Útvarpslög og samkeppnislög

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 17:46:29 (7402)

2004-05-03 17:46:29# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, GÖrl
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[17:46]

Gunnar Örlygsson:

Herra forseti. Ég vil hefja þessa ræðu á því að lesa tilvitnanir úr ritlingi sem er að finna á heimasíðu Sjálfstæðisflokksins. Ritlingurinn ber heitið Sjálfstæðisstefnan og er sérstaklega tekið fram að stærsti hluti ritlingsins sé eftir hæstvirtan forsætisráðherra Davíð Oddsson. Með leyfi forseta:

,,Afstaða Sjálfstæðisflokksins til nokkurra lykilhugtaka þjóðmálabaráttunnar varpar ljósi á stefnu hans. Sjálfstæðisflokkurinn er lýðræðisflokkur. Hann setur traust sitt og trú á sérhvern borgara lýðveldisins í þeirri vissu, að fái frumkvæði hans, framkvæmdaþróttur og kapp notið sín, miði skjótast áfram. Stefna flokksins miðast við það, að menn fái notið ávaxta verka sinna og sjái tilgang í því að leggja sig alla fram. Þessi trú á manninn markar einnig ríkinu sinn bás.``

Síðar segir, með leyfi forseta:

,,Fram hjá því verður ekki litið, að það er pólitísk tvöfeldni að vinna að því öllum árum að auka hlut ríkisvaldsins á kostnað einstaklingsins og athafnafrelsis hans svo sem kostur er, en segjast á hinn bóginn vilja veg lýðfrelsis sem mestan.``

Á öðrum stað segir í ritlingi forsætisráðherra, með leyfi forseta:

Það sem öðru fremur einkennir skoðanir sjálfstæðisfólks er trú á frelsi einstaklingsins samfara ábyrgð á eigin gerðum, umburðarlyndi gagnvart mismunandi lífsviðhorfum og lífsháttum, áhersla á sameiginlega hagsmuni ólíkra þjóðfélagshópa og efasemdir um að ríkisvaldið geti leyst öll vandamál.``

Frumvarp hæstv. forsætisráðherra sem hér er til umræðu brýtur augljóslega gegn æðstu og göfugustu gildum hægri sinna í íslenskri pólitík. Hans eigin skrif sanna fullyrðingu mína. Frumvarpið endurspeglar í senn óvönduð vinnubrögð við gerð frumvarpsins sem og bræði og langrækni fyrsta flutningsmanns frumvarpsins út í áberandi persónur í íslensku viðskiptalífi.

Herra forseti. Sjálfstæðismenn segja lögin almenn og ekki beinast gegn einhverjum tilteknum fyrirtækjum. Trúi því hver sem vill.

Sjálfstæðismenn segja markmið laganna að tryggja eðlilegt umhverfi fjölmiðla á Íslandi. Ég spyr á móti: Er eitthvað óeðlilegt við starfsemi fjölmiðla á Íslandi?

Sjálfstæðismenn segja lögin koma í veg fyrir að fyrirtæki í markaðsráðandi stöðu geti átt fjölmiðla. Ég spyr á móti: Gera menn sér grein fyrir smæð hins íslenska markaðar? Er ekki líklegt að dragi undan fjárstreymi í fjölmiðlarekstur þegar öflugum fyrirtækjum í viðskiptalífinu er meinaður aðgangur að greininni?

Þá spyr maður sig um leið: Hvað um störf hundruð ungra Íslendinga sem fengu áfram tækifæri í rekstri Norðurljósa þegar fyrirtækinu var bjargað frá gjaldþroti? Skipta afdrif þessa fólks Sjálfstæðisflokkinn engu máli?

Sjálfstæðisflokkurinn heldur því fram að markaðsráðandi fyrirtæki þurfi strangt aðhald fjölmiðla. Slíkt aðhald verður ekki trúverðugt ef meiri hluti fjölmiðla er t.d. að stærstum hluta í eigu markaðsráðandi fyrirtækis. Ég spyr á móti: Hvað um hugmyndir sem tryggja ritstjórnarlegt frelsi innan fjölmiðla? Hvað um hugmyndir sem varða fullkomið gagnsæi? Engan veginn er tekið á þessum góðu gildu hugmyndum í frumvarpinu þó svo skýrsla menntamálaráðherra hafi svo mælt fyrir.

Enn einn áróður sjálfstæðismanna er að prentmiðlar og ljósvakamiðlar geti ekki verið á sömu hendi, það tryggi jafnvægi á fjölmiðlamarkaði og er sambærilegt við reglur sem gilda víða erlendis. Hvernig má það vera að eitt fyrirtæki hafi getað átt kvótann, verksmiðjurnar, skipin og flutningana í áranna rás án þess að sjálfstæðismenn lyftu svo lítið sem litla fingri? Hér tala ég um Eimskip, óskabarn þjóðarinnar. Er það ekki einsýnt og deginum ljósara að hér er um persónulega aðför forsætisráðherra að ræða? Ef svarið við þessari spurningu nei, af hverju í ósköpunum vó hann ekki að hringamyndunartilburðum Eimskips? Má vera að fyrirtækið sem innsti koppur í kolkrabbaveldi Sjálfstæðisflokksins hafi greitt mynduglega inn á reikninga Sjálfstæðisflokksins í kosningabaráttum undanfarinna ára?

