Framkvæmd EES-samningsins

Föstudaginn 30. apríl 2004, kl. 14:46:47 (7316)

2004-04-30 14:46:47# 130. lþ. 107.2 fundur 551. mál: #A framkvæmd EES-samningsins# þál., ÁÓÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 130. lþ.

[14:46]

Ágúst Ólafur Ágústsson (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að EES-samningurinn er að mörgu leyti sérstakur samningur. EES-samningurinn hefur það sem hefur verið kallað í lögfræðinni ,,lifandi eðli``. Hann tekur breytingum, hann breytist að því leyti að hann er túlkaður frá ári til árs m.a. í ljósi breyttra tíma. Sumum finnst þetta vera umdeild framkvæmd á EES-samningnum, hins vegar hefur það verið ríkjandi viðhorf að EES-samningurinn taki þessum breytingum. EES-samningurinn í dag er allt annar samningur en hann var árið 1994. Þess vegna er full þörf á þáltill. til að kanna hvort hann standist stjórnarskrána og ef hann gerir það ekki þarf að breyta stjórnarskránni.

ESB hefur einnig farið á mörg önnur svið. Það er ekki nóg með að hlutverk stofnana hafi breyst, heldur hefur samstarf Evrópusambandsríkjanna farið yfir á önnur svið sem var ekki til í dæminu, alla vega ekki með raunhæfum hætti, á þeim tíma sem EES-samningurinn var gerður, t.d. á sviði peningamála, utanríkismála og jafnvel varnarmála. Þetta eru allt svið sem EES-samningurinn tekur ekki tillit til.

Það er alveg rétt hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að hlutverk stofnana ESB hefur gjörbreyst og vegna hins svokallaða lýðræðishalla Evrópusambandsins hafa menn verið að auka vægi Evrópuþingsins og auka vægi ráðherraráðsins. Ráðherraráðið er ekkert annað en fundur fagráðherra viðkomandi ríkja. Völdin hafa verið aukin á kostnað framkvæmdastjórnar. Það var einmitt sú tenging sem Íslendingar höfðu í gegnum EES-samninginn þegar hann var gerður, enda var framkvæmdastjórnin þá talsvert voldugri en hún er núna. Þessu hefur ekki verið breytt varðandi EES-samninginn. Við höfum enn þá eingöngu tengingu við framkvæmdastjórnina og því mætir EES-samningurinn ekki þeim kröfum og þeim breytta heimi sem Evrópusamstarfið starfar og er í í dag. Svo sjáum við þau áhrif sem Evrópudómstóllinn hefur haft.

Í máli mínu kom ég inn á Erlu Maríu dóminn sem gjörbreytir áhrifum Evrópudómstólsins, sem er dómstóll Evrópusambandsins, á löggjöf og stöðu íslenskra stjórnvalda.