Skýrsla um fjárframlög til stjórnmálaflokka

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 15:08:12 (7332)

2004-05-03 15:08:12# 130. lþ. 108.91 fundur 524#B skýrsla um fjárframlög til stjórnmálaflokka# (aths. um störf þingsins), HHj
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[15:08]

Helgi Hjörvar:

Herra forseti. Helsti brautryðjandi Framsfl. í íslenskum stjórnmálum, hæstv. forsrh. Davíð Oddsson, hefur með oddi og egg beitt sér gegn því að settar verði reglur um starfsemi stjórnmálaflokkanna og þeim gert skylt að opinbera hverjir leggja til þeirra fé. Hann þarf þess vegna ekki að koma neitt á óvart, sá frestur sem hæstv. forsrh. fékk til að skila skýrslu vegna beiðni hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og okkar fleiri þingmanna Samf. um þetta efni. Henni hefur ekki verið sinnt þó að það hljóti að vekja upp spurningar um það hverju Sjálfstfl. hafi að leyna í þessu sambandi.

Hæstv. forsrh. hefur jafnan réttlætt þessa afstöðu sína með því að stjórnmálaflokkarnir eigi að hafa sjálfstæði frá ríkinu, frá ríkisvaldinu, til að geta veitt því aðhald, þá trúlega með sama hætti og það er hlutverk fjölmiðlanna. Í ljósi þess hlýtur maður að spyrja hæstv. forsrh. hvort ástæðan fyrir því að ekki megi leggja fram skýrslu um fjármál stjórnmálaflokkanna eins og honum ber sé sú að það megi ekki gera þegar umræða fer fram um fjölmiðlafrv. hans sjálfs sem hér verður kynnt á eftir. Við hljótum líka að spyrja hæstv. forsrh. hvort hann, eftir að hafa tekið þessa miklu U-beygju í afstöðu sinni gagnvart fjölmiðlunum í landinu, hafi tekið sömu U-beygju gagnvart fjármálum stjórnmálaflokkanna og hvort hið sama eigi ekki að gilda um Sjálfstfl. og um Stöð 2, að fólkið í landinu viti hverjir leggi þar til fé.