Framkvæmd EES-samningsins

Föstudaginn 30. apríl 2004, kl. 14:27:49 (7313)

2004-04-30 14:27:49# 130. lþ. 107.2 fundur 551. mál: #A framkvæmd EES-samningsins# þál., BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 130. lþ.

[14:27]

Björgvin G. Sigurðsson:

Frú forseti. Ég þakka hv. 1. flutningsmanni tillögunnar fyrir þá forustu sem hún hefur veitt í málinu og fyrir þessa prýðilegu till. til þál. Hún er tímabær og þörf enda ekki vanþörf á að vinna hressilega í allri vitrænni umræðu um Evrópumál á Íslandi og stöðu okkar á EES-svæðinu í kjölfar þeirrar miklu stækkunar sem á sér nú stað innan Evrópusambandsins.

Ég get greint frá því að ég er nýkominn af fundi þingmannanefndar EFTA í Liechtenstein fyrr í vikunni. Þar voru þessi mál nokkuð til umræðu. Mönnum lék þar forvitni á að vita hvað Norðmenn hygðust fyrir en meðal Norðmanna voru skiptar skoðanir eftir því hvar í flokki þeir stóðu. Greina mátti á þingmönnum jafnaðarmanna í Noregi, frá norska Verkamannaflokknum, að að þeirra mati styttist mjög í að til dramatískra tíðinda gæti dregið í Noregi. Allt útlit er fyrir það að Norræni jafnaðarmannaflokkurinn álykti um að Norðmenn eigi að sækja um aðild og gerir það að einu af sínum höfuðkosningamálum. Kosningar til norska Stórþingsins fara fram á næsta ári, árið 2005. Verði það að veruleika, að jafnaðarmenn nái vopnum sínum og fyrri stöðu og styrk í norskum stjórnmálum, er einboðið að til tíðinda dregur í norskri pólitík hvað varðar Evrópumálin. Við gætum horft upp á að innan tveggja ára muni Norðmenn sækja um aðild að Evrópusambandinu í þriðja sinn, láta reyna á það að ná samningum og fá þjóðina til að veita þeim samningi brautargengi í þjóðaratkvæðagreiðslu í þriðja skipti.

Þar er eiginlega komið að einum af meginþáttum málsins sem hér er til umræðu, um framtíð og framtíðarhorfur Evrópska efnahagssvæðisins. Eins og segir í greinargerð hafa orðið miklar breytingar á Evrópusambandinu frá því EES-samningurinn tók gildi á sínum tíma. Deildar meiningar eru um það hvort framkvæmd samningsins á svæðinu rúmist innan 21. gr. stjórnarskrárinnar, eins og 1. flutningsmaður, hv. þm. Katrín Júlíusdóttir, gerði prýðilega grein fyrir áðan.

[14:30]

Þessi mjög svo merkilegi samningur hefur skilað okkur Íslendingum þeim lífskjörum og lífskjarabótum sem við höfum öll séð á síðustu árum og er fyrst og fremst að þakka annars vegar EES-samningnum og svo hinni frægu þjóðarsátt sem vinstri stjórnin og verkalýðshreyfingin gerðu í upphafi síðasta áratugar. Megingallinn á samningnum er sá að með honum erum við að taka á móti um 70--80% af allri okkar lagagerð án nokkurrar lýðræðislegrar aðkomu íslenskra stjórnmálamanna að honum, en lagaákvæðin eru eingöngu smíðuð og sett af fulltrúum erlendra ríkja í Brussel. Er þetta algjörlega óþolandi og ófullnægjandi staða fyrir sjálfstæða og fullvalda þjóð sem tekur sig alvarlega. Við hljótum að gera kröfu um að innan fárra ára verðum við Íslendingar fullgildir aðilar að Evrópusambandinu þar sem við höfum og beitum okkar áhrifum til hins ýtrasta, höfum lýðræðislega aðkomu að Evrópusambandinu. Því tek ég undir með 1. flutningsmanni og er eindreginn stuðningsmaður þess að við Íslendingar sækjum um aðild að Evrópusambandinu hið allra fyrsta. Ég hef skorað úr þessum ræðustól áður á hæstv. utanríkisráðherra að beita sér fyrir breytingum á þeirri forpokuðu stefnu sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur farið fyrir í þessu ríkisstjórnarsamstarfi sem þvertekur fyrir alla vitræna umræðu um Evrópusambandið. Það er bæði dapurlegt og sorglegt að fylgjast með framgöngu sjálfstæðismanna og framsóknarmanna í kjölfarið í allri umræðu um Evrópumálið. Þessi mál eru einfaldlega bannorð hjá núverandi ríkisstjórn og eins og allt ætli af göflum að ganga þegar talið berst að því að hagsmunum okkar Íslendinga er langbest borgið með fullri aðild að Evrópusambandinu. Þannig höfum við áhrif og þannig getum við beitt okkur og veitt málum okkar brautargengi.

