Útlendingar

Föstudaginn 30. apríl 2004, kl. 14:07:58 (7309)

2004-04-30 14:07:58# 130. lþ. 107.1 fundur 749. mál: #A útlendingar# (aðlögunarheimildir stækkunarsamnings ESB og EES o.fl.) frv. 20/2004, ÁÓÁ (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 130. lþ.

[14:07]

Ágúst Ólafur Ágústsson (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég tel að þingheimur sé að gera alvarleg mistök með samþykkt á mörgum efnisatriðum þessa frv. Samf. vill taka það fram að hún styður það ákvæði sem lýtur að stækkun EES sem er nauðsynlegt að lögfesta fyrir 1. maí og greiddi hún með því atkvæði í atkvæðagreiðslu í gær. Hins vegar hefur Samf. fordæmt þau vinnubrögð sem viðhöfð eru í þessu máli þar sem margs konar önnur ákvæði, sem vægast sagt eru umdeild, eru sett í frv. með ákvæðinu um stækkun EES. Þetta eru ákvæði sem koma stækkun EES ekkert við.

Samf. bauð stjórnarmeirihlutanum upp á að greiða fyrir afgreiðslu ákvæðisins um EES-stækkunina en geyma önnur umdeild ákvæði. Það var sú leið sem ASÍ mæltist t.d. til að þingheimur mundi fara. Þetta vildi stjórnarmeirihlutinn ekki. Frv. er því uppfullt að lagaákvæðum sem eru mörg hver mjög vond og engin sátt er um hjá hlutaðeigandi aðilum. Nefna mætti 24 ára regluna, 66 ára regluna, lífsýnaheimildina, öfugu sönnunarbyrðina, ákvæði um brottvísun, ákvæði um hina sérstöku húsleitarheimild, sviptingu hælisleitenda á talsmanni í ákveðnum tilvikum og eignaupptöku ríkisins umfram aðra kröfuhafa.

Vegna þessara vondu ákvæða sem eru sem rauður þráður í frv. mun Samf. kjósa gegn frv. í heild sinni. Það gengur ekki að raða í kringum nauðsynlega lagabreytingu, sem varðar EES-stækkun sem Samf. styður, alls kyns vondum laga\-ákvæðum sem jafnvel er spurning um hvort standist stjórnarskrá og mannréttindaákvæði. Þau skerða réttindi fjölda fólks og síðan er ætlast til að menn og flokkar styðji það. Samf. mun því segja nei við frv. í heild sinni en að sjálfsögðu kjósa með þeirri brtt. minni hlutans sem hér liggur einnig fyrir.