Útvarpslög og samkeppnislög

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 18:18:20 (7416)

2004-05-03 18:18:20# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, MÁ
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[18:18]

Mörður Árnason:

Forseti. Í dag er 3. maí og 3. maí er alþjóðlegur dagur frjálsrar blaðamennsku. Hann er það vegna þess að árið 1753 var ritstjóri í því sem þá var New York nýlendan dæmdur fyrir skrif sem þóttu andstæð yfirvaldinu. Það er kannski viðeigandi að þessi umræða fari hér fram í dag á alþjóðlegum degi frjálsrar blaðamennsku.

Það er sérkennilegt að þrátt fyrir þann tíma sem liðinn er frá þessari athöfn --- tvær og hálf öld mun það vera --- þá hafa valdamenn í upplýstu lýðræðisríki enn þær skoðanir að í bága brýtur við hina frjálsu blaðamennsku. Það er til að mynda sérkennilegt að hæstv. forsætisráðherra og hans lið hefur þau ein dæmi nefnt, fyrir utan lyfjamál ýmis ---

Forseti. Ég sé að ráðherrabekkir eru auðir. Hæstv. menntamálaráðherra sé ég ekki. Heilbrigðisráðherra sem hér var áðan sé ég ekki og hæstv. forsætisráðherra og flutningsmann sé ég ekki heldur. Hverju sætir það, forseti?

(Forseti (JBjart): Forseti gerir ráð fyrir, hv. þm., að nefndir ráðherrar og ýmsir fleiri sem ekki verma hérna bekkina séu að fylgjast með ágætri ræðu hans annars staðar.)

Telurðu að formaður allsherjarnefndar sé til dæmis að því? Hann fór héðan út mjög snemma í dag og hefur ekkert sést hérna síðan.

Ég geri ráð fyrir að við viljum hafa þetta þannig að ráðherrar séu viðstaddir þegar maður er að mæla við þá og ef þeir eru það ekki þá sé tryggt að þeir séu einhvers staðar þar sem þeir heyra í manni og ef þeir heyri ekki í manni að þeir fái þá heyrnartæki lánað hjá forsetum þingsins. Ég bið forsetann að athuga þetta.

Ég vil halda áfram ræðu minni. Sú sérkennilega staða er uppi að það dæmi eitt sem hæstv. forsætisráðherra, sem ekki er hér viðstaddur nú, nefnir um misnotkun fjölmiðla, þá sem samþjöppunin hafi leitt til og hér á að koma í veg fyrir, eru meint viðbrögð ákveðinna fjölmiðla við nákvæmlega því frumvarpi sem hér er lagt fram. Það er sem sé þannig að hæstv. forsætisráðherra er óánægður með viðbrögðin við því frumvarpi sem lagt er fram og úr þeirri óánægju eru jafnframt búin til rök um það að frumvarpið hefði átt að leggja fram.

Það má kannski segja eins og einhver sagði við mig um daginn að svona röksemdafærsla sé svipuð þeirri að maður segi við annan: ,,Þú ert dóni.`` Og hinn segi: ,,Nú? Ja, þú ert nú eiginlega bara dóni sjálfur.`` Þá segir þessi: ,,Þarna sérðu. Þú ert dóni.`` Það er svona svipað sem hér fer fram.

Á 3. maí, alþjóðadegi frjálsrar blaðamennsku, er rétt að benda hæstv. forsætisráðherra, einkum ef hann væri nú staddur hér, á það hvað Jón gerir í þeim málum þegar hann er óánægður með umfjöllun blaða og ljósvaka um sjálfan hann. Ef hann er mjög óánægður þá leitar hann gjarnan einhvers konar leiðréttingar hjá fjölmiðlinum. Hann skrifar sjálfur grein. Hann biður um að geta sjálfur komið fram í frétt eða á einhverjum þeim stað þar sem hann getur andæft umfjöllun fjölmiðilsins. Ef hann er mjög óánægður á hann t.d. það ráð að hann talar við siðanefnd blaðamanna og kannar það hvort í siðareglum blaðamanna muni vera einhver leið til þess að hann fái leiðrétting mála sinna. Og ef hann er aldeilis hífandi rokvondur þá á hann þann rétt að fara í meiðyrðamál við ritstjóra blaðsins eða fréttastjóra fjölmiðilsins eða yfirmann og þann sem brást honum með þessum hætti.

Séra Jón, hvað gerir hann? Jú, hann lætur banna fjölmiðilinn. Leið séra Jóns er sú að banna fjölmiðilinn og það er það sem við erum að upplifa núna í dag, 3. maí, á alþjóðadegi frjálsrar blaðamennsku.

