Útvarpslög og samkeppnislög

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 16:13:35 (7360)

2004-05-03 16:13:35# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[16:13]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vitna í skýrsluna, bls. 81, með leyfi forseta:

,,Nefndin leggur fyrst til að hugað verði að stöðu Ríkisútvarpsins, með það að markmiði að tryggja því trausta stöðu til frambúðar á markaði fyrir hljóðvarp og sjónvarp. Ástæðan fyrir því að þetta er nefnt fyrst er að sú leið felur ekki í sér neina beina íhlutun í málefni einkamarkaðar fyrir fjölmiðla, þótt sterkt ríkisútvarp þrengi auðvitað svigrúm einkaaðila til vaxtar á sama markaði.``

Síðan er beinlínis tekið fram, að sé þetta gert eitt og sér, með öðrum orðum er gert ráð fyrir að þetta gæti dugað eitt og sér. Páll Þórhallsson bendir á það í Morgunblaðinu að það sé skylda ríkja að leita fyrst vægari leiða áður en farið er út í beina íhlutun á borð við þá sem hér er lögð til.

Virðulegi forseti. Þetta stendur í skýrslunni. Nefndin nefnir þessa leið fyrsta til sögunnar og gerir beinlínis ráð fyrir að hún gæti dugað ein og sér.