Framkvæmd EES-samningsins

Föstudaginn 30. apríl 2004, kl. 14:51:25 (7318)

2004-04-30 14:51:25# 130. lþ. 107.2 fundur 551. mál: #A framkvæmd EES-samningsins# þál., ÁÓÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 130. lþ.

[14:51]

Ágúst Ólafur Ágústsson (andsvar):

Frú forseti. Ég vil taka undir orð hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar varðandi hið breytta hlutverk Evrópudómstólsins. Ég held að Íslendingar og a.m.k. meiri hluti þingheims átti sig ekki alveg á þeim öru breytingum sem hafa átt sér stað á undanförnum tíu árum hvað varðar Evrópusamstarfið.

Mig langar að nýta tækifærið í stuttu andsvari mínu og koma aðeins inn á efni þáltill. Ég tel nauðsynlegt að samþykkja þáltill. hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur, m.a. af því farsælast er að mínu viti að vera búinn að gera nauðsynlegar breytingar á stjórnarskránni áður en kemur að þungavigtarumræðunni um kosti og galla aðildar Íslands að Evrópusambandinu. Það er ekki umræðunni í hag að blanda saman umfjöllun um aðild að Evrópusambandinu við umræður um breytingar á stjórnarskránni. Ég rifja aftur upp að Norðmenn hafa nú þegar þessa heimild þrátt fyrir að þeir séu ekki aðilar að ESB frekar en við. En færa má rök fyrir því að heimild á framsali valds á stjórnarskrá sé óháð hugsanlegri aðild Íslands að ESB og ætti frekar við almenna þátttöku Íslands í alþjóðasamstarfi, svo sem vegna EES-samstarfs, EES-samningsins og Schengen-samningsins.

Á það hefur verið bent að skýr heimild löggjafans á framsali valdsins í stjórnarskrá gæti treyst fullveldi frekar en að takmarka það, en eins og staðan er núna eru ákvæði til framsals valds óljós og því gæti sérstakt stjórnarskrárákvæði skýrt valdheimildir til framsals. Þetta sjónarmið hefur átt upp á pallborðið hjá sumum ríkjum Evrópu, svo sem Noregi.

Að lokum langar mig að minnast á það að ef Ísland og Noregur gengju inn í Evrópusambandið yrði Norðurlandablokkin með meira vægi í ráðherraráðinu atkvæðislega séð heldur en einstök stór ríki. Í því tilliti er einstakt tækifæri fyrir norrænt samstarf á sviði Evrópusambandsins sem við eigum að nýta okkur við fyrsta tækifæri.