Útvarpslög og samkeppnislög

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 16:54:05 (7381)

2004-05-03 16:54:05# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, PM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[16:54]

Páll Magnússon (andsvar):

Herra forseti. Ég var ekki að spyrja um hvað hv. þm. Jónína Bjartmarz eða hæstv. dómsmrh. Björn Bjarnason hafa sagt um þetta mál heldur formaður þingflokks Samfylkingarinnar, Margrét Frímannsdóttir. Og um þau orð viðhefur formaður flokksins: ,,Ja, menn hafa nú sagt ýmislegt.``

Ég vil þá líka nefna að hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson hafði orð um þetta efni 1995 og sagði, með leyfi forseta:

,,Mat mitt er að ekki verði hjá því komist á þessum viðkvæma þætti fjölmiðlunar að setja um það skýrar og afmarkaðar reglur með hvaða hætti eignarhaldi er háttað á þessum fjölmiðlum.``

Það liggur því fyrir og hægt er að fara yfir það í enn frekara máli --- og ég mun gera það í ræðu minni síðar í umræðunni --- að þingmenn Samfylkingarinnar hafa ítrekað lýst þeirri skoðun sinni að setja og færa eigi í lög ákvæði um eignarhald fjölmiðla. Nú hins vegar bregður svo við að formaður Samfylkingarinnar lýsir afdráttarlausri andstöðu við það frumvarp sem hér liggur fyrir, tínir fram hvað vantar í það og megi þar bæta við, en skuldar okkur auðvitað skýringu á því hvers vegna hann hafnar því svo afdráttarlaust að færð verði í lög ákvæði um eignarhald á fjölmiðlum.