Útlendingar

Föstudaginn 30. apríl 2004, kl. 13:31:06 (7302)

2004-04-30 13:31:06# 130. lþ. 107.1 fundur 749. mál: #A útlendingar# (aðlögunarheimildir stækkunarsamnings ESB og EES o.fl.) frv. 20/2004, JÁ
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 130. lþ.

[13:31]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Mig langar til að segja fáein orð um þetta þingmál sem hér er að ferðinni eða þann anda sem mér finnst vera á bak við það að sumu leyti. Það sem rekur mig í ræðustólinn er kannski það að ég hef í gegnum tíðina svolítið skammast mín fyrir afstöðu okkar í málefnum útlendinga. Það er nefnilega ekkert nýtt. Við Íslendingar höfum á undanförnum árum flutt til landsins, leyft að koma hingað útlendingum í þúsunda tali til þess að vinna af því okkur hefur vantað vinnuafl. Þetta hefur reynst vera hið ágætasta fólk. Reynslan af þeim útlendingum sem hingað hafa komið vegna þess að atvinnurekendur hefur vantað vinnuafl hefur verið mjög góð. Ég hef hins vegar tekið eftir því að jafnvel þó við þurfum á þessu vinnuafli að halda þá hafa á sama tíma hvað eftir annað komið upp mál þar sem fólk hefur sóst eftir því að fá að koma hingað frá t.d. öðrum svæðum en EES-svæðinu og þá hefur því fólki verið snúið frá. Við höfum sem sagt fyrst og fremst hleypt erlendum mönnum til landsins til þess að nýta þá í okkar þágu efnahagslega en haldið landinu harðlokuðu gagnvart þeim sem við getum komið í veg fyrir að komi. Þessi stefna er auðvitað sú stefna sem verið er að árétta með þeim ákvæðum sem hér er verið að tala um að hafa í lögum.

Það sem kemur svo til viðbótar er að hér eru menn tilbúnir til þess að láta aðra reglu gilda um fólk af erlendu bergi brotið en Íslendinga sjálfa. Það er að mér finnst óverjandi og okkur til minnkunar að það skuli vera meiningin.

Það er líka svolítið umhugsunarefni að fólk kemur hingað annars staðar úr heiminum og líka af svæðum utan EES á ýmsum forsendum, vegna hjúskapar t.d., og það er ekkert verið að tala um að gera neinar breytingar á því. Ef íslenskir karlmenn eða konur finna maka annars staðar í heiminum þá geta þau komið hingað með hann og ekkert er við því að segja. Ég held ekki að neinn hafi látið sér detta í hug að reyna að koma í veg fyrir það fyrr en nú að það skal verða aldurstengt af því að menn halda að eitthvað sé um það að stofnað sé til hjónabanda sem ekki séu í alvöru. Hjónabönd sem eru ekki í alvöru geta líka orðið til hjá fólki sem er komið á miðjan aldur eða jafnvel roskið, a.m.k. hafa ekki öll hjónabönd enst lengi sem stofnað hefur verið til á Íslandi eða af Íslendingum. Það þekki ég. Við vitum að sumir tala jafnvel um innflutning á konum til Íslands sem hafa gifst íslenskum mönnum. Í kjölfarið hefur síðan orðið einhver innflutningur á fjölskyldumeðlimum viðkomandi fólks.

Þetta er ekki vandamál á Íslandi. Þetta er tiltölulega mjög lítill hópur og einungis pínulítið brot af þeim útlendingum sem eru í landinu. En útlendingarnir sem eru í landinu eru langflestir hingað komnir, eins og ég sagði áðan, vegna þarfa atvinnulífsins og hafa verið undir ákvæðum sem er náttúrlega ekki hægt að kalla annað en ánauð fram að þessu því leyfi fólksins til að fá að vera í landinu hefur verið bundið því að atvinnurekandinn hafi slíkt leyfi. Þetta er nú ekki mjög björgulegt og hefur ekki verið. En vonandi verður breyting á þessu. Hins vegar er alveg ljóst að á Alþingi er meiri hluti þingmanna tilbúinn til að rétta hendurnar með því að gera upp á milli fólks eftir því hvaðan það kemur. Ef það kemur ekki af þeim svæðum sem við höfum gert samkomulag um, t.d. EES-svæðinu, og við sjáum fram á frjálsa för vinnuafls af öllu því svæði til Íslands, þá skulum við setja reglur sem girða einhvern veginn fyrir það að menn komi annars staðar að.

