Afbrigði

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 15:51:59 (7356)

2004-05-03 15:51:59# 130. lþ. 108.96 fundur 529#B afbrigði# (afbrigði við dagskrá), SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[15:51]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég sé mig knúinn til þess að leggjast gegn því að afbrigði séu samþykkt við þessar aðstæður úr því að það er ekki einu sinni hægt að sýna þinginu þá kurteisi að gefa hér sæmilega skýr svör að þessu leyti. Það var ósköp einfalt að við vorum að fara fram á að fá um það a.m.k. einhvern ádrátt af hálfu hæstv. forsrh. fyrir hönd ríkisstjórnarinnar að hér mundi skapast það andrúmsloft í kringum þetta mál að ekki yrði beitt ýtrustu hörku til að knýja það í gegn á vordögum í ágreiningi, þ.e. ef ekki tækist að ná samkomulagi um málið. Það fór lítið fyrir slíku. Í sjálfu sér segir það okkur ekki mikið að fá það staðfest sem við vitum, að málið er komið til kasta þingsins þegar það er hér fram lagt. Við kærum okkur ekki um að eiga aðild að þeim vinnubrögðum sem þar með gætu verið í uppsiglingu, í ljósi þess líka að aðdragandi málsins er með mjög sérstökum hætti. Þó að mér sé það heldur óljúft --- það mun rétt vera hjá hæstv. forsrh. að það gerist ekki oft --- sé ég mig knúinn til þess að greiða atkvæði gegn þessum afbrigðum.