Útvarpslög og samkeppnislög

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 16:58:48 (7384)

2004-05-03 16:58:48# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, SJS
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[16:58]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég heyri að menn hafa gaman af því að taka hverjir aðra upp hér og sanna að þeim hafi snúist hugur á þennan veginn eða hinn. Satt best að segja sé ég nú ekki hvaða árangri það skilar okkur í þessari umræðu, þ.e. að greina kjarna málsins og velta því fyrir okkur hvaða efni er hér á ferð. Þó svo að menn kunni að hafa sagt eitt eða annað á umliðnum árum þá breytir það í sjálfu sér ekki þeim aðstæðum sem við stöndum frammi fyrir og þeirri spurningu sem hér ætti að vera til umfjöllunar fyrst og fremst, þ.e. hvort tilefni sé til þeirrar lagasetningar sem hér er borin fram af hæstv. ríkisstjórn og hvað þá í því frumvarpi sé nothæft og hvað ekki ef svo ber undir.

Herra forseti. Mér finnst líka talsverð léttúð á ferðum þegar það er haft í huga að auðvitað hljóta lög og leikreglur um fjölmiðla í landinu að vera grundvallarleikreglur. Þetta er mikilvægt svið og menn ættu að nota vinnubrögð og nálgun af því tagi sem gjarnan er viðhöfð þegar um er að ræða mikilvægar undirstöður í samfélaginu sem menn vanda sig við eins og kostur er að ná samkomulagi um.

[17:00]

Það þjónar engum tilgangi, ef hægt er að komast hjá því, að vera með óþarfa stríðsrekstur og ágreining um grundvallarleikreglur af þessu tagi, eins og um starfsumhverfi fjölmiðlunar í landinu. Það eitt og sér ætti í raun að nægja til þess að menn segðu í grófum dráttum: Nei, nú skulum við aðeins gá að okkur. Það er greinilega allt of mikill ágreiningur uppi um málsmeðferðina og tillögurnar og blæs ekki byrlega með að sæmileg samstaða takist innan þings og utan um þann málatilbúnað sem hér er á ferðinni.

Við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði gerum ekki lítið úr þörfinni fyrir að fara rækilega yfir löggjöfina að þessu leyti og svara þeirri spurningu hvort hér á landi, eins og mjög víða annars staðar er gert, sé ástæða til að hafa sértækar reglur í gildi um eignarhald og starfsumhverfi fjölmiðla. Menn bera sig mikið saman við útlönd og nefna samþykktir frá Evrópuráði og víðar að. Það er þarft og gott. Ein niðurstaðan af slíkri skoðun er sú að mjög víða eru einhverjar sértækar reglur af þessu tagi við lýði. Það hlýtur að færa okkur heim sanninn um að okkur er rétt og skylt að fara yfir þetta.

Við hreyfðum við þessu máli fyrir áramót þegar hv. þm. Álfheiður Ingadóttir lagði fyrst fram fsp. til hæstv. forsrh. og hafði síðan forustu um að flytja hér þáltill. sem rækilega er búið að vitna til. Þannig komst málið á dagskrá. Illu heilli valdi hæstv. ríkisstjórn ekki þá leið að reyna frá byrjun að hafa þverpólitíska þátttöku í að vinna málið heldur var sett á laggirnar nefnd sem var eingöngu skipuð fulltrúum og trúnaðarmönnum stjórnarflokkanna. Nú er komið á daginn það sem verra er, að sú nefnd vann tiltölulega einangrað, leitaði ekki til málsaðila. Hvorki Blaðamannafélagið né helstu fjölmiðlafyrirtæki áttu kost á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við nefndina. Þetta er stórkostlegur ágalli á aðdraganda málsins, á undirbúningi þess og er beinlínis óskynsamlegt að standa þannig að málum.

Umræðan er hins vegar vel þekkt og það er þeim mun dapurlegra þegar haft er í huga að fljótt á litið ætti ekki að þurfa að vera mikið ágreiningur um markmið málsins. Ég hef eiginlega ekki heyrt nokkurn mann mæla gegn því að mikilvægt sé að tryggja í landinu fjölbreytta, óháða og hlutlæga fjölmiðlun. Spurningin er bara hvernig það verði best gert og hvort einhver reglusetning af þessu tagi sé til þess fallin að ná þessum markmiðum fram, eða hvort hún sé óþörf eða beinlínis skaðleg eins og sumir halda fram.

