Skýrsla um fjárframlög til stjórnmálaflokka

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 15:12:24 (7334)

2004-05-03 15:12:24# 130. lþ. 108.91 fundur 524#B skýrsla um fjárframlög til stjórnmálaflokka# (aths. um störf þingsins), MÞH
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[15:12]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Hæstv. forseti. Það er orðið býsna hlálegt að verða vitni að því hvernig stjórnarflokkarnir mæta sjálfum sér í dyrunum dag eftir dag þessa dagana, oft í viku. Nú fer hér fram í dag umræða um eignarhald á fjölmiðlum, gagnsæi í eignarhaldi á fjölmiðlum. Gott og vel, við skulum taka þá umræðu, Frjálsl. er reiðubúinn til að taka hana. En þá finnst okkur líka sjálfsagt að fleiri hluti séu skoðaðir, t.d. gagnsæi í fjármálum stjórnmálaflokka.

Frjálsl. var fyrsti flokkur hér á landi til að opna bókhald sitt. Það höfum við gert alla okkar tíð. Við höfum alltaf verið í fararbroddi hvað þetta varðar. Við höfum birt okkar endurskoðuðu reikninga, í haust og aftur í dag á vefsíðu Frjálsl., www.xf.is. (ÖJ: Við gerðum þetta 1999.) (Gripið fram í: Hver var fyrstur?) Þetta er nefnilega nokkuð mikilvæg spurning, einmitt varðandi fjármuni stjórnmálaflokka og hverjir standa á bak við þá með peningagjöfum. Ég fór í gegnum mína fyrstu kosningabaráttu sl. vor og það kom mér verulega á óvart hvað hún var ofboðslega dýr, hvað það er dýrt að auglýsa, hvað það er dýrt að halda úti kosningabaráttu. Kosningabarátta okkar kostaði 13 millj. kr. Ég er alveg sannfærður um að í kosningabaráttu hinna flokkanna og þá er ég sérstaklega að tala um Samf., Framsfl. og Sjálfstfl. erum við að tala um upphæðir sem jafnvel fóru vel á annað hundrað milljónir króna miðað við þá reikninga sem við í Frjálsl. þurftum að borga. Ég tel að þjóðin eigi skýra kröfu á að fá að vita hvaðan þessir flokkar fái peninga. Þetta er spurning um lýðræði og þetta er spurning um trúverðugleika stjórnmálaflokkanna.