Framkvæmd EES-samningsins

Föstudaginn 30. apríl 2004, kl. 15:10:30 (7321)

2004-04-30 15:10:30# 130. lþ. 107.2 fundur 551. mál: #A framkvæmd EES-samningsins# þál., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 130. lþ.

[15:10]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. nefndi framsal Íslendinga í tengslum við samninga um varnarmál. Það er ljóst að við höfum í gegnum árin átt í mjög þýðingarmiklu varnarsamstarfi og gert mjög þýðingarmikla samninga um okkar mál.

Jafnframt er ljóst að öll eftirstríðsárin hefur Ísland, mitt í Norður-Atlantshafinu, haft mjög þýðingarmikla stöðu, haft þýðingu fyrir þjóðirnar vestan hafs og austan. Það hefur skipt máli fyrir stöðu okkar á Íslandi. En með þeim breytingum sem hafa orðið hjá þjóðum heims, með alþjóðavæðingunni, breytingu á varnarmálum og á öxlinum þar sem hlutirnir gerast, er ljóst að Norður-Atlantshafið hefur miklu minna vægi en nokkru sinni áður. Norður-Atlantshafið skiptir í sjálfu sér ekki mjög miklu máli hjá þjóðum heims í dag. Það höfum við séð og heyrt í gegnum umræðuna um varnarsamstarfið.

Því spyr ég hv. þm.: Telur hann að þessi breytta staða Íslands, þegar Norður-Atlantshafið er farið að hafa miklu minna vægi en áður, geti haft áhrif í framtíðinni? Getur verið að þessi breytta staða hafi þau áhrif fyrir okkur að við verðum af meiri alvöru en áður að huga að því í hvaða samstarfi við ætlum að vera og hverjum við ættum að sækjast eftir að vera með í liði? Getur verið að þessi breytta staða með Norður-Atlantshafið hafi miklu víðtækari áhrif en menn hafa talið og hingað til hefur komið til umræðu?