Útlendingar

Föstudaginn 30. apríl 2004, kl. 13:05:56 (7300)

2004-04-30 13:05:56# 130. lþ. 107.1 fundur 749. mál: #A útlendingar# (aðlögunarheimildir stækkunarsamnings ESB og EES o.fl.) frv. 20/2004, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 130. lþ.

[13:05]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Frú forseti. Ég er sammála hv. þm. að starf þeirra sem þurfa að taka á móti útlendingum af hálfu ríkisins og greina sauðina frá höfrunum er erfitt. Ég hef líka töluverða reynslu af því og sú reynsla hefur fært mér heim sanninn um að starfið er vanþakklátt, en ég held að á heildina litið sé það vel unnið og af sanngirni.

Við þurfum að gera starfsmönnum ríkisins eins auðvelt fyrir og hægt er. Við megum hins vegar aldrei stíga yfir þá línu, jafnvel þó að við viljum auðvelda fólkinu starfið, þar sem við erum komin inn í friðhelgi manna. Þá skiptir engu máli hvort um er að ræða útlendinga eða Íslendinga. Allir menn hafa ákveðinn lágmarksrétt. Við erum aðilar að alþjóðlegum samningum og sáttmálum sem gera þá kröfu að við, íslenska þjóðin, virðum friðhelgi og persónulegan rétt allra.

Það er farið að seilast ansi langt inn í friðhelgi manna þegar gera á því skylt t.d. að afhenda lífsýni. Ég held reyndar að almennt séum við komin allt of mikið inn á þá braut. Í þessu tilviki gæti það verið nauðsynlegt að mati frumvarpsflytjenda til að ganga úr skugga um að börn séu í reynd niðjar þeirra sem segjast vera foreldrar þeirra.

Frú forseti. Ég var í námi í Bretlandi og þegar DNA-tæknin kom þar fram og farið var að beita henni almennt í rannsóknarskyni sem nýju tæki á breska samfélagið vakti það mikið uppnám. Það kom í ljós að fast að 15% barna í sumum hlutum Bretlands voru rangfeðruð. Hvert er þá gildi þessa ef svona er í pottinn búið?