Mér finnst mikilvægt að menn skoði málið út frá raunsæju mati á aðstæðum á íslenskum markaði. Það gerir það auðvitað að verkum að við getum ekki endilega flutt inn reglur sem menn telja að dugi vel annars staðar, þótt ekkert annað kæmi til en það að markaðurinn er mjög smár. Því hljóta að vera takmörk sett hversu mörg fjölbreytt eða sterk sjálfstæð fjölmiðlafyrirtæki hann ber. Það markmið hlýtur hins vegar að teljast æskilegt í sjálfu sér. Ég sakna þess nokkuð í umræðunni hversu mikla tilhneigingu menn hafa til þess að vera annaðhvort eða. Það hlýtur að vera gott að fjölmiðlunin sé eins fjölbreytt og í eins mörgum sjálfstæðum óháðum einingum og raunhæft er. Fjölmiðlarnir kallast auðvitað á og út frá öllum venjulegum mælikvörðum og sjónarmiðum er æskilegt að fleiri en færri séu á sviðinu.

Að óbreyttu, með engum gildandi sértækum lögum, er ekkert sem útilokar að í raun væru fyrst og fremst tvö fjölmiðlafyrirtæki í landinu, þ.e. Ríkisútvarpið og ein einkarekin samsteypa. Þá stæðum við frammi fyrir spurningunni: Viljum við það? Þættu okkur það góðar fréttir ef í kvöld fréttist að Árvakur væri að kaupa Norðurljós? Nei, ég held nú ekki. Væntanlega mundu menn velta því fyrir sér hvort þá sé ekki fulllangt gengið. Það mundi eingöngu ráðast af því, og því einu, hvort samkeppnisyfirvöld stöðvuðu slíka sameiningu, á almennum grundvelli almennra ákvæða samkeppnislaga, þ.e. hinna viðskiptalegu sjónarmiða í málinu en ekki því er lýtur að fjölmiðlum út frá skoðanafrelsi, menningu og öðru slíku. Það er ekki hlutverk Samkeppnisstofnunar. Af því spretta efasemdirnar um að hin almennu ákvæði samkeppnislaga, hér eins og annars staðar, dugi ein og sér.

Mér finnst líka miður, herra forseti, þegar menn ræða málið út frá spurningunni um hvort núverandi ástand hafi verið eða sé misnotað eða ekki. Mér finnst óþarft að setja málið í það samhengi. Vonandi getum við verið sammála um og treyst því að það sé engin sérstök ástæða til að halda því fram að núverandi ástand eða nýtilkomið hafi verið misnotað eða menn hafi ráðist í það af annarlegum hvötum að setja peninga í fjölmiðla, endurreisa þá sem voru illa staddir eins og raun ber vitni að undanförnu. Það ætti ekki að vera til umræðu hér heldur hitt: Hvernig viljum við hafa reglurnar til lengri tíma litið? Við þurfum að svara spurningunni um það hvort felist hættur í ástandinu eins og það er eða gæti orðið. Þá er mitt svar já.

Ég held því hiklaust fram að það felist hættur í að leyfa ótakmarkaða samþjöppun og hafa engar reglur sem komi í veg fyrir að stóraðilar á öðrum sviðum viðskipta geti þess vegna lagt alla einkareknu fjölmiðlana í landinu undir sig. Með því er ég ekki að segja að verið sé að misnota þá stöðu sem uppi er í dag né heldur að það hafi verið tilgangur manna með því að setja í þá fjármuni. Ég hef aldrei haldið slíku fram og mundi ekki gera það nema ég gæti nefnt um það skýr dæmi. Mér hefur einnig fundist það ódýr málflutningur í þessum efnum oft á tíðum, að gefa sér það fyrir fram að þar sé eitthvað óhreint á ferðinni.

Það er mikill barnaskapur að sjá ekki að aðstæðurnar sem hér hafa verið að skapast bjóða upp á tortryggni. Þær bjóða tortryggni heim. Þær eru mjög líklegar til að valda viðvarandi vangaveltum um hvort einhver óeðlileg hagsmunatengsl séu flæðandi á milli þótt ekki væri nema vegna þess að um er að ræða aðila sem eru mjög stórir í almennu viðskiptalífi og nota mikið auglýsingar til að koma vörum sínum eða þjónustu á framfæri. Þeir eru um leið orðnir helstu tekjugjafar fjölmiðlanna og menn velta fyrir sér þeim hagsmunum sem liggja þar á milli.