Það er ekki nema von að það frumvarp sem hér er til umræðu eigi sér fáa formælendur. Þeir eru einkum tveir hópar sem við höfum orðið varir við hér síðustu daga. Það eru annars vegar launaðir málsvarar og erindrekar stjórnarflokkanna með ýmsum hætti, núverandi aðstoðarmenn ráðherra ýmsir en ekki mjög margir af þeim fyrrverandi. Það eru nokkrir nefndarmanna í fjölmiðlanefndinni, einir tveir að ég held, annars vegar formaður nefndarinnar, sem er nýskipaður alþjóðlegur mannréttindadómari og hefur líka móðgast yfir því að hafa verið lýst í fjölmiðlum. Og það er Pétur Gunnarsson, hinn ópólitíski framkvæmdastjóri skrifstofu þingflokks Framsóknarflokksins sem hv. þm. Drífa Hjartardóttir nefndi áðan. En það er t.d. ekki Guðmundur Heiðar Frímannsson sem atyrðir, vissulega á þann kurteislega hátt sem hæfir Menntaskólanum á Akureyri þaðan sem hann er upprunninn og þar sem hann, hygg ég, starfar, forsætisráðherra og hæstv. ríkisstjórn fyrir að leggja þetta frumvarp hér fram og gerir alvarlegar athugasemdir við samhengi frumvarpsins og fjölmiðlaskýrslunnar. Og það eru ýmsir aðrir starfsmenn í sérstökum verkefnum hjá ríkisstjórninni. Til dæmis dúkkaði upp ritstjóri hinnar frægu bókar Forsætisráðherrar Íslands og var kynntur sem óháður blaðamaður í Kastljósi um daginn. Hann varði þetta frumvarp með oddi og egg, enda fær hann ágæt laun fyrir ýmis vikastörf hjá forsætisráðherranum.

Svo hafa reyndar líka, og það ber að viðurkenna og gefa því þá virðingu sem því hæfir, gamlir og góðir vinstri menn nokkrir sem einkum hafa reyndar fjölmiðlareynslu af gömlu flokksblöðunum komið fram og sagt sem svo að þeir séu á móti því að markaðslögmál gildi yfir höfuð og allra síst í fjölmiðlun. Þeir hafa sín rök og hafa nefnt þau og ég ber fulla virðingu fyrir þeim í sjálfu sér.

Hins vegar hefur frumvarpið vakið öldu mótmæla í samfélaginu. Það eru blaðamenn, stéttarfélög, það eru fulltrúar viðskiptalífsins, áhugamenn um stjórnmál og menningu og fjölmiðlun, það eru neytendur fjölmiðlunar sjálfir, það er almenningur, þátttakendurnir í upplýsingasamfélaginu og aðilarnir, leikararnir í lýðræðissamfélaginu. Þeir hafa líka risið upp.

Ástæða væri til að fara yfir þessa ítarlegu umræðu hér alla. En aðstæður leyfa það nú ekki þannig að það verður að takmarka sig. Kannski gefst tækifæri til þess í 2. umr. um málið, ef það nær svo langt, að fara rækilega yfir þessa umræðu.

Ein merkasta röddin í umræðu síðustu daga að öðrum ólöstuðum er Páll Þórhallsson sem skrifar í sunnudagsblað Morgunblaðsins. Páll hefur mikla reynslu sem blaðamaður. Hann er lögfræðingur og vinnur nú í fjölmiðladeild Evrópuráðs þess sem hér er mjög tíðrætt. (SJS: Frændi Hjörleifs.) Frændi Hjörleifs. Ekki versnar það hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni. Þetta er maður sem þekkir málin frá öllum sjónarhornum. Hann hefur haft kynni af Morgunblaðinu líka, þessi maður, og honum til heiðurs er auðvitað það að hæstv. menntmálaráðherra, sem ekki er hér stödd, vitnaði í aðra ágæta blaðagrein Páls á miðvikudaginn. Hann hlýtur að leggja við eyru nú þar sem hann situr einhvers staðar úti í bæ og hlustar á umræður um þetta frumvarp.

Páll fjallar um störf Evrópuráðsins að fjölmiðlun síðustu áratugi og er ekki vanþörf á miðað við það stig þekkingar sem komið hefur fram í þingsölum á þeim störfum. Hann rekur atriði úr tilmælum þess á því sviði, en elstu tilmælin sem Páll talar um eru að mér sýnist frá 1974. Hann dregur síðan ályktanir af þessari umfjöllun sinni. Hann dregur þær ályktanir að takmarkanir á því hverjir geta sótt um útvarpsleyfi séu í sjálfu sér íhlutun í tjáningarfrelsi, þess vegna teljist þær ekki heimilar nema þær uppfylli ákveðin skilyrði í mannréttindasáttmálanum og það þýðir að þær verða að vera byggðar á lögum, þær verða að þjóna lögmætu markmiði og vera það sem kallað er nauðsynlegar í lýðræðisþjóðfélagi þannig að við lagasetningu af því tagi sem við erum hér að fást við verður það að vera hafið yfir allan vafa að takmarkanir á útvarpsleyfum eigi sér lýðræðisleg rök.