Það þarf ekki að fjölyrða um það, eins og fram hefur komið áður, að lífskjarabæturnar fyrir íslenskan almenning yrðu svo gríðarlegar með fullri aðild að aðrar eins meginbreytingar á samfélaginu og hagsmunum neytenda verður erfitt að finna dæmi um. Allt útlit er fyrir að vextir mundu lækka hér gríðarlega með upptöku evrunnar. Það hefur komið fram að ef við byggjum við sama vaxtastig og evru-löndin hefði það í för með sér að minnsta kosti 8% kaupmáttaraukningu, en þá sætu eftir í buddum landsmanna, frú forseti, heilir 10 milljarðar. Heilir 10 milljarðar sætu eftir í vösum neytenda til að sjá fjölskyldum sínum farborða í því fortakslausa matvælaokri sem á sér hér stað. Það hlýtur að skipta verulegu máli. Eins sjáum við fram á að matvælaverð hérna mundi lækka stórkostlega.

Meginmálið í allri umræðu um aðild að Evrópusambandinu er að sjálfsögðu yfirráð okkar Íslendinga yfir fiskveiðilögsögunni. Það er mat mitt og það er mat margra og þeirra sem hafa fjallað af hvað vitrænustum hætti um Evrópusambandið og Ísland að við mundum standa þar sterkt að vígi.

Kjarni þess málflutnings er sá, frú forseti, að sameiginleg sjávarútvegsstefna Evrópusambandsins gengur út sameiginlega nýtingu sameiginlegra stofna innan sameiginlegrar efnahagslögsögu. Sá er kjarni málsins að við höfum enga sameiginlega stofna með Evrópusambandinu. Það sem skiptir mestu máli er að við höfum enga sameiginlega efnahagslögsögu. Þess vegna er sú aðlögun sem blasir við nánast staðreynd og hefur komið fram í máli sjálfs Franz Fischlers og svo í frægri Berlínarræðu hæstv. utanríkisráðherra Halldórs Ásgrímssonar. Kjarni þess máls er sá að við þurfum ekki undanþágur frá stefnu Evrópusambandsins heldur þurfum við fyrst og fremst aðlögun.

Eins og hæstv. utanríkisráðherra sagði í Berlínarræðunni eru fordæmi fyrir svæðisbundinni stjórnun og það er meginmálið. Það er það sem færir mér og mörgum öðrum eindregnum aðildarumsóknarsinnum að Evrópusambandinu vonir um að þetta geti gengið farsællega fyrir sig, að samningaviðræður og aðildarumsókn fengju þær farsælu lyktir að við Íslendingar enduðum þar innanborðs með full og óskoruð yfirráð yfir fiskimiðum okkar, sem er algjört lykilatriði. Að mínu mati kemur aldrei til greina, frú forseti, að við gerumst aðilar að Evrópusambandinu án þess að halda fullum yfirráðum yfir fiskimiðunum og auðlindinni okkar.

Líkt og fram hefur komið í máli þeirra manna sem ég vitnaði til hér áðan eru allar líkur á því að við héldum fullum yfirráðum yfir fiskveiðiauðlindinni og færum með það veganesti til Brussel í samningaviðræðurnar sem hefjast vonandi nokkrum mánuðum eftir að ný ríkisstjórn jafnaðarmanna tekur hér við eftir nokkur ár og með þá málaumleitan fyrir augum að umbylta öllum lífskjörum íslensks almennings. Það gerist ekki nema við verðum fullgildir aðilar að Evrópusambandinu. Það er eitt brýnasta þjóðmál og samfélagsmál okkar tíðar og því fagna ég sérstaklega framkominni tillögu sem við ræðum í dag.