Skýrslan sem hér er til umræðu er, eins og margir hafa áður sagt, að mörgu leyti hið ágætasta plagg. Það má hrósa henni fyrir að menn eru þar varfærnir í ályktunum. Menn velta hlutum upp til frekari skoðunar og mér finnst að skýrsluhöfundar ættu að njóta sannmælis í því að þeir gefa það ítrekað í skyn að þeir séu að leggja fram grundvöll til umræðu í málinu, grundvöll til frekari skoðunar, en ekki endilega að skýrslan sé tæk til ákvarðanatöku hér og nú. Til marks um það get ég t.d. vitnað í innganginn að kafla 6.4 á bls. 81, Leiðir sem koma til greina. Þar segir m.a. um tillögurnar, með leyfi forseta:

,,Nauðsynlegt er að hafa í huga við lestur þeirra að þær þarfnast allar ítarlegri tæknilegrar útfærslu en tök eru á að setja fram hér. Er við það miðað á þessu stigi að þær geti orðið grundvöllur að pólitískri ákvörðun um það hvaða leiðir skuli farnar.``

Áður er búið að benda á að settar séu fram hugmyndir og atriði til umræðu og skoðunar. Nefndin veltir upp fjölmörgum leiðum sem til greina koma. Þær er að finna í þessum sama kafla. Þar er byrjað á að fjalla um Ríkisútvarpið, eins og hér hefur verið nefnt, og lögð mikil áhersla á eflingu þess. Fjallað er um samkeppnislög og hvaða möguleika menn hafa til að beita þeim einum. Höfundar komast að vísu að þeirri niðurstöðu að víðast hvar hafi menn talið sig þurfa frekari úrræði, sérreglur. Þó er bent á þá leið sem hér er ekki valið að fara, að setja inn í samkeppnislög ákvæði um að fjölmiðlafyrirtækjum sé gert að gefa nánari upplýsingar um eignarhald á þeim fyrirtækjum og félögum sem að fjölmiðlarekstrinum standa en almennt gengur og gerist, þ.e. að settar yrðu í almenn samkeppnislög sérstakar reglur sem væru vissulega ákveðnar kvaðir á fjölmiðlafyrirtæki, sérreglur hvað varðar upplýsingar um eigendur þeirra. Er eitthvað að þessu? Nei. Eru fordæmi fyrir slíku sambærileg? Já, þannig t.d. verða fyrirtæki í fjármálaþjónustu að sinna mun strangari tilkynningarskyldu um breytingar á eignarhaldi og eigendasamsetningu en gerist annars staðar. Menn eiga t.d. að tilkynna til Fjármálaeftirlitsins fyrir fram um áætlanir um að kaupa virkan eignarhlut í bönkum eða fjármálafyrirtækjum.

Hér er talað um leyfisveitingar, bæði hvað varðar dagblöð og útvarp. Þá staldra menn við þá staðreynd að dagblaðaútgáfa er ekki leyfisskyld sem geri það kannski að verkum að fjallað verður með svolítið öðrum hætti um þann hluta málsins. Það þýðir ekki að menn þurfi að gefast upp við að kalla t.d. eftir upplýsingum um gagnsæi hvað varðar eignarhald dagblaðafyrirtækja. Um það mætti setja sérstakar reglur. Í frv. er hins vegar eingöngu óskað eftir upplýsingum sérstaklega þegar í hlut eiga ljósvakamiðlar í gegnum þær upplýsingar sem þeir eiga að veita útvarpsréttarnefnd.

Síðan er vissulega farið rækilega yfir reglur um eignarhald á fjölmiðlum, fjallað um stafrænt sjónvarp, eignarhald erlendra aðila, sjálfstæði blaða- og fréttamanna, úrræði sem lúta að dagskrá og meira að segja ríkisstyrki til fjölmiðla. Því er velt upp hvort hér ætti jafnvel að hugleiða að koma á fót fjölmiðlastofnun, eins og víða hefur verið gert erlendis, sérstakri stofnun stjórnsýslu- og eftirlitsstofnun til að halda utan um þetta svið. Því ekki það? Er síður mikilvægt að hér sé til staðar opinbert tæki í höndum stjórnvalda til að hafa eftirlit með og stuðla að því að markmið á þessu sviði náist fram? Er síðri þörf á því en að hafa samkeppniseftirlit, fjármálaeftirlit eða ýmsar stofnanir og eftirlitsaðila á sviði samgangna, fjarskipta o.s.frv.? Ég sé ekki að svo þurfi að vera.

