Útlendingar

Föstudaginn 30. apríl 2004, kl. 11:42:42 (7288)

2004-04-30 11:42:42# 130. lþ. 107.1 fundur 749. mál: #A útlendingar# (aðlögunarheimildir stækkunarsamnings ESB og EES o.fl.) frv. 20/2004, GÖg
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 130. lþ.

[11:42]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Hæstv. forseti. Hér er fram haldið 3. umr. um breyting á lögum um útlendinga.

Núna er búið að dreifa í þingsal frv. eins og það lítur út eftir fall allra tillagna hér í gær, sem ber að harma. 17. gr. er það sem allt átti að snúast um. Það átti einungis að snúast um stækkun EES og undanþágur þar frá, annað átti að bíða, en stjórnin sætti lagi með meiri þrengingar, eins og fram hefur komið.

Auðvitað hefur þessi viðbót sem var sett á 17. gr. og þær breytingar sem gerðar voru í leiðinni valdið óróleika meðal stjórnarþingmanna. Það segir sig sjálft að búið er að tefja þetta mál of lengi út af þessum vinnubrögðum og þess vegna eru allir komnir í tímahrak með það í dag að klára málið vegna gildistíma. Lögin verða að öðlast gildi á morgun.

Ég vil líka minna á umsögn til allshn. frá Alþýðusambandi Íslands þar sem talað er um aðlögunarhluta frv. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Í ljósi framanritaðs leggur Alþýðusamband Íslands áherslu á að sá hluti frumvarpsins sem snýr að aðlögunarfrestum vegna stækkunar Evrópska efnahagssvæðisins verði afgreiddur fyrir 1. maí nk. sem og aðrir þeir þættir frumvarpsins sem samstaða er um. Hvað varðar annað efni sem mikill ágreiningur er um leggur ASÍ til að afgreiðslu verði frestað að sinni til að tækifæri gefist til að skoða þau mál frekar og leita leiða til að skapa sem víðtækasta sátt um niðurstöðuna.``

Við þessu var ekki orðið, herra forseti, eins og þingheimi er kunnugt og þeim sem hafa fylgst með þessu máli. Því miður erum við því með frv. til laga sem kannski má kalla ákveðin ólög þar sem ágreiningur er um það hvort verið sé að brjóta á mannréttindum, lýðræði, jafnræðisreglu stjórnarskrár o.s.frv. Það væri óskandi að hægt væri að láta á það reyna. Að sjálfsögðu er útlendingasamfélagið órólegt yfir samþykktum gærdagsins. Fólk úr öllum flokkum, öllum ungliðahreyfingum allra stjórnmálaflokka sem sitja á Alþingi, hefur líka ályktað um þessi mál, þá ekki síst 24 ára regluna svokölluðu. Auðvitað kemur það við unga fólkið í landinu. Fólk er hneykslað og veit ekki hvernig það á að bregðast við, því það er, eins og ég segi, óróleiki í útlendingasamfélaginu og það er eins og ákveðinn misskilningur ríki um það hvernig stofnun Útlendingastofnun er. Kannski halda allir að þetta sé með betri þjónustustofnunum landsins en ég held að útlendingasamfélagið upplifi hana ekki alveg þannig án þess að ég ætli að taka að mér að fella dóma um það. Samt get ég sagt að hún hefur verið kölluð höfnunar- og hindrunarskrifstofa útlendingamála. Stofnunin þarf að skoða sín mál, við höfum talað um það. Við höfum líka talað um að gera þurfi breytingar á Útlendingastofnun. Það þarf að breyta henni í stofnun sem er með réttinn og lögin algerlega á hreinu, vinnur fyrir það fólk sem þangað leitar, er þjónustustofnun, að úrskurðir hennar verði gefnir út og að yfir henni verði sérstök stjórn þannig að fólk viti ávallt að réttur þeirra sé tryggður. Það er grundvallaratriði. Þetta er eitt af því sem ég ræddi í gær við 2. umr.

Úr því að verið er að endurskoða útlendingalögin sem voru um margt mjög slæm skil ég ekki af hverju ekki er farið í allsherjarskoðun. Við gætum tekið EES núna eins og við höfum alltaf sagt og farið í almennilega skoðun á hinu síðar, hermt loksins eftir því hvernig stofnanir annars staðar á Norðurlöndunum raunverulega fúnkera á sviði útlendingamála. Af þeim getum við mikið lært og útlendingasamfélaginu væri gerður sómi með því að við færum í slíka vinnu. Ekki verður okkur að ósk okkar að sinni með það.

[11:45]

Helst er 24 ára reglan gagnrýnd sem ég nefndi áðan. Það eru 30 þúsund Íslendingar á þeim aldri. Ákveðinn hluti þeirra mun hitta ástina sína á þeim aldri og lenda í hindrunum. Ég mun vitna aðeins í mjög skemmtilega blaðagrein á eftir í því sambandi.

