Afgreiðsla mála úr nefndum

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 15:30:34 (7343)

2004-05-03 15:30:34# 130. lþ. 108.94 fundur 527#B afgreiðsla mála úr nefndum# (um fundarstjórn), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[15:30]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég held að á langri þingsögu minni hafi ég aldrei orðið vitni að öðrum eins vinnubrögðum og í efh.- og viðskn. í morgun. Er ég nú ýmsu vön í þingstörfunum. Í fyrsta lagi var það þannig að hv. formaður nefndarinnar bar upp dagskrártillögu um að taka málið út með meiri hlutanum og það var fellt. Þá bar formaðurinn fram tillögu um að nefndin skipti sér í þrjá minni hluta við afgreiðslu málsins og það var líka fellt. Þá tók formaðurinn til þess bragðs að segja: ,,Þá ætla ég bara sjálfur að afgreiða málið út einn og sér.`` Hann leitaði ekki einu sinni atbeina minni hlutans til þess en vitnaði þar í túlkun hæstv. forseta um að hann gæti það. Ég bað hv. þm. að láta okkur vita með stoð í hvaða grein þingskapanna hann gæti þetta. Hann hafði engin svör á reiðum höndum. Því er nauðsynlegt að hæstv. forseti, ef það er rétt að þetta sé túlkun hans, nefni hvaða grein þingskapa heimilar að einn nefndarmaður, einn og sér, jafnvel þó hann sé formaður nefndar, geti afgreitt, tekið mál bara út úr nefnd og sagt síðan að fundi sé slitið.

Í 27. gr. þingskapa stendur, með leyfi forseta:

,,Ef nefndarmaður gerir tillögu um að athugun máls sé hætt og það afgreitt frá nefndinni er formanni skylt að láta ganga atkvæði um þá tillögu á þeim fundi sem hún er borin fram. Tillagan telst því aðeins samþykkt að meiri hluti nefndarmanna greiði henni atkvæði.``

Hér er um alveg nýja túlkun á þingsköpum að ræða og fordæmisgefandi ef hæstv. forseti leyfði, eftir það sem fram hefur komið hjá formanni nefndarinnar í morgun því að hann bar fyrir sig túlkun hæstv. forseta á því að hann einn og sér og óstuddur gæti tekið mál út úr nefnd. Þess vegna beini ég því til forseta að hann vísi okkur á þá grein í þingsköpum sem heimilar þetta.