Útlendingar

Föstudaginn 30. apríl 2004, kl. 14:00:09 (7308)

2004-04-30 14:00:09# 130. lþ. 107.1 fundur 749. mál: #A útlendingar# (aðlögunarheimildir stækkunarsamnings ESB og EES o.fl.) frv. 20/2004, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 130. lþ.

[14:00]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. má alls ekki misskilja mig. Ég tel ekki að honum sé alls varnað. Ég tel að hann geti lært. Ég hef sannfærst um að a.m.k. stundum getur hann tekið rökum. Það gleður mig að hv. þm. skuli að hluta til hafa tekið mark á þeim mönnum sem praktíserað hafa lögfræði í um hálfa öld fram yfir hann, mönnum sem m.a. lögðu grunninn að persónuverndinni og skipan laganefndar Lögmannafélags Íslands. Ég las álit meiri hlutans í málinu og eitt af því sem ég hnýt um er að það er ekki í gadda slegið við hvaða skilyrði og kringumstæður Útlendingastofnun getur krafist lífsýna.

Síðan vil ég líka vekja athygli á því, hafi það farið fram hjá fránum sjónum hv. þm., að því miður eru ekki allir í sömu stöðu og ég og hv. þm., þ.e. áskrifendur að tiltölulega góðum launum. Því miður er sumum féskylft sem eru í þeirri aðstöðu að þurfa að fara í gegnum nálarauga Útlendingastofnunar. Þeir hafa ekki mikil fjárráð og eru sumir örbjarga. Þeir hafa einfaldlega ekki fjármagn til að leggja út fyrir þeirri kostnaðarsömu framkvæmd sem lífsýnataka og greining sýna er. Því miður er málið þannig.

Ekki hefur hv. þm. bætt málstað sinn með því að taka þátt í því að fólk í þessari stöðu fær ekki lengur talsmann, eins og það hafði þó samkvæmt fyrri lögum. Það má hafa stór orð um það en ég rifja upp að Halldór Laxness sagði að það sem deyr fyrst í hörðu ári er guðs miskunn. Ég vona að miskunnin í hjarta hv. þm. deyi ekki enda ríkir nú velsæld.