Ég vil líka gera alvarlegar athugasemdir við þessi nýju lög sem á að samþykkja í dag að hvergi kemur fram fyrirvari eða neitt varðandi DNA eða 7. gr. Hvar eigi að taka sýnin, hvar eigi að geyma þau, hver beri ábyrgðina á þeim o.s.frv. Er Útlendingastofnun komin með lækni í þjónustu sína? Hvernig á að fara með þetta? Hver á að bera kostnaðinn? Það kemur ekkert fram um það. Það á að setja í reglugerð en það kemur ekki fram í lagatextanum. Í útlendingafrv. sem við ræddum fyrir tveimur árum var í annarri hverri grein alltaf sagt: Og mun hæstv. dómsmrh. setja reglugerð varðandi málið. Svo er ekki hér. Það er handvömm og ég geri verulegar athugasemdir við það.

Eins og ég sagði áðan hafa ungliðar allra stjórnmálahreyfinga barist hatramlega gegn þessu og hafa starfað með Alþjóðahúsi og með samtökum útlendinga til að reyna að hnekkja því sem hér er verið að framkvæma. Mig langar, með leyfi forseta, að vitna í afskaplega skemmtilega grein sem var í Morgunblaðinu í gær. Hún er skrifuð af Hákoni Skúlasyni, varaformanni Félags ungra framsóknarmanna í Reykv. n. Mig langar aðeins að drepa niður á tvö til þrjú atriði í greininni til þess að sýna hvernig samræðan gerist hjá unga fólkinu í landinu. Hann er að fjalla um þingmál nr. 749 og segir, með leyfi forseta:

,,Björn er að reyna að girða ástina inni með gaddavír. Segjum svo að íslenskur ríkisborgari fari í nám til Danmerkur. Þar verður hann ástfanginn af 20 ára stúlku með suður-afrískan ríkisborgararétt. Þau ákveða það að ástin þeirra sé sú eina sanna og þau ákveða að taka næsta skref. Eignast börn og búa saman. Ef hún síðan ákveður að flytjast með honum til Íslands, segjum 22 ára gömul, þá hefst skrípaleikurinn því það er ekki leyfilegt. Þau verða að bíða í 2 ár þar til hún verður 24 ára gömul til að mega koma til langdvalar í landinu. Þegar þau loksins komast til landsins þá kvikna upp grunsemdir hjá yfirvöldum ,,bíddu er þetta ekki samsæri?`` Til að komast til botns í þessu er gripið til þess ráðs að gera skyndiárásir á heimili þeirra og þau látin sanna fyrir yfirvöldum að þau séu í raun og veru ástfangin. Hann verður yfirheyrður um uppáhalds hárspreyið og tannkremið hennar og hann náttúrulega veit ekki neitt ,,ég bara hef ekki pælt í því hvaða hársprey hún notar, satt best að segja``. Hún náttúrulega hefur ekki hugmynd um hvað uppáhaldstölvuleikurinn hans heitir. Það er frekar öruggt að ef farið væri í skyndiárás inn á heimili hjá fólki af íslenskum uppruna þá hefði karlinn ekki hugmynd um hvaða hársprey eða tannkrem konan notar. Það er mjög líklegt að hann hafi ekki hugmynd um nafnið á sínu eigin tannkremi, hann kallar það bara tannkrem.``

Greinin sendir ákveðnar húmorískar eiturpillur í átt að frv. og því ber að fagna því ég held að húmorinn sé ákveðin mildi til þess að reyna að átta sig á því hvað er í gangi. En mig langar aðeins að líta aftur niður því greinin er afar skemmtileg, með leyfi forseta.

Millifyrirsögnin er: ,,Tekið sýni úr tengdó.``

,,Skrípaleikurinn breytist í háalvarleg brot á mannréttindum og persónuvernd einstaklingsins. Dag einn er tengdamamman tekin til yfirheyrslu og látin sanna það að hún sé virkilega móðir dóttur sinnar. Það er tekið af henni DNA-sýni til að sanna skyldleika hennar við dótturina. (Vá, það væri ljótt ef dóttirin hefði verið ættleidd á sínum tíma.) Jæja, komið hefur í ljós að hún sé virkilega mamma stúlkunnar. Þá (tekur plan B við?) taka við heimsóknir yfirvalda á heimili þeirra án dómsúrskurðar og heimsóknirnar geta átt sér stað hvenær sem er sólarhringsins. Þar sem upphaflegur grunur liggur í að þarna sé ekki um raunverulega ást að ræða heldur ,,málamyndabúskapur þá leita yfirvöld að sönnunargögnum um líf þeirra ...``.

Síðan leiðir Hákon meiri líkur að þessu og fer enn á kostum sem er eðlilegt að unga fólkið geri. Það eykur skilning sín á milli með því að setja þetta í samhengi. En að lokum segir hann, með leyfi forseta:

,,Skilaboðin eru skýr: Ef þú verður ástfanginn af útlendingi þá ertu einfaldlega í djúpum skít.``

Svo mörg voru orð Hákonar Skúlasonar, varaformanns Félags ungra framsóknarmanna.

Það eru enn alvarlegir ágallar á frv. sem komu fram í umræðunni í gær. Það hefur ekki verið komið með brtt. við þá og hefði átt að skoða það, en það á kannski eftir að láta reyna á frv. gagnvart dómstólum. Það væri kannski sú leið sem þyrfti að fara. En það er mjög erfitt fyrir útlendingasamfélagið að bjóða sig fram í slíkt. Það getur verið þungbært. Umræðan í dag heldur eflaust áfram og við munum greiða atkvæði eftir hádegi um þetta afleita frv.