Afgreiðsla mála úr nefndum

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 15:25:53 (7341)

2004-05-03 15:25:53# 130. lþ. 108.94 fundur 527#B afgreiðsla mála úr nefndum# (um fundarstjórn), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[15:25]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég á engan annan kost en að leita í náðarfaðm herra forseta þegar að manni er sótt og sótt er að lýðræðislegum réttindum okkar sem vinnum almenn þingstörf í nefndunum. Það er einfaldlega þannig að á köflum er varla vært í efh.- og viðskn. undir stjórn hv. þm. Péturs H. Blöndals vegna þess að hann hikar ekki við að ganga á bak orða sinna og viðhafa vinnubrögð sem eru þess eðlis að það er ekki hægt að sætta sig við þau.

Í þessu tiltekna dæmi, herra forseti, hafði ég sem fulltrúi Samf. í efh.- og viðskn. óskað eftir því að til fundar við nefndina kæmu fulltrúar BHM og BSRB. Ég skildi hv. þm. þannig að við því skyldi orðið áður en málið yrði afgreitt. Ég ítrekaði síðan þá beiðni mína með tölvupósti til allra nefndarmanna og starfsmanns nefndarinnar. Ég taldi að það lægi fyrir að með þessum hætti yrði fullnægt þeim lágmarksréttindum sem ég nýt, að fá að rannsaka málið. Ég vil að það komi fram að það hefur aldrei verið ætlan okkar að reyna með ólýðræðislegum hætti að koma í veg fyrir að mál væru afgreidd þegar búið væri að rannsaka þau til hlítar. Það var ekki búið í þessu tiltekna máli og þetta þarf að koma skýrt fram.

Nú er það svo að hæstv. forseti, sem sjálfur hefur í dag lýst sér þannig að hann væri eftir atvikum rýmilegur við þingmenn, gegnir þeirri stöðu að hann er líka forseti minn. Hann á líka að verja rétt minn. Það var þess vegna sem við mótmæltum þessu gerræði og leituðum til hæstv. forseta. Ég vil að gefnu tilefni þakka hæstv. forseta fyrir að hafa með þessum hætti staðið á rétti okkar í minni hlutanum.

Ég vil hins vegar lýsa því yfir að ég er út af fyrir sig sammála hæstv. forseta um að minni hluti nefndar geti hvenær sem er gefið út nefndarálit á tilteknu máli. Eigi að síður skil ég þingsköpin þannig að það sé ekki hægt að afgreiða mál úr nefnd endanlega nema fyrir því sé meiri hluti. Hins vegar er það þannig, af því að þetta er ekki í fyrsta skipti ég geri vinnulagið í efh.- og viðskn. að umræðuefni, að hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur rofið þá hefð sem forverar hans sköpuðu, hv. þm. Einar K. Guðfinnsson og áður Vilhjálmur Egilsson. Þeir byggðu á samstöðu og samvinnu. Engin nefnd afgreiðir jafnmörg mál og ég man ekki eftir því frá setu minni í nefndinni að minni hlutinn hafi beitt gerræði til að koma í veg fyrir afgreiðslu máls.

Nú liggur hins vegar fyrir að það er kominn nýr meiri hluti í nefndinni. Ég áskil mér allan rétt sem þingmaður til að leita eftir því hvort ekki sé eftir atvikum rétt að skipta um formann þar.