Útlendingar

Föstudaginn 30. apríl 2004, kl. 12:12:24 (7290)

2004-04-30 12:12:24# 130. lþ. 107.1 fundur 749. mál: #A útlendingar# (aðlögunarheimildir stækkunarsamnings ESB og EES o.fl.) frv. 20/2004, ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 130. lþ.

[12:12]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Hæstv. forseti. Mig langar til að leggja nokkur orð í belg við 3. umr. um frv. til laga um breyting á lögum um útlendinga. Eins og komið hefur fram margoft og ítarlega í vel rökstuddu máli þingmanna stjórnarandstöðunnar er hér á ferðinni vægast sagt vafasöm lagasetning sem afhjúpar, því miður verð ég að segja, hæstv. forseti, viðhorf hæstv. ríkisstjórnar Íslands til veru og stöðu útlendinga hér á landi. Yfir það hefur verið farið, m.a. af þingmönnum Samf., í ítarlegu máli við umræðuna í dag og við 2. umr. málsins og að sjálfsögðu í umfjöllun hv. allshn. um málið. Ég hyggst ekki rekja á ný þær athugasemdir sem gerðar hafa verið eða fara efnislega í þær. Hins vegar langar mig til að setja málið í eilítið sögulegt samhengi en get þó ekki látið hjá líða í upphafi máls míns að minnast atkvæðagreiðslunnar við 2. umr. í gærkvöldi þar sem berlega sást hversu ótraustur meiri hluti ríkisstjórnarinnar er í þessu máli. Auðvitað hefði sá meiri hluti betur séð sóma sinn í því að samþykkja og afgreiða brtt. minni hlutans til þess þó að reyna að gera breytingar á lögum um útlendinga þolanlegar fyrir þá sem þurfa að sæta þeim lögum.

Saga útlendinga á Íslandi er ekki mjög löng. Vissulega hafa komið útlendingar til Íslands með einum eða öðrum hætti alveg frá upphafi Íslandsbyggðar og það voru að sjálfsögðu útlendingar sem námu land á Íslandi á 9. öld. Þeir voru bara svo heppnir að hér var enginn fyrir.

[12:15]

Hæstv. forseti. Á síðustu öld, 20. öld, og sérstaklega á seinni hluta þeirrar aldar fóru menn af erlendum uppruna að koma og setjast að á Íslandi af ýmsum ástæðum. Um miðja öldina, bæði fyrir og eftir seinni heimsstyrjöldina, komu hingað flóttamenn með einum eða öðrum hætti innan þess ófullkomna lagaramma sem þá gilti hér á landi. Því miður voru þeir fáir og í raun allt of fáir. Flestir komu hingað sem vinnufólk, t.d. ungar þýskar konur að lokinni seinni heimsstyrjöldinni þegar búið var að höggva slík skörð í hópa ungra karlmanna á meginlandinu að þar var ekkert að hafa í orðins fyllstu merkingu og eina vinnan sem var að fá var að gerast vinnukona á sveitabæ á Íslandi. Það var gæfa margra þessara kvenna að koma hingað og setjast hér að og mikil gæfa Íslendinga og afkomenda þeirra.

Sama gæfa fylgdi ekki börnunum, gyðingabörnunum, sem reynt var að bjarga frá Þýskalandi nasismans og flytja til landsins á fjórða áratugnum fyrir seinni heimsstyrjöldina. Um það höfðu forgöngu nokkrir einstaklingar hér á landi. Þar fór fremst í flokki Katrín Thoroddsen læknir, síðar þingmaður Sósíalistaflokksins, mikil baráttukona og einhver mesti kvenskörungur 20. aldarinnar hér á landi, leyfi ég mér að fullyrða. Hún vildi og reyndi að koma nokkrum hópi barna til landsins, ekki mörgum en nokkrum, en fékk engan skilning á aðstöðu barnanna hjá íslenskum stjórnvöldum, m.a. hjá Hermanni Jónassyni, þáv. hæstv. forsrh.

Sú saga öll er skammarlegur blettur á Íslandssögunni og lýsti miklu skilningsleysi, þekkingarleysi, skorti á umburðarlyndi og í raun fordómum í garð gyðinga á þeim tímum. Mér þykir margt sem rætt hefur verið hér á undanförnum dögum enduróma þann þekkingarskort, það skilningsleysi og í raun þá fordóma sem ríkja og eru andi þeirra laga sem hér eru rædd og þeirra breytinga sem verið er að reyna að gera.