Um frv. sjálft, herra forseti, verð ég að segja að ég tel ýmis ákvæði þess meingölluð. Það er alveg ljóst að það eitt og sér nær á engan hátt utan um allt þetta stóra svið. Frv. ríkisstjórnarinnar dregur út einn tiltekinn þátt, takmörkun á eignarhaldi, og einskorðar sig við hann mjög þröngt. Það er mikill galli að mínu mati. Langæskilegast hefði verið að reyna að ná utan um málið í heild sinni í vandaðri og vel undirbúinni löggjöf sem hefði þá sjálfsagt komið inn á fleiri svið en útvarpslögin ein. Í raun má segja að breytingin sem hér er gerð á samkeppnislögum sé nánast til málamynda, þessi eina grein um að Samkeppnisstofnun skuli aðstoða útvarpsréttarnefnd, er eiginlega sjálfsögð. Ég geri ekki ráð fyrir því að Samkeppnisstofnun hefði skorast undan því að veita slíka þjónustu, jafnvel þótt ekki hefði hvílt á henni lagaskylda hvað það varðar.

Ég held að það ætti líka, að svo miklu leyti sem menn ætla að setja sértækar reglur til að tryggja dreifingu eignarhaldsins, að fara mjög vandlega yfir það hve langt eigi þá að ganga. Hversu langt þarf að ganga til að ná fram þeim markmiðum sem menn vilja? Menn þurfa að gæta þess vel að fara þar ekki offari og beita ekki harkalegri eða meira íþyngjandi aðgerðum en ástæða til og hafa hliðsjón af veruleikanum eins og hann er á Íslandi.

Nú má segja að það hefði verið miklu betra ef þessar reglur hefðu legið fyrir fyrir einu ári eða fyrir fimm árum, að menn hefðu gengið að þeim vísum og þær verið með tilteknum hætti þegar t.d. uppstokkun í fjölmiðlaheiminum átti sér stað eins og við höfum upplifað á síðustu mánuðum. En því fáum við ekki ráðið eða breytt. Menn verða að taka mið af þeim veruleika sem við þeim blasir og standa þannig að lagasetningunni að það sé ekki bersýnilega ósanngjarnt, raski ekki högum starfandi aðila umfram það sem efni standa til og óhjákvæmilegt er með hliðsjón af þeim markmiðum sem menn ætla að ná fram. Það heitir að gæta meðalhófs og ber að skoða málið í því ljósi.

Ég vil taka fram, m.a. vegna umræðna hér áðan um að menn gætu náð þessum markmiðum alfarið með því að setja ákvæði um ritstjórnarlegt sjálfstæði og annað í þeim dúr og með því sé óþarft að hafa áhyggjur af eignarhliðinni, að ég er ekki þeirrar skoðunar. Ég held að það mundi reynast erfitt að tryggja þetta með ákvæðum um ritstjórnarlegt sjálfstæði einum og sér og leyfa algerlega og óhefta samþjöppun hvað eignarhaldið snertir. Enda er niðurstaðan víðast hvar þar sem við skoðum þetta sú að menn reyna að einhverju leyti að fara báðar leiðir og setja ákveðnar reglur sem dreifa eignarhaldinu jafnframt, m.a. vegna þess að að lokum er alltaf erfitt að komast fram hjá þeirri augljósu staðreynd að eigandi fyrirtækis er eigandi fyrirtækis og hann ræður því. Hann ræður m.a. hvort hann rekur það, hvort hann starfrækir það áfram.

Að því hefur verið spurt og er engin hótfyndni að endurtaka það: Hversu lengi kæmi Morgunblaðið út í höndum núverandi eigenda sinna ef Styrmir Gunnarsson tæki ákvörðun um það á morgun að það færi að berjast fyrir sósíalisma og brottför hersins? Einhvern veginn hef ég efasemdir um að hvort tveggja mundi halda áfram, að Styrmir Gunnarsson yrði ritstjóri blaðsins áfram og/eða að Morgunblaðið kæmi lengi út. Það er nú þannig. En auðvitað væri það ákaflega fróðlegt ef þetta gerðist og sögulega séð skemmtilegt.

