Framkvæmd EES-samningsins

Föstudaginn 30. apríl 2004, kl. 15:12:24 (7322)

2004-04-30 15:12:24# 130. lþ. 107.2 fundur 551. mál: #A framkvæmd EES-samningsins# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 130. lþ.

[15:12]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Frú forseti. Ég dreg ekki í efa að minnkandi vægi Norður-Atlantshafsins og þeirra þjóða sem við það búa, einkum vestanmegin, mun skipta sköpum í utanríkisstefnu Íslendinga. Við höfum byggt svo að segja alla utanríkisstefnu okkar á góðu samstarfi yfir Atlantshafið við Bandaríkin. Nú liggur fyrir að Bandaríkin líta öðrum augum á mikilvægi Norður-Atlantshafsins og framlag Íslands til varna álfunnar með því að leggja til land undir herstöðvar. Það blasir líka við að augu Bandaríkjamanna beinast í ríkari mæli austur.

Það mætti því í fyrsta lagi draga þá ályktun að varðandi almenna stöðu á alþjóðavettvangi væri hagstætt fyrir okkur að efla tengsl okkar við Evrópusambandið. Ég er þeirrar skoðunar. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að ganga í Evrópusambandið. En ég tel jafnframt að við eigum að halda eins ríkum tengslum við Bandaríki Norður-Ameríku og hægt er.

Ég tel að í framtíðinni, þegar vindur fram á þessa öld, muni öryggi álfunnar tryggt, ekki einvörðungu með tilvist og herstyrk Evrópusambandsins heldur samvinnu þessara tveggja stóru stofnana, Evrópusambandsins annars vegar og Bandaríkja Norður-Ameríku hins vegar.

Í öðru lagi skiptir það máli, þegar við horfum til Evrópusambandsins, að það sjálft horfir til austurs. Það er ekki að horfa vestur á bóginn. Áhersla Evrópusambandsins er austur og þær varnir sem Evrópusambandið virðist fyrst og fremst byggja upp miða eðlilega að því að verja austurvænginn. Niðurstaðan, að því er varnir snertir, er því sú að nákvæmlega sömu öfl eru að verki sem draga úr áhuga Bandaríkja Norður-Ameríku á að eiga í umfangsmiklu varnarsamstarfi við okkur og valda því að Evrópusambandið er hikandi við að byggja upp varnir á vesturvængnum.