Útvarpslög og samkeppnislög

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 16:51:04 (7379)

2004-05-03 16:51:04# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, PM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[16:51]

Páll Magnússon (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni var tíðrætt um hvað vanti í frv. sem liggur nú fyrir en fjallaði lítið um efni frv. Hv. þm. taldi að setja þyrfti í lög efni um sjálfstæði ritstjórna, um gagnsæi eignarhalds og síðan ætti að beita samkeppnislögunum, en að ekki ætti setja lög um eignarhald fjölmiðla.

En hv. þm. Margrét Frímannsdóttir, formaður þingflokks Samfylkingarinnar, sagði á Alþingi þann 19. nóvember 2003 um samþjöppun á fjölmiðlamarkaði, með leyfi forseta:

,,Það getur vel verið að það sé nauðsynlegt að taka sérstaklega á eignarhaldinu og að fjölmiðlarnir verði í mismunandi eða fjölbreyttri eignaraðild. Þá skiptir ekki eins miklu máli hvað kemur frá fréttastofunum ef tryggð er dreifð eignaraðild og mismunandi eignaraðild á fjölmiðlunum.``

Fleiri þingmenn Samfylkingarinnar hafa tjáð sig gegnum árin á sömu nótum. Nægir þar að nefna hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, Guðmund Árna Stefánsson og Jóhönnu Sigurðardóttur.

Ég spyr hv. þm. Össur Skarphéðinsson: Hvað veldur því að hann leggst nú gegn nefndum orðum Margrétar Frímannsdóttur?