.