Framkvæmd EES-samningsins

Föstudaginn 30. apríl 2004, kl. 15:14:40 (7323)

2004-04-30 15:14:40# 130. lþ. 107.2 fundur 551. mál: #A framkvæmd EES-samningsins# þál., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 130. lþ.

[15:14]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þetta. Ég tel reyndar að um sé að ræða stærra og víðtækara mál sem snúi ekki eingöngu að vörnum heldur því að Ísland hefur haft vægi í Atlantshafinu af því að Norður-Atlantshafið var afar þýðingarmikið. Það skipti máli hvernig mál þróuðust hjá okkur.

Ég óttast að ef við ákveðum að vera utan Evrópusambandsins og að einhverjum tíma liðnum hætti Evrópusambandið að leggja vinnu í að þróa áfram samninginn um Evrópska efnahagssvæðið fyrir svo fáa íbúa, einn hundraðasti hluta þeirra sem eru í Evrópusambandinu, komi upp sú staða að við hættum að skipta máli í öðru samhengi. Hætta er á að við verðum ein eftir úti í miðju Atlantshafi og höfum ekki lengur jafnsterka stöðu og við höfum þó í dag. Við þurfum að horfa á þróunina frá fleiri sjónarhornum. Þá verður kannski ekki svo einfalt að berja sér á brjóst og segja: Við ætlum að vera sjálfstæð og sjálfráð hérna uppi. Við þurfum bara þessa og hina samninga við þjóðir heims af því að við getum klárað okkur ágætlega sjálf.

Ég tel að minnkandi vægi Norður-Atlantshafsins þýði að við eigum ekki sérlega mikið val um það í framtíðinni hvaða þjóðir við ætlum að hafa að vinum eða hvaða samstarf við ætlum að meta mest. Við getum hreinlega einangrast ef við horfum ekki á hlutina í víðara samhengi.