Afgreiðsla mála úr nefndum

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 15:32:38 (7344)

2004-05-03 15:32:38# 130. lþ. 108.94 fundur 527#B afgreiðsla mála úr nefndum# (um fundarstjórn), Forseti HBl
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[15:32]

Forseti (Halldór Blöndal):

Mér þykir nú leiðinlegt að hv. þm. hefur lesið þessa grein vitlaust. Ég vil lesa þessa grein svo að hv. þingmenn megi glöggt heyra um hvað hún fjallar. Hún fjallar nefnilega um það að minni hluti nefndar getur ekki staðið á móti því að meiri hlutinn fái mál afgreitt úr nefnd ef meiri hlutinn telur það (Gripið fram í: Þetta er bull.) rétt. Það er verið að tryggja þann rétt að meiri hlutinn nái máli úr nefnd. (Gripið fram í.) Það er alveg gagnstætt því sem hv. þm. sagði. (Gripið fram í: Þetta er ...) Ég bið hv. þingmann að grípa ekki fram í. Þetta er gagnstætt því sem hv. þm. sagði. Þessi grein hljóðar svo:

,,Ef nefndarmaður gerir tillögu um að athugun máls sé hætt og það afgreitt frá nefndinni er formanni skylt að láta ganga atkvæði um þá tillögu á þeim fundi sem hún er borin fram. Tillagan telst því aðeins samþykkt að meiri hluti nefndarmanna greiði henni atkvæði.``

Þetta þýðir það að minni hluti nefndar, þó svo að formaður sé í minni hluta, getur ekki staðið gegn því að mál fáist afgreitt úr nefnd.

Á hinn bóginn hef ég aldrei heyrt það fyrr en nú, ef það á að vera eitthvert sérstakt keppikefli þingmanna, ég tala nú ekki um stjórnarandstöðuþingmanna, að standa á rétti minni hlutans til þess að skila nefndaráliti eða þrýsta á það að mál sé tekið úr nefnd.