Útlendingar

Föstudaginn 30. apríl 2004, kl. 13:08:08 (7301)

2004-04-30 13:08:08# 130. lþ. 107.1 fundur 749. mál: #A útlendingar# (aðlögunarheimildir stækkunarsamnings ESB og EES o.fl.) frv. 20/2004, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 130. lþ.

[13:08]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þm. að allir menn ættu að hafa ákveðinn lágmarksrétt, en þeir hafa hann því miður ekki. Sá maður eða það barn, líklegast barn, sem deyr á næsta hálftímanum úr hungri hefur ekki þann algera lágmarksrétt, sem er rétturinn til lífsins, sem er grundvallaratriði að mínu mati.

Við erum því að tala fræðilega, en ekki raunverulega. Raunveruleikinn er annar.

Varðandi lífsýnin. Það er rétt að rangfeðranir eru til staðar. Þær eru reyndar færri á meðal Íslendinga en annars staðar, en hjá þeim sem flytjast hingað gætu þær þess vegna verið um 5--10%. Við náum þá alla vega í hina, 90%, og alltaf er verið að byggja á ákveðnum líkum.

Við erum að koma í veg fyrir að verið sé að stunda mansal. Ef það tekst að hindra eitt slíkt á ári tel ég markmiðinu náð, jafnvel þó menn þurfi að ganga nokkuð langt inn á rétt einstaklinga. Við verðum alltaf að vega og meta ákveðna hagsmuni gagnvart enn meiri hagsmunum. Mansal er að mínu mati alveg hræðilegt fyrirbrigði sem ætti að berjast gegn með öllum ráðum.