Útvarpslög og samkeppnislög

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 18:15:16 (7414)

2004-05-03 18:15:16# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, MÞH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[18:15]

Magnús Þór Hafsteinsson (andsvar):

Þetta var nú mjög djúpt svar sem sagði mér nákvæmlega ekki neitt. Svo skal böl bæta að benda á eitthvað annað. (Gripið fram í.) Það er það sem mér dettur í hug þegar ég heyri í hv. þm. Drífu Hjartardóttur. Ég ætla ekki að ræða hér um mín skrif. Ég er að spyrja hér um skrif ungra framsóknarmanna í garð þessa frumvarps. En ég fékk ekkert svar við þeirri spurningu.

Gott og vel. Ég átti heldur svo sem ekki von á því að fá fyllilegt svar við þessari spurningu því að hún er að sönnu frekar pínleg fyrir báða stjórnarflokkanna. Þetta er ekki eina greinin eftir unga framsóknarmenn gegn þessu frumvarpi. Tína má fleiri til og eflaust munu þær poppa hér upp seinna í kvöld.

Ég heyrði líka að hv. þm. Drífa Hjartardóttir talaði um að tvö ár væru fyllilega nægur tími til aðlögunar fyrir fjölmiðlafyrirtæki varðandi þetta frumvarp. Gott og vel.

Þá langar mig til að spyrja formann landbúnaðarnefndar að því hvort hún telji þá sömuleiðis að tvö ár væri nægur tími fyrir bændur þessa lands hvað varðar mjólkurkvóta ef mjólkurkvótinn yrði nú tekinn af þeim og þeir fengju bara tvö ár til að aðlaga sig.

Það væri líka gaman að heyra hvort hún teldi að tvö ár væru nægur tími til aðlögunar fyrir íslenska útgerðarmenn ef veiðiheimildirnar yrðu allt í einu teknar af þeim. Það væri gaman að heyra það.

Þarna er hvort tveggja um að ræða stéttir sem hafa skuldsett sig verulega til að kaupa sér atvinnurétt, veiðirétt í öðru tilfellinu og framleiðslurétt í hinu tilfellinu. Hér erum við að ræða um fjölmiðlafyrirtæki sem hafa skuldsett sig verulega til að kaupa bæði tækjabúnað, vélar og annað þess háttar, markaðssetja sig og ná fótfestu á mjög erfiðum markaði. Við vitum að hann hefur verið mjög erfiður og iðulega skilað miklu tapi. Verið er að taka mikla áhættu. Hér er verið að setja fjárfestingar þessara aðila í stórvoða.

Eins og hefur komið fram hér fyrr í dag þá hafa verið rifjuð upp ummæli hæstv. forsætisráðherra, frú forseti, frá því í kosningabaráttunni í vor þar sem hann sakaði meðal annars Frjálslynda flokkinn um að henda sprengju inn í íslenskt atvinnulíf þegar við vorum ekki að leggja til neitt annað en, jú, að taka kvótann af mönnum. En við ætluðum ekki að taka af þeim veiðiréttinn. Þeir áttu að halda áfram að veiða fisk eins og fyrr og sennilega miklu meira en þeir hafa gert fram að þessu.

Hver er að henda sprengjum í dag?