Sjálfstæðismenn segja málsmeðferð ríkisstjórnarinnar eðlilega og þá sömu og við önnur viðamikil mál. Að mínu mati er þessi fullyrðing sjálfstæðismanna staðfesting á því slæma eðli sem einkennir orðið flokkinn. Hér vitna ég til einræðis og mjög slæmrar misbeitingar á valdi í áranna rás. Siðferðisbresturinn er orðinn hættulega mikill.

Á heimasíðu Sjálfstæðisflokksins segir, með leyfi forseta:

,,Alþingi fær nægan tíma til að ræða frumvarpið. Þingstörfum lýkur ekki fyrr en Alþingi hefur tekið allan þann tíma sem þurfa þykir til að afgreiða málið.``

Herra forseti. Hér vil ég staldra við. Stórgallað mál er til meðferðar í fyrstu umræðu. Bræði, langrækni og einræði einnar persónu sem hefur kollvarpað þjóðfélagsumræðunni hér á landi síðustu daga skal nú keyra í gegn nú á síðustu dögum yfirstandandi þings. Önnur athyglisverð mál skulu lögð til hliðar og á endanum sofna í nefndum. Hvað um hagsmuni þeirra sem frumvarp Sigurlínar Margrétar Sigurðardóttur um íslenska táknmálið sem fyrsta mál heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra tekur á? Hvers á fólk að gjalda sem sá til sólar í frumvarpi Jóhönnu Sigurðardóttur um gjaldþrota einstaklinga eða þá lýðræðissinnar sem höfðu velþóknun á frumvarpi Kristins H. Gunnarssonar um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands? Fleiri tugir annarra þingmannamála bíða efnislegrar afgreiðslu og lýðræðislegrar meðferðar.

Sjálfstæðismenn segja að erlendis séu margs konar reglur sem stjórnvöld setja um fjölmiðlamarkaðinn. Þeim er ætlað að tryggja lýðræðislega umræðu og að fjölmiðlar sinni hlutverki sínu. Hér vil ég nota tækifærið og minna sjálfstæðismenn á að víða erlendis eru einnig lög sem tryggja opið bókhald stjórnmálaflokka. Hvað finnst sjálfstæðismönnum um slík lög? Eru slík lög ekki til lýðræðislegra umbóta?

Önnur bein tilvitnun af vef Sjálfstæðisflokksins, með leyfi forseta:

,,Ef ljósvakamiðlar eru rekstrarhæfir og geta skilað eigendum sínum eðlilegum arði, þá ætti ekki að verða skortur á fjárfestum til að koma í stað þeirra fyrirtækja sem sökum markaðsráðandi stöðu sinnar mega ekki eiga í ljósvakamiðlum.``

Hér endurspeglast hin ótrúlega firra sem einkennir frumvarpið. Það er ekki langt að leita um rekstrarerfiðleika fjölmiðla, þá sérstaklega ljósvakamiðla. Fyrirtæki í ríkiseign, öðru nafni RÚV, sem hefur það ótrúlega forskot á önnur fyrirtæki í greininni að njóta skyldugreiðslu frá landsmönnum í formi afnotagjalda rekur sig engu að síður með stórkostlegum halla. Ef fjársterkir aðilar fá ekki inni í greininni þá er ljóst að ljósvakamiðlar munu eiga alvarlega undir högg að sækja.

Herra forseti. Ég er fylgjandi því að umræða skapist um störf og umhverfi fjölmiðla. Að sjálfsögðu þarf að huga að lýðræðislegri umfjöllun, huga að fjölbreytni, tryggja heilbrigða umfjöllun og góða siði öllum Íslendingum til vegs og virðingar. En þessum markmiðum verður aldrei náð með einræðisstíl hæstv. forsætisráðherra sem svo sannarlega endurspeglast í umræðu undanfarinna missira. Tony Blair er oft umdeildur á síðum enskra dagblaða. Sama gildir um George Bush í bandarískum dagblöðum. Í þessum tveimur lýðræðisríkjum er ekki nokkur vegur að þeir geti upp á sitt einsdæmi vegið að fjölmiðlum með eins afgerandi hætti og hæstv. forsætisráðherra gerir nú.

Þá er dapurt til þess að líta að meðvirkni almennings er mikil fyrir þeim einræðishætti sem einkennt hefur störf hæstv. forsætisráðherra síðustu missirin. Annaðhvort er almenningur í stríðshug og hyllir foringjann eða hann er furðu lostinn og um leið hneykslaður á framferði helstu ráðamanna þjóðarinnar. Til allrar lukku fækkar þeim stríðslyndu þessi missirin.

Herra forseti. Ef þessi lög öðlast gildi þá er tryggt að fjölbreytni á íslenskum fjölmiðlamarkaði mun eiga undir högg að sækja. Þá er einnig líklegt að fjölmargir íslenskir fjölmiðlamenn missi atvinnu sína. Umfram allt mun Ísland festa sig í sessi sem alvarlega gallað lýðveldi sem einna helst líkist fyrrum ráðstjórnarríkjum gamla kommúnismans.

Herra forseti. Á síðasta landsþingi Frjálslynda flokksins var eftirfarandi ályktun samþykkt, með leyfi forseta:

,,Íslendingar þurfa að heimta aftur frelsi til orða og athafna, sem hefur verið stórlega skert af misvitrum valdhöfum. Athafnafrelsi og frelsi í viðskiptum eru undirstöðuatriði í framfarasókn þjóðarinnar. Hvers konar einokun verði aflétt.``

Við heilbrigða hægri menn í íslenskri pólitík vil ég segja: Það er einungis einn heilbrigður hægri flokkur til á Íslandi í dag. Sá flokkur er Frjálslyndi flokkurinn.