Framkvæmd EES-samningsins

Föstudaginn 30. apríl 2004, kl. 15:16:26 (7324)

2004-04-30 15:16:26# 130. lþ. 107.2 fundur 551. mál: #A framkvæmd EES-samningsins# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 130. lþ.

[15:16]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Frú forseti. Ég held að þetta sé alveg hárrétt mat hjá hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur. Ég er í hópi þeirra örfáu þingmanna sem hafa notið þeirra forréttinda að hafa setið fundi með öllum utanríkismálanefndum allra þeirra ríkja sem eru aðilar að Evrópusambandinu. Í krafti EFTA-nefndarinnar hefur okkur nokkrum þingmönnum hlotnast það tækifæri að deila skoðunum með þessum nefndum og því miður komist að þeirri skelfilegu niðurstöðu að innan þeirra nefnda er enginn áhugi á EES, enginn vilji til að halda því áfram, en það sem þó er verst er að það er ekki lengur nein þekking sem lifir um EES. Það er sérkennileg lífsreynsla að hitta formann eftir formann í utanríkismálanefndum þjóðþinga stórra ríkja og komast að raun um að þeir vita varla að EES er til. Tilfinning mín er því sú að það sé lítill áhugi á því að halda EES úti. Ég tel að það sé sjálfdautt líka ef Norðmenn ganga inn í Evrópusambandið.

Það eru önnur rök sem hníga líka að því að við eigum að ganga í Evrópusambandið, það er samvinna okkar við frændþjóðirnar á Norðurlöndunum. Við höfum frá örófi átt fyrst og fremst samskipti við hin Norðurlöndin. Það stafar af menningarlegum tengslum og líka uppruna okkar. Þar eigum við vinum að mæta og þær þjóðir hafa alltaf stutt okkur ef í nauðir rekur. Ef Ísland og Noregur gengju í Evrópusambandið væri þar komin mjög sterk stoð öflugrar samvinnu. Til viðbótar henni er síðan hin góða samvinna sem þjóðirnar hafa átt í gegnum aldir og eru að þróa sérstaklega síðasta áratuginn við Eystrasaltsþjóðirnar. Ég held að Norðurlandaþjóðirnar ásamt Eystrasaltsþjóðunum gætu orðið einhver öflugasta þjóðagreinin innan ESB og mundu samanlagt fara með töluvert fleiri atkvæði en stærsta þjóðin innan stofnana Evrópusambandsins.