Ég er ekki viss um, hæstv. forseti, að allir Íslendingar geri sér grein fyrir því að einn maður hefur fengið hæli á Íslandi sem flóttamaður fyrir utan það fólk sem hingað hefur komið í sérstökum aðgerðum sem Íslendingar hafa tekið þátt í á vegum Sameinuðu þjóðanna, að veita hópum flóttamanna, vel skilgreindum og vel völdum eins og fram hefur komið í umræðunni, hæli. Það hefur verið gert í nokkrum mæli á undanförnum 10--15 árum. Að því hefur verið vel staðið og ekkert nema gott um það að segja.

En eftir stendur sú staðreynd að einum manni í allri Íslandssögunni hefur verið veitt pólitískt hæli sem flóttamanni, einni sálu frá Afríkuríkinu Kongó. Þeir sem hafa kynnt sér sögu þess og óöldina sem þar hefur geisað lengi vita að þaðan hafa streymt margir flóttamenn og frá mörgum öðrum löndum. Það er eins og það gleymist í umræðunni að flóttamenn eiga sér oftast uppruna vegna stríða og átaka, vegna ofbeldis yfirvalda gagnvart tilteknum hópum, trúarhópum eða öðrum hópum innan samfélagsins, og að fólk er að flýja af raunverulegri og mjög alvarlegri ástæðu.

Hæstv. forseti. Vissulega eru flestir þeir sem flytja á milli landa í þeim miklu þjóðflutningum sem yfir standa í hnattvæddum heimi samtímans að leita að betra lífi, að leita betri kjara, betri menntunar, betri heilsugæslu og einfaldlega betri lífsgæða fyrir sig og afkomendur sína. Fólkið leggur mikið á sig til þess að komast til nýs lands þar sem aðstæður eru betri, þar sem börnin þeirra fá betri menntun og þar sem börnin eiga möguleika á því að komast til mennta og komast í stöðu sem ekki væri möguleiki á í heimalandinu.

Þetta gerir fólk m.a. með því að koma til Íslands og setjast hér að, annaðhvort tímabundið eða til lengri tíma og vinnur við störf sem jafnvel hæfa að engu leyti hæfni þess og menntun. Hér hafa hámenntaðir einstaklingar um allt land unnið í fiski, störf sem Íslendingar sækjast ekki eftir. Í raun má segja að einu útlendingarnir sem hér hafa sest að á síðustu árum og áratugum og hafa fengið störf í sínu fagi og við sitt hæfi séu að stórum hluta tveir hópar, það eru tónlistarmenn og tónlistarkennarar sem hafa glætt tónlistarlíf Íslands miklu lífi og í raun haldið tónlistarlífinu uppi víðast hvar út á landi t.d. og vísindamenn með mjög sértæka sérfræðiþekkingu sem hefur nýst í ákveðinni starfsemi, t.d. hjá Íslenskri erfðagreiningu svo dæmi sé nefnt.

Það er því að sjálfsögðu þannig að minni hluti þeirra útlendinga sem hingað koma æskir hælis sem flóttamenn. Þá hafa nokkrir einstaklingar fengið að jafnaði á ári hverju, örfáir einstaklingar reyndar, hæli af mannúðarástæðum. Þess er þó skemmst að minnast að tveir ungir drengir frá Srí Lanka voru sendir heim, eftir að þeim hafði að sögn íslenskra yfirvalda mistekist að færa sönnur á aldur sinn, í aðstæður þar sem er mikið óöryggi, borgarastyrjöld eiginlega yfirvofandi þó að heita eigi friður á Srí Lanka og í raun allar aðstæður fólks þannig að maður verður að spyrja sig með hvaða rökum íslensk stjórnvöld gátu sent drengina aftur til baka.

