Útlendingar

Föstudaginn 30. apríl 2004, kl. 14:10:08 (7310)

2004-04-30 14:10:08# 130. lþ. 107.1 fundur 749. mál: #A útlendingar# (aðlögunarheimildir stækkunarsamnings ESB og EES o.fl.) frv. 20/2004, KolH (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 130. lþ.

[14:10]

Kolbrún Halldórsdóttir (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Þó að í þessu frv. sé sannarlega að finna ákvæði sem taka má undir þá eru önnur ákvæði þess svo forkastanleg og fjandsamleg útlendingum að þm. Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs sjá sér ekki fært annað en að undirstrika andstöðu sína við þau með því að greiða atkvæði gegn frumvarpinu í heild, enda ekki um það að ræða að hægt sé að skipta lokaafgreiðslu um lagafrumvörp upp.

Við höfum á fyrri stigum þessa máls gert ríkisstjórninni ljóst að við stæðum ekki í vegi fyrir því að ákvæði um útlendinga hins stækkaða Evrópusambands færu í gegnum þingið en við höfum allan tímann mótmælt því harðlega að önnur óréttlát og íþyngjandi ákvæði séu látin fylgja sem viðhengi. Ríkisstjórnin hefur í þessu máli notfært sér sjálfsögð ákvæði til að troða inn forpokuðum afturhaldssjónarmiðum valdstjórnarinnar og slíkt geta þingmenn vinstri grænna ekki sætt sig við undir nokkrum kringumstæðum.

Frú forseti. Ég nota hér orðið valdstjórn að gefnu tilefni. Ríkisstjórnin hefur alfarið hafnað öllum tilboðum stjórnarandstöðunnar um samvinnu við málið og látið undir höfuð leggjast við samningu þess að eiga samráð við samtök útlendinga og þá aðila sem vinna að mannréttindamálum hér á landi. Þar að auki er orðið valdstjórn að finna í lögum okkar í almennum hegningarlögum. Mér virðist sem ríkisstjórn \mbox{Davíðs} Oddssonar sé að festast í eins konar valdstjórnarmynstri.

Frú forseti. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs munum af þeim ástæðum sem ég hef rakið greiða atkvæði gegn frv.