Skýrsla um fjárframlög til stjórnmálaflokka

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 15:20:00 (7338)

2004-05-03 15:20:00# 130. lþ. 108.91 fundur 524#B skýrsla um fjárframlög til stjórnmálaflokka# (aths. um störf þingsins), GAK
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[15:20]

Guðjón A. Kristjánsson:

Hæstv. forseti. Ég tel full rök fyrir því að stjórnmálaflokkar upplýsi um fjármál sín með sama hætti og ég tel rök fyrir því að við ræðum um eignarhald og gagnsæi fjölmiðla. Frjálslyndi flokkurinn hefur, eins og hér hefur komið fram, birt fjármál sín og stuðning við flokkinn í gegnum árin. Það er sérstaklega tekið fram að vilji einstakir aðilar sem styrkja flokkinn láta birta þær upphæðir sem þeir styrkja flokkinn með þá sé það gert.

Við höfðum þá reglu upprunalega, árið 1999, að ef styrkur fór yfir 300 þús. kr. þá var það birt. Í síðustu kosningum var miðað við 500 þús. kr. Fjármál flokksins eru birt á netinu ár hvert. Það þurfa ekki að koma tilkynningar utan úr bæ um hverjir styrki Frjálslynda flokkinn. Það er auðvitað áhugavert, sem er að birtast í blöðunum núna, að stjórnmálaflokkar séu orðnir áskrifendur að fjárstyrkjum og fái slíka styrki reglulega, mánaðarlega frá einhverjum ákveðnum fyrirtækjum. Það er auðvitað nýmæli og kannski þurfa fyrirtækin að taka fram fyrir hendurnar á stjórnmálaflokkunum og upplýsa hverja á að styrkja og hverja þeir styrki ekki.