Sama var upp á teningnum hér vegna ungra hjóna, en örlög þeirra hlutu nokkra athygli í íslenskum fjölmiðlum. Mig minnir að unga konan hafi verið frá Úsbekistan og ungi maðurinn frá Afganistan. Í allri umfjöllun um aðstæður þessara ungu hjóna var algjörlega ljóst að þau yfirvöld sem í hlut áttu virtust ekki gera sér neina grein fyrir því við hvaða aðstæður þetta fólk þurfti að búa við í heimalöndum sínum, Úsbekistan og Afganistan, og það sem verra var, virtust ekki gera neitt til þess að rannsaka og komast að því hvernig lífi fólks er háttað í upprunalöndum og upprunahéruðum þessa unga fólks.

Það er einmitt þetta sem gerir það að verkum að það setur að mér ótta og jafnvel ógn við að standa frammi fyrir því, hæstv. forseti, að þær breytingar sem gerðar eru á útlendingalögunum, og munu líklega ganga í gegn síðar í dag, færa sömu yfirvöldum svo ótakmarkaðar valdheimildir til þess að rannsaka eða réttara sagt rannsaka ekki, ef svo ber undir, til þess að leggja huglægt mat á það hverjar aðstæður fólks séu, oft af ótraustum upplýsingum, og valdheimildir til þess, eins og komið hefur skýrt fram í máli margra hv. þm. stjórnarandstöðunnar, að skera úr um aðstæður fólks án þess að hafa nokkuð í höndunum sem hægt er að treysta á.

Íslendingar bjuggu lengi við lögin um útlendinga frá 1965, lögin um eftirlit með útlendingum. Þau lög voru endurnýjuð árið 2002 eins og flestum hér er í fersku minni. Þær endurbætur, ef svo má kalla, sem voru gerðar þá voru að mörgu leyti skref aftur á bak og því tækifæri sem þá gafst til þess að smíða almennilega útlendingalöggjöf sem mundi tryggja mannréttindi og réttarstöðu útlendinga hér á landi var hreinlega glutrað niður, hæstv. forseti, mjög meðvitað og af mjög skýrum pólitískum vilja meiri hlutans.

Nú, tveimur árum síðar, er vont orðið verra. Á ýmsu hefur maður átt von og þurft að horfa upp á á hinu háa Alþingi, en að hlýða á málflutning meiri hlutans og verða vitni að því hvernig brtt. minni hlutans voru felldar í gærkvöldi hefur valdið mér meiri vonbrigðum en flest annað sem ég hef orðið vitni að á hinu háa Alþingi, vegna þess að í viðhorfi meiri hlutans blundar svo óviðkunnanleg og ógeðfelld afstaða til þeirra sem ekki eru fæddir og uppaldir hér á landi að hún er í raun ótæk, hæstv. forseti. Það er með sorg í hjarta að ég sem þingkona Samf. stend hér og þarf að lýsa mig sigraða í málinu um sinn, hæstv. forseti. En sem betur fer eru haldnar kosningar reglulega á fjögurra ára fresti og vondum lögum má breyta þótt seint sé. Samt munu breytingarnar hafa gífurleg áhrif til hins verra á líf venjulegs fólks sem hingað vill koma til þess að búa og starfa, sem hingað vill koma til þess að sameinast fjölskyldu sinni, ömmur og afar í stórfjölskyldum sem koma til þess að hjálpast að, koma börnum á legg og styrkja og styðja fjölskylduna, ég hélt að það væri kostur, hæstv. forseti. Ég hélt að það væri kostur að styðja og styrkja fjölskylduna, því fjölskyldur eru jú hornsteinar samfélagsins, ekki satt? Víðast hvar annars staðar en hér á landi lifir stórfjölskyldan góðu lífi og er forsenda þess að fólk fái þrifist, komist á legg og komist til mennta.

Þess vegna er mörgum þeim útlendingum sem hér hafa sest að mikið kappsmál og mikið hjartans mál að fá hingað aðra fjölskyldumeðlimi sína. Það er ekki að ástæðulausu. Það er ekki til þess, hæstv. forseti, að fólk geti fundið ,,hjáleið`` inn á íslenskan vinnumarkað, eins og svo ósmekklega er að orði komist.

Hvað er það við íslenskan vinnumarkað sem gerir hann að heilagri kú? Við þurfum á erlendu vinnuafli að halda, bara svo því sé haldið til haga í umræðunni. Við þurfum á því að halda við stórar framkvæmdir og litlar framkvæmdir. Við megum ekki við því, hæstv. forseti, að vanþakka og afþakka starfskrafta þess fólks sem vill búa og starfa hér. Við erum ekki þannig í stakk búin, 290 þúsund sálir á Íslandi árið 2004. Þannig gerist það bara ekki í heiminum í dag.

