Útlendingar

Föstudaginn 30. apríl 2004, kl. 13:54:55 (7305)

2004-04-30 13:54:55# 130. lþ. 107.1 fundur 749. mál: #A útlendingar# (aðlögunarheimildir stækkunarsamnings ESB og EES o.fl.) frv. 20/2004, SKK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 130. lþ.

[13:54]

Sigurður Kári Kristjánsson (andsvar):

Frú forseti. Kjöftugum rataðist satt orð á munn þegar hann sagðist ekki hafa haldið neina ræðu um frv. fram til þessa, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, og ekki lagði hann málstaðnum mikið lið í ræðu sinni. Hann talaði mikið um að heimild Útlendingastofnunar samkvæmt frv. til þess að fara fram á að þeir sem óska eftir dvalarleyfi leggi fram lífsýni ef öðrum gögnum er ekki til að dreifa sé árás á friðhelgi persónufrelsis þeirra og hart inngrip inn í einkalíf þeirra. Svo er ekki. Ef hv. þm. les frv. kemur í ljós að þetta er einungis heimild til þess að fara fram á að lífsýni sé lagt fram. Viðkomandi einstaklingi er alltaf heimilt að hafna þeirri beiðni eða kröfu. Ákvæðið getur því aldrei verið íþyngjandi í þeim skilningi sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson leggur í það.

Við verðum líka að gera okkur grein fyrir því að Útlendingastofnun er stjórnvald eins og önnur stjórnvöld í landinu og ber að fara að lögum sem slíkt. Ef það liggur fyrir að umsækjandi um dvalarleyfi hefur gögn sem sanna hver hann er og skyldleika hans við þá aðila sem hann krefst dvalarleyfis á grundvelli skyldleika ber stjórnvaldinu á grundvelli stjórnsýslulaga, þar á meðal á grundvelli meðalhófsreglu laganna, að óska ekki eftir lífsýninu.

Við verðum því að ganga út frá því að þetta stjórnvald eins og önnur fari að lögum og ekki sé gengið eins harkalega gegn friðhelgi einkalífsins og hv. þm. vildi vera láta.