Útlendingar

Föstudaginn 30. apríl 2004, kl. 12:39:50 (7295)

2004-04-30 12:39:50# 130. lþ. 107.1 fundur 749. mál: #A útlendingar# (aðlögunarheimildir stækkunarsamnings ESB og EES o.fl.) frv. 20/2004, BrM
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 130. lþ.

[12:39]

Brynja Magnúsdóttir:

Hæstv. forseti. Eftir ansi langa atkvæðagreiðslu í gær og augljósan vilja til engra breytinga á frv. þessu langar mig aðeins að tala um lokaathugasemdir nefndar Sameinuðu þjóðanna um afnám kynþáttamisréttis. Þetta er reyndar skýrsla frá 2001 og það eiga eftir að koma viðbrögð við reglulegri skýrslu sem er væntanleg. Mig langar að lesa aðeins úr fréttatilkynningunni, með leyfi forseta:

,,Hér eru lokaathugasemdir nefndar Sameinuðu þjóðanna um afnám kynþáttamisréttis um það hvernig íslenska ríkið hefur framfylgt skuldbindingum sínum samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um afnám alls kynþáttamisréttis frá 1965. Athugasemdirnar eru gerðar í kjölfar fundar nefndarinnar með íslenskri sendinefnd í Genf í Sviss 7. mars sl. Samkvæmt 9. gr. samningsins um afnám alls kynþáttamisréttis ber aðildarríkjum samningsins að skila reglulega til Sameinuðu þjóðanna skýrslu um ráðstafanir sem þau hafa gert til að fullnægja skuldbindingum sínum samkvæmt samningnum. Á síðasta ári skilaði Ísland 16. skýrslu sinni til nefndarinnar og var hún jafnframt send fjölmiðlum til upplýsingar þann 25. september 2000. Á fundinum í Genf voru ræddar 15. og 16. skýrsla Íslands um framkvæmd samningsins á Íslandi.``

Í athugasemdum nefndarinnar er lýst ýmsum jákvæðum atriðum varðandi framkvæmd samningsins, m.a. stjórnarskrárbreytingum sem bættu jafnræðisreglu og bann við mismunun við stjórnarskrána. Einnig er lýst ánægju með aðgerðir ríkis og sveitarfélaga um stofnun miðstöðvar fyrir innflytjendur á Vestfjörðum og stofnun menningarmiðstöðvar nýbúa í Reykjavík í Alþjóðahúsinu, svo og breytingar sem hafa verið gerðar á námskrám leikskóla og grunnskóla þar sem hvatt er til umburðarlyndis.

Ísland á eftir að skila sinni reglulegu skýrslu til Sameinuðu þjóðanna en það átti að gerast 4. janúar 2004. Ég hóf leit mína að skýrslunni í mars en ég veit þó að vinna er hafin í dómsmrn. að þessari skýrslugerð og mun ljúka fljótlega. Miðað við umsagnir Sameinuðu þjóðanna 22. mars 2001 hefur íslenska ríkið verið að standa sig. Gerðar voru ýmsar stjórnarskrárbreytingar sem bættu jafnræðisreglu og bann við mismunun við stjórnarskrána. Það er því óneitanlega stílbrot þegar við förum að mismuna einstaklingum á grundvelli uppruna, að vegna þess að einhver er útlendingur gildi aðrar reglur um hann.

Það verður athyglisvert að sjá hvort skýrslan sem væntanleg er frá dómsmrh. geri að umfjöllunarefni sínu lagabreytingarnar sem eru nú til umræðu og það misrétti sem í þeim er beitt á margan hátt. Það verður líka athyglisvert að lesa skýrslu nefndar Sameinuðu þjóðanna um afnám kynþáttamisréttis þegar hún kemur í kjölfarið. Ég leyfi mér að efast um að nefnd Sameinuðu þjóðanna skili jafnjákvæðum viðbrögðum og hún gerði 2001.

Mig langar að lesa hérna 4. athugasemdina í skýrslu Sameinuðu þjóðanna, með leyfi forseta:

,,Ásetningur aðildarríkisins til að fylgja samningi um afnám kynþáttamisréttis og virða eftirlit nefndar um afnám kynþáttamisréttis á framkvæmd hans er nefndinni fagnaðarefni. Hún veitir með ánægju athygli hinni jákvæðu viðleitni þess til að koma í veg fyrir mismunun á grundvelli þjóðernisuppruna og til að tryggja hinum vaxandi fjölda innflutts og erlendis fædds fólks jafnrétti og vernd gegn mismunun, en sú breyting er nýleg fyrir lítið ríki.``

Þetta litla ríki, Ísland, var að taka krappa hægri beygju og hverfa frá þessari stefnu. En viðhorfið þessa dagana er: Þeir leita þá bara réttar síns.