Þess vegna er miklu mikilvægara að lækka múrana, fella niður hindranirnar og gera frjálsa för fólks um heiminn að raunverulegri frjálsri för þar sem réttarstaða einstaklinganna er skýr og viðmót þannig í löndunum sem farið er til að við gætum hugsað okkur að vera í þeirra sporum ef við þyrftum að flytjast úr landi og fara eitthvert annað. Það er holl regla, hæstv. forseti, að reyna að setja sig í spor annarra.

Íslendingar, útblásnir af þjóðarstolti, gera allt sem þeir geta til að halda uppi minningu, orðspori, starfi og sögu vesturfaranna. Þjóðrækni heitir það og er ágæt fyrir sína parta. En eins og fram hefur komið við umræðurnar í dag var vesturförunum ekki alltaf vel tekið þó aðstæður væru um margt allt aðrar í heiminum fyrir 100--150 árum en nú eru.

[12:30]

Hvað mundi gerast í íslensku samfélagi ef t.d. Víet\-namarnir sem hér búa stofnuðu þjóðræknisfélag Víetnams? Skyldu þeir sem hafa fellt breytingar minni hlutans og staðið að þessum vondu lagabreytingum fyllast einhverjum ótta vegna þess að þeir útlendingar sem hér búa vilja að sjálfsögðu halda í uppruna sinn, menningu, minningar og sögu? Af því að það er eins mikill hluti af þeim og það að búa á Íslandi og vera nýir Íslendingar. Það virðist ekki örla á skilningi fyrir því í þeim lögum sem sett voru 2002 og hér er verið að breyta til verri vegar eins og fram hefur komið.

Mig langar líka að minnast aðeins á málamyndahjónaböndin sem virðast orðin eitt af því er ógnar helst öryggi íslenska ríkisins. Öðruvísi mér áður brá, hæstv. forseti. Það hefur komið skýrt fram í athugasemdum þeirra sem gjörst þekkja, þeirra sem best þekkja til, að þær breytingar sem hér eru lagðar til um aldurshámark duga ekki gegn málamyndahjónaböndum. Þær duga ekki til, hæstv. forseti. Félag erlendra kvenna á Íslandi hefur tekið það mjög skýrt fram og fært að því gild rök að í samfélögum þar sem málamyndahjónabönd tíðkast þá tíðkast þau alveg án tillits til aldurs. Þau eru undir öðrum félagslegum aðstæðum komin. Þess vegna, eins og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir fór ítarlega yfir áðan, mun þetta ákvæði að öllum líkindum engu breyta og alls ekki styrkja stöðu þeirra kvenna sem lenda í því að vera ráðstafað í málamyndahjónabönd, þó að það sem ráði ferðinni í þessari breytingu sé reyndar ekki að mínu viti staða kvennanna heldur miklu frekar það að þær geti komið hingað og fengið dvalarleyfi.

Hæstv. forseti. Að lokum þykja mér breytingarnar í raun endurspegla markaleysi íslenskra stjórnvalda, hæstv. ríkisstjórnar, í umfjöllun sinni um friðhelgi einkalífs og þær breytingar sem hér er verið að gera. Lífsýnatakan hefur verið rædd í þaula, í sjálfu sér er ekki annað um hana að segja en að hún stenst engan veginn, og það vita allir sem vilja horfast í augu við það að skyldleikabönd eru ekki alltaf blóðbönd nema síður sé, hæstv. forseti. Sú breyting á án efa eftir að koma yfirvöldum hér í meiri vandræði en minni. Ég þori að spá því, hæstv. forseti.

En markaleysið og stjórnlyndi ríkisstjórnar Íslands og þær valdheimildir sem yfirvöldum eru færð hér endurspegla því miður, eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar, viðhorf til veru og stöðu útlendinga hér á landi sem er ógeðfellt, svo vægt sé til orða tekið, og hefur lítið með það að gera að tryggja réttarstöðu þeirra, mannréttindi, mannlega reisn, og sýnir ekki skilning á aðstæðum þess fólks sem hingað vill koma og deila með okkur kjörum og lífi.