Útlendingar

Föstudaginn 30. apríl 2004, kl. 13:47:42 (7304)

2004-04-30 13:47:42# 130. lþ. 107.1 fundur 749. mál: #A útlendingar# (aðlögunarheimildir stækkunarsamnings ESB og EES o.fl.) frv. 20/2004, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 130. lþ.

[13:47]

Össur Skarphéðinsson:

Frú forseti. Ég hef ekki áður haldið ræðu um frv. sem við erum að leggja lokahönd á. Flest þau viðhorf sem Samf. og stjórnarandstaðan hafa andstæð frv. hafa þegar komið fram þannig að ég ætla ekki að setja á langa ræðu. Það eru tvö atriði sem ég vildi drepa á til þess að afstaða mín væri algjörlega skýr og jafnframt að það lægi fyrir hvaða viðhorf liggja henni til grundvallar.

Sú setning sem fleygust er eftir umræðuna er sú sem hv. þm. Jónína Bjartmarz lét sér um munn fara í gær. Hv. þm. sagði: ,,Ástin sér hvorki aldur né landamæri.`` Ég held að í þessu felist kjarninn í viðhorfum margra þeirra sem leggjast gegn hinni svokölluðu 24 ára reglu. Sú regla kemur að vísu ekki fortakslaust í veg fyrir að fjölskyldur sameinist, en hún meinar að Íslendingar á grundvelli hjúskapar fái til sín maka erlendis frá sem er af erlendu bergi brotinn hingað til dvalar. Það má því segja að með ákvæðinu sé verið að seilast inn fyrir friðhelgi fjölskyldunnar. Ég tel að þetta fari harkalega nærri því að brjóta það sem við getum kallað sjálfsögð mannréttindi hér á landi. Ég leggst gegn ákvæðinu. Reyndar var athyglisvert hversu sterklega hv. þm. Jónína Bjartmarz tók til máls gegn því.

Það vekur eftirtekt í umræðunni sem hér hefur staðið linnulítið í tvo daga að það hafa fyrst og fremst verið talsmenn stjórnarandstöðunnar annars vegar og talsmenn Sjálfstfl. hins vegar sem hafa tekist á. Talsmenn Sjálfstfl. hafa eftir atvikum verið að verja hæstv. dómsmrh., enda sannarlega ekki vanþörf á þessa síðustu og verstu daga í pólitíska lífi hans, en maður spyr óneitanlega: Hvar er Framsfl. í umræðunni? Það eru fyrst og fremst aðrir stjórnarliðar sem eru til varnar í málinu.

Það er erfitt að skýra þetta með öðrum hætti en þeim, frú forseti, að Framsfl. hefur ekki fullvissu fyrir því að frv. sé gott. Talsmenn hans sem tjá sig leggjast gegn lykilatriðum frv. eins og fram kom í gær. Andstaðan innan Framsfl. er það sterk að grípa þurfti til neyðarráðstafana til þess að tryggja meiri hluta ríkisstjórnarinnar í málinu. Þetta finnst mér merkilegt í ljósi þess að hvert málið á fætur öðru hefur rekið á fjörur þingsins þar sem Framsfl. er bersýnilega píndur af Sjálfstfl. til stuðnings við mál. Það er farið að einkenna núverandi ríkisstjórn að Sjálfstfl. ræður för í einu og öllu og tekur Framsfl. með sér með afli og offorsi.

Ég áfellist ekki hæstv. ráðherra eða hv. þm. Sjálfstfl. fyrir þetta. Eðlilega ganga þeir á lagið. Maður hlýtur hins vegar að spyrja: Hvar er sjálfsvirðing Framsfl. þegar hann hagar sér svona í hverju málinu á fætur öðru? Ætlar Framsfl. að láta bjóða sér hvað eina?

Það hefur líka komið fram í umræðunni, frú forseti, að mikil andstaða er við annað atriði meðal stjórnarandstöðunnar, en líka af hálfu einstakra þm. Framsfl. Hv. þm. Jónína Bjartmarz og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson lögðust gegn ákvæðinu um lífsýnatöku. Það er mjög skiljanlegt. Það brýtur gegn viðteknum venjum og skoðunum, sérstaklega Framsfl. á persónuvernd. Ég rifja upp að fáir hafa tekið jafnsterklega til máls um nauðsyn þess að setja skýr mörk um persónuvernd og friðhelgi einstaklinga og ýmsir þingmenn Framsfl. á umliðnum missirum og árum. Þess vegna er merkilegt að einu framsóknarmennirnir sem láta í sér heyra svo eftir sé tekið eru andstæðir frv. Maður hlýtur að spyrja: Hvar eru hinir? Hvers vegna koma þeir ekki og túlka eftir atvikum hvernig á því stendur að þeir styðja frv.?

Við í Samf. höfum lagst gegn því að Útlendingastofnun fái heimild til þess að geta krafist þess að umsækjandi gangist undir lífsýnatöku. Ég vek sérstaka eftirtekt á því að ef viðkomandi leggst gegn því er hægt að túlka það með harkalegum hætti gegn honum og að sjálfsögðu rýrir það mjög möguleika hans til þess að koma umsókn sinni í gegnum nálaraugu kerfisins.

Það sem mér finnst merkilegt, vegna þess að hér eru margir lögspakir menn í hópi stjórnarliðsins sem hafa hlustað á umræðuna, er sú staðreynd að Lögmannafélag Íslands, sjálf laganefnd Lögmannafélags Íslands, er í reynd sniðgengin með frv. Það hefur komið fram í umsögnum af hennar hálfu að hún telur of langt gengið inn á friðhelgi einkalífs og fjölskyldu með ákvæðinu. Fróðlegt væri að heyra hvað hinum ungu og vísu lögmönnum í liði Sjálfstfl., eins og hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni, finnst um þetta? Ég reyndar veit það, vegna þess að ég hef hlýtt á ágætlega flutt mál hv. þm. varðandi þetta efni. En óneitanlega er fróðlegt að sjá ungan mann í lögmannastétt bersýnilega vísa í einu vetfangi á bug þeim ítarlegu röksemdum sem laganefnd Lögmannafélagsins setti fram í málinu.

Frú forseti. Það eru einkum þessi tvö atriði sem ég get ekki fellt mig við í frv. Ég hef ekki haldið ræður til þess að skýra það fyrr, en ég vildi að það kæmi algjörlega skýrt fram að ég er þessu mótfallinn og er undrandi á umræðunni og sérstaklega er ég undrandi á þögn Framsfl. í málinu. Það sem kemur frá þeim er fyrst og fremst andstaða við málið, en við höfum ekki enn heyrt skýlaus rök frá hv. þm. Framsfl. sem eru andstæðrar skoðunar við félagana, hv. þm. Jónínu Bjartmarz og Kristin H. Gunnarsson.