[17:15]

Jafnvel þótt í gildi væru reglur sem gerðu það alveg ljóst og skýr lög um að ritstjóri ráði ritstjórnarstefnunni þá er veruleikinn sá að eigandinn er eigandi. Hann ræður því hvort hann starfrækir miðilinn áfram og ræður og segir upp starfsfólki. Fram hjá þessu verður alltaf erfitt að komast.

Ég vil hins vegar undir lokin gera athugasemd og ræða nokkur efnisatriði frv. í þeirri von og trausti þess að menn komist einhvern tímann til þess að ræða efnisatriði þessa máls yfirvegað. Ég trúi því auðvitað þangað til ég tek á öðru að menn fái þann tíma sem þeir telja sig þurfa til að skoða þessi mál. Það er augljóst að hér er stórmál á ferð sem undir öllum eðlilegum og venjulegum kringumstæðum væri heppilegast að hafa til umfjöllunar um einhverra mánaða eða missira skeið, senda til umsagnar, draga inn öll sjónarmið og vinna rækilega úr þeim. Með öðrum orðum erum við að tala um ferli sem tæki frekar missiri en mánuði.

Ég tel að það gangi mjög langt að segja að fyrirtæki í markaðsráðandi stöðu á einhverju sviði viðskipta megi ekki eiga eina einustu krónu í fjölmiðlafyrirtæki, í ljósvakamiðli. Það er stór spurning hvort menn eiga að fara þá leið að segja bara núll prósent. Því kann að vera ansi erfitt að koma fyrir vegna þess hversu samsett fyrirtæki eru í stórum stíl í landinu. Markaðsráðandi fyrirtæki lenda oft í því, eðli málsins samkvæmt, gegnum dótturfyrirtæki og víðtækt net að eiga í aðilum hér og þar. Þetta verður nú talsverður handleggur að fara yfir. Þarna er spurning um hvort setja mætti þak sem miðaðist við tiltölulega lága prósentu, hvort það væri ekki sanngjarnara og raunhæfara. Hið sama gildir um að fyrirtæki eða fyrirtækjasamsteypa sem tengist starfsemi á sviði ljósvakamiðla megi ekki eiga eina einustu krónu í útgefanda dagblaðs. Er ástæða til þess að ganga svo langt, jafnvel með fullri virðingu fyrir því sem var alveg gilt sjónarmið að skoða, að halda dreifðri eignaraðild? Hvað með að nota þar ákvæði laga um fjármálastofnanir, að þar séu mörkin dregin við virkan eignarhlut? Það mætti þess vegna nota sömu skilgreiningu og þar er, með leyfi forseta, þ.e. að ,,með virkum eignarhlut er átt við beina eða óbeina hlutdeild sem nemur 10% eða meira af eigin fé eða atkvæðisrétti eða aðra hlutdeild sem gerir kleift að hafa veruleg áhrif á stjórnun viðkomandi`` fyrirtæki. Með öðrum orðum, mætti ljósvakafyrirtæki aldrei hafa veruleg áhrif á stjórnun hins fyrirtækisins, enda undir 10% þaki.

Að síðustu vil ég segja, herra forseti, um gildistökuákvæði frumvarpsins, að þau tel ég alls ekki ganga eins og þau eru úr garði gerð. Mér finnst lágmark að þegar útgefin útvarpsleyfi haldi gildi sínu og lagaskilin séu með þeim hætti að menn hafi hið minnsta tveggja til þriggja ára aðlögunartíma óháð þeim leyfum sem þeir hafa í höndunum en til viðbótar gildi öll þegar útgefin útvarpsleyfi þar til þau renna úr gildi og þarf að endurnýja þau, þá á grundvelli hinna nýju reglna. Mér finnst t.d. fáránlegt ef höggvið verður eitt ár aftan af útgefnu leyfi næststærstu sjónvarpsstöðvarinnar í landinu, eins og frv. gerir ráð fyrir. Stöð 2 hefur samkvæmt fylgiskjölum í frv. útvarpsleyfi fram í ágúst á árinu 2007 og mundi þar af leiðandi missa eitt ár aftan af þegar útgefnu leyfi. Auk þess ímynda ég mér, hvað sanngirni varðar og málsástæður fyrir dómstólum ef á slíkt mundi reyna, að hyggilegra væri að fara þá leið sem ég tala hér fyrir.