Útlendingar

Föstudaginn 30. apríl 2004, kl. 12:53:38 (7297)

2004-04-30 12:53:38# 130. lþ. 107.1 fundur 749. mál: #A útlendingar# (aðlögunarheimildir stækkunarsamnings ESB og EES o.fl.) frv. 20/2004, PHB
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 130. lþ.

[12:53]

Pétur H. Blöndal:

Frú forseti. Við erum hér við 3. umr. um frv. til laga um breyting á lögum um útlendinga. Meginástæða þess er sú að á morgun verður Evrópusambandið stækkað úr 15 ríkjum í 25, þ.e. þar fjölgar um tíu ríki. Vegna ákvæða um frjálsan flutning fólks á milli landa Evrópusambandsins og innan Evrópska efnahagssvæðisins á að lögfesta frest á gildistöku þess að fólk geti farið frjálst á milli landa.

Þegar maður skoðar Evrópusambandið vekur það athygli að það er nánast eingöngu búsett hvítum mönnum. Það er markaðssvæði sem rammað er inn í mjög sterka tollmúra til að halda uppi og verja ákveðin lífskjör sem þessir hvítu menn búa við.

Raunveruleikinn á jörðinni er sá að einn fjórði mannkyns þarf að lifa á undir einum dollara á dag, þ.e. 70 kr. eða 2.000 kr. á mánuði. Það er hinn nakti raunveruleiki. Af þeim fjölda, sem er einn og hálfur milljarður manna, er einhver hluti sem þarf að lifa á enn minna og á hverjum degi deyja margir úr hungri, svo margir að síðan ég tók til máls hefur sennilega einhver tugur dáið úr hungri.

Þetta er hinn nakti raunveruleiki en menn horfast ekki í augu við þennan veruleika og í því kristallast þessi umræða. Það er ákveðinn tvískinnungur í umræðunni og hræsni sem felst í því að menn tala fjálglega um jafnrétti, mannréttindi og slíkt en horfa fram hjá hinum nakta veruleika.

Ég held að allir mundu vilja leyfa frjálsa för fólks um alla jörð en afleiðingarnar yrðu hræðilegar. Lífskjörum er svo misskipt og það yrðu þvílíkir fólksflutningar, hjá því fólki sem þarf að lifa á undir einum dollara á dag yfir til hinna ríkjanna, að lífskjör mundu sennilega alls staðar hrapa. Þetta er hinn harði veruleiki.

Við Íslendingar höfum tekið á móti flóttamönnum. Það hafa verið miklar aðgerðir. Við höfum barið okkur á brjóst og sagt: Við erum góð þjóð og tökum á móti flóttamönnum með viðhöfn. En ef menn fara að skoða það nákvæmlega þá kemur dálítið merkilegt í ljós. Þeir flóttamenn eru allir hvítir og auk þess allir menntaðir. Á meðan eru tugir milljóna flóttamanna á reiki um eyðimerkur jarðarinnar eða í flóttamannahverfum stórborga og hafa engan möguleika á að koma til Íslands. Þannig er nú veruleikinn.

Undanfarið hefur verið rætt um það að styrkir til einnar atvinnugreinar, sykurframleiðslu, í Evrópusambandinu, í Bandaríkjunum og víðar, til mjög fárra aðila, valdi því að fátækir bændur í löndum sem framleiða sykur, t.d. á Kúbu og í Afríku og víðar, geti ekki selt vöru sína og verði hungrinu að bráð. Menn hafa talað um það að styrkirnir drepi fólk. Á meðan erum við, á Alþingi Íslendinga, að tala um jafnrétti og mannréttindi, að tala um örfáa útlendinga úr þessu feikna mannhafi sem hingað hafa slæðst.

Afleiðing hinnar miklu misskiptingar, sem er veruleiki á jörðinni, er mansal, smygl á fólki, þar sem fólk er lokað innan ákveðinna landamæra og jafnvel þótt það eigi peninga þá kemst það ekki burt. Það borgar fyrir að komast burt. Því er smyglað og við sjáum afleiðingar þess stundum í því að fólk kafnar í gámum einhvers staðar, einhverjir drukkna á leiðinni frá Kúbu yfir til Bandaríkjanna og margir eru teknir höndum á landamærum Mexíkós og Bandaríkjanna. Þetta eru örfá dæmi sem skolar til okkar á bylgjum fréttanna. Við vitum minnst um það sem er að gerast. Þetta er hinn nakti veruleiki.

Hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir hélt ágæta ræðu og ég gat tekið undir nánast allt sem hún sagði, nema þegar ég fór að hugsa um þennan veruleika. Þá gengur þetta bara ekki upp. Við getum því miður ekki beitt fullkominni mannúð gagnvart hinum nakta veruleika. Við erum í rauninni að framfylgja þeirri stefnu að loka þessu landi eins og við höfum gert.

Hv. þm. talaði um íslenskan vinnumarkað, að hann væri engin heilög kýr. En hún sagði jafnframt að þetta væri markaður, sem þýðir það að ef of mikið framboð er á vinnuafli, t.d. með frjálsum innflutningi á fólki alls staðar að úr heiminum, þá mundu launin á Íslandi hrapa, burt séð frá öllum kjarasamningum, af því að þetta er markaður. Íslendingar yrðu atvinnulausir, launin mundu hrapa og lífskjörin á Íslandi sömuleiðis. Ég held að það sé miklu betra að við Íslendingar vinnum að því að efla frjálsræði í viðskiptum í heiminum og reynum þannig að bæta stöðu þess fólks sem lifir á undir einum dollara á dag.

Til landsins koma einstaklingar, margir hverjir giftast Íslendingum í útlöndum, sem samkvæmt lögum eiga sjálfvirkan rétt til dvalarleyfis. Við erum að tala um það. Það er í því sambandi sem menn setja á ýmsar kvaðir vegna þess að ef einn maður kemur með einstakling með sér og svo kemur fjölskylda hans þá koma þeir einstaklingar með fjölskyldu með sér líka og þannig getur þetta orðið snjóbolti sem hleður utan á sig. Þessi sjálfvirka og mannúðlega stefna grefur þannig undan þeim raunveruleika sem við búum við.

(Forseti (JóhS): Ég vil spyrja hv. þm. hvort hann kjósi að fresta ræðu sinni eða hvort hann geti lokið henni á stuttum tíma.)

Ég er eiginlega alveg búinn. Ég tel að þessi umræða kristallist í þessu, þ.e. húmanískri draumsýn og einhverju sem við ættum í sjálfu sér alltaf að stefna að, sem rekst því miður á raunveruleikann sem er allt, allt annar.