Páll segir líka að fjölbreytni í fjölmiðlun sé lögmætt markmið. Það er lögmætt. En þá er það auðvitað fjölbreytni af því tagi sem tilskipunin frá 1999 lýsir. Ég bendi mönnum á að í fjölmiðlaskýrslunni segir hver hún er, vegna þess að menn hafa hér, einkum þeir sem tala af hálfu hæstv. ríkisstjórnar, talað um aðeins eina tegund fjölbreytni. Ég vona að mér gefist tími, annaðhvort síðar í ræðu minni eða síðar í dag, til þess að fara aftur með þá skilgreiningu, vegna þess að klukkan var orðin nokkuð margt og aðeins staddir hér nokkrir þingmenn, háttvirtir reyndar, í síðustu umræðu um þetta mál þegar ég fór með þessa skilgreiningu.

Þar er sagt að fjölbreytni sé að sjálfsögðu markmið sem réttlætt getur stjórnun útvarpsmála umfram tæknileg atriði, til dæmis sé heimilt að setja skilyrði um gerð dagskrár við slíkt útvarpsleyfi af félagslegum og af menningarlegum ástæðum.

Hann segir svo í þriðja lagi, og það er sú þriðja af ályktunum Páls Þórhallssonar, og nú ætla ég að biðja um leyfi forseta til þess að vitna beint:

,,Ríki sem herðir mjög skilyrði fyrir því að veitt séu útvarpsleyfi verður að rökstyðja hvers vegna aðrar vægari leiðir voru ekki færar til að ná sömu markmiðum.``

Þetta segir Páll Þórhallsson lögfræðingur í fjölmiðladeild Evrópuráðsins.

Ég endurtek:

,,Ríki sem herðir mjög skilyrði fyrir því að veitt séu útvarpsleyfi verður að rökstyðja hvers vegna aðrar vægari leiðir voru ekki færar til að ná sömu markmiðum.``

Höfum við heyrt slíkan rökstuðning hér í dag, í umræðu síðustu daga í máli hæstv. forsætisráðherra sem er annars staðar að hlusta á umræðuna eða í máli annarra hæstv. ráðherra sem eru sum sé á herbergjum sínum eða í sínum skotum með sjónvarpið opið og beina útsendingu frá þingi? Nei, við höfum ekki heyrt það.

Við samfylkingarmenn höfum hins vegar bent á slíkar leiðir. Við höfum sett þær fram. Við höfum sagt: Það eru tvær aðferðir til þess að gera þetta. Og ég þakka Steingrími J. Sigfússyni fyrir að taka undir þetta og verja hér ræðu sinni til þess að fara í þetta mál. Það eru tvær aðferðir til að gera þetta. Önnur aðferðin er leið bannsins, leið hinnar fullkomnu takmörkunar, í raun leið geðþóttans, þess óðageðþótta sem hér virðist ríkja í samfélagi okkar tíma og hefur tekið við af frænku sinni óðaverðbólgunni eins og ágætlega er sagt í góðri grein í Morgunblaðinu. Þetta er leiðin sem hæstv. forsætisráðherra hefur togað ríkisstjórn sína og stjórnarflokka alla í.

[18:30]

Hin leiðin er til. Til eru vægari leiðir. Við samfylkingarmenn höldum því fram að þær séu færar. Við teljum það skyldu okkar, og undir það tekur Páll Þórhallsson, að fara þær fyrst til að ná sömu markmiðum. Við höfum aldrei útilokað takmarkanir á eignarhaldi á fjölmiðlum. Í tilvísun okkar til samkeppnislaganna felst það að með þeim lögum er hægt að takmarka eignarhald í fjölmiðlum eins og annars staðar. Við höfum hins vegar sagt: Þetta er neyðarúrræði, neyðarúrræði sem ekki á að grípa til nema aðrar leiðir séu ófærar.

Á meðan hæstv. forsrh. og ríkisstjórnin sem situr nú og hlustar á umræðurnar frá Alþingi, á meðan stjórnarflokkarnir, sem eru meira og minna að fá sér kaffi frammi í Skála, á meðan þetta fólk hefur ekki sagt okkur af hverju aðrar leiðir eru ekki færar þá er ekki hægt að taka mark á frumvarpinu sem hér er borið fram, sem alvörufrumvarpi, sem stjórnvaldsaðgerð sem ætlað er að bæta hag almennings í samfélaginu, að búa til leikreglur sem eru almennar og ekki sértækar. Almennar leikreglur ættu að vera grundvöllurinn að allri lagasetningu í því samfélagi sem forfeður okkar skiluðu okkur og okkur ber skylda til að færa fram og gera betra með hverri kynslóð.

Í fjórða lagi segir Páll Þórhallsson í ályktunum sínum, með leyfi forseta:

,,Reglur mega ekki vera það fortakslausar að þær útiloki með öllu að tilteknir aðilar geti fengið útvarpsleyfi.``

Þetta segir hann. Takmörkun sem byggist á því að tilteknir aðilar séu útilokaðir frá útvarpsleyfum er slæm.

Páll Þórhallsson talar nokkru síðar