Mér finnst satt að segja að hættumerkin hafi nú ekki verið uppi um að það væru skriður á fólki á leiðinni hingað af öðrum svæðum. Þeim sem eru komnir á minn aldur er minnisstætt að þegar opnaðist fyrir innflutning fólks af Norðurlöndunum hingað á sínum tíma, voru hér spár um að menn mundu flytja hingað í þúsundavís af atvinnuleysissvæðum þeirra landa. (Gripið fram í: Finnar.) Finnar áttu að koma hingað í stórum hópum. Ég hef ekki orðið var við að Finnar væru hér í miklum mæli. Ef það er hugsunin að utan Evrópska efnahagssvæðisins sé meiri menningarlegur munur á Íslendingum og þeim sem þar búa heldur en innan Evrópska efnahagssvæðisins þá held ég að menn þurfi nú kannski að skoða það dálítið. Ég held ekki að það sé þannig.

Í raun er ekki hægt að sjá nein rök fyrir því að Íslendingar þurfi að múra sig inni eins og þarna er gert á annan veginn eftir að þeir eru búnir að opna landið með þeim hætti sem fyrir liggur að við erum búin að taka ákvörðun um, þ.e. að ekki seinna en innan sjö ára verði allt Evrópska efnahagssvæðið opið gagnvart innflutningi á fólki til Íslands.

Þetta er nú það sem ég vildi láta koma hér fram vegna þess að mér finnst að efnahagslegar ástæður fyrst og fremst, og einhvers konar þjóðernisástæður að einhverju leyti sem engin leið er þó að sjá rök fyrir, hafa ráðið öllu á Íslandi. Engin hætta er fólgin í því að flytja inn fólk ef atvinnurekendur vantar vinnuafl í landinu. En það er einhver stór hætta fólgin í því að hleypa inn jafnvel örfáum mönnum sem hafa lent í erfiðleikum, orðið landflótta eða af einhverjum ástæðum langað til að setjast að á Íslandi, fólki sem er að leita eftir búsetu og atvinnu. Það er eitthvað undarlegt við þessa afstöðu okkar. Við þurfum að fara yfir hana. Við þurfum að taka svolítið til í hugskoti okkar hvað þetta allt saman varðar finnst mér. Ég hvet til þess að menn geri það, velti þessu fyrir sér.

Pólverjar hafa komið hingað í stórum stíl. Þeir voru ekki innan Evrópska efnahagssvæðisins þegar sá innflutningur varð. Nú eru þeir að koma inn í það svæði og eftir í síðasta lagi í sjö ár getur hvaða Pólverji sem er tekið saman föggur sínar og flutt til Íslands. Ég ætla ekki að kvarta yfir því að svo sé eða verði. En kannski er mesta hættan, ef menn líta á það sem hættu að útlendingar komi hingað, fólgin í því að þjóðarbrot sem hefur náð fótfestu hérna vaxi hratt. Slík hætta hefur ekki verið fyrr hendi á Íslandi fyrr ef á að kalla það hættu. Hún hefur orðið til með þeim hætti sem ég var að lýsa hér, þ.e. þeim möguleikum. Ég er ekki að spá því að mikill innflutningur verði. En mér finnst svolítið skrýtið að Alþingi Íslendinga skuli upptekið við að setja net fyrir einhver vandamál sem hafa engin verið, þ.e. að fólk einhvers staðar annars staðar af jarðkúlunni fái að koma hingað af einhverjum tilteknum ástæðum, því við höfum bara ekki verið að fást við nein stórkostleg vandamál hvað þetta varðar fram að þessu.

En fyrst og fremst vil ég mótmæla því að Íslendingar leyfi sér að líta mismunandi augum á fólk eftir því hvaðan það kemur úr heiminum hvað varðar rétt til þess að mega ganga í hjónaband og fá þau réttindi sem því fylgja. Ég sé satt að segja ekki nein rök fyrir því. Mér finnst ekki að þau hafi komið hér fram við umræðuna. Ég hef að vísu ekki hlustað á nema hluta af henni. En ég hef engin rök heyrt sem mér finnst geta staðið undir nafni hvað þetta atriði varðar. Skal ég nú ekki hafa ræðu mína lengri, hæstv. forseti.