Útvarpslög og samkeppnislög

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 16:52:13 (7380)

2004-05-03 16:52:13# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[16:52]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Ja, drottinn minn, herra forseti. Hv. þm. Jónína Bjartmarz hélt hérna frábæra ræðu, eina bestu ræðuna um fjölmiðlaskýrsluna. Hún lagði mikla áherslu á að sett yrðu lög sem skylduðu ritstjórnir til þess að setja sér innri starfsreglur. Hún gekk meira að segja svo langt að hún óskaði eftir því að það yrði hugað að því hvort ekki ætti að setja sérstakar reglur sem tryggðu sjálfstæði blaðamanna gagnvart ritstjóra.

Hv. þm. Jónína Bjartmarz talaði líka um nauðsyn þess að setja lög um gagnsætt eignarhald.

Herra forseti. Hæstv. dómsmrh. hefur flutt bestu rökin fyrir því að það þurfi ekki að hrófla við lögum, bæði í pistlum sínum hér fyrr á árum og í umræðu fyrir ekki svo mörgum missirum síðan, þar sem hann færði skýr rök fyrir því að samkeppnislög dygðu. Ef ég man rétt held ég að hann hafi vísað í úrskurð samkeppnisráðs um Landssímann þar sem kom fram að Samkeppnisstofnun hefði í reynd valdheimildir til þess að skipta upp fyrirtækjum.

Ég nefni þetta nú, herra forseti, af því að ég heyri að hæstv. forsrh. er farinn að ókyrrast, að menn hafa sagt ýmislegt í þessu máli. En ég vil taka það alveg skýrt fram að þau sjónarmið sem hv. þm. Margrét Frímannsdóttir hefur sett fram í þessum efnum eru fullkomlega gild. Það er fullkomlega rétt að taka þau inn í umræðuna og það eru margir sem hafa svipuð viðhorf.

Í umræðu innan Samfylkingarinnar, sem var mjög ítarleg, tók hv. þm. Margrét Frímannsdóttir þátt í sérstökum verkhópi um þetta og það var niðurstaða hans og líka hv. þingmanns að þessi vægari leið sem við viljum hér næði þessum markmiðum.