Útlendingar

Föstudaginn 30. apríl 2004, kl. 11:39:22 (7286)

2004-04-30 11:39:22# 130. lþ. 107.1 fundur 749. mál: #A útlendingar# (aðlögunarheimildir stækkunarsamnings ESB og EES o.fl.) frv. 20/2004, MÞH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 130. lþ.

[11:39]

Magnús Þór Hafsteinsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vildi aðeins fá að koma hér að smáathugasemd. Í ræðu hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur áðan komst hún þannig að orði í lokin, ef ég man rétt, að Samf. hefði komið með ótal brtt. við frv. en þær hefðu því miður ekki náð fram að ganga við atkvæðagreiðslu í gær.

Herra forseti. Þetta er kannski ekki alveg rétt. Á nál. minni hluta allshn. er Frjálsl. einnig með án fyrirvara, hv. þm. Gunnar Örlygsson. Hv. þm. Frjálsl., Gunnar Örlygsson og Sigurjón Þórðarson, sátu fundi allshn. þegar þetta mál var til umfjöllunar og allur þingflokkur Frjálsl. greiddi atkvæði með brtt. sem komu fram í nál. minni hluta allshn. hér í gærkvöldi.

Hins vegar vil ég líka þá nota tækifærið, herra forseti, einmitt til að harma það að engin af þessum ágætu brtt. hafi hlotið brautargengi hér seint í gærkvöldi. Það var sorglegt að verða vitni að því að tveir þingmanna Framsfl., hv. þm. Jónína Bjartmarz og Kristinn H. Gunnarsson, kusu bæði að sitja hjá. Ef þau hefðu fylgt sannfæringu sinni í þessu máli og greitt atkvæði eftir henni liti landslagið öðruvísi út í dag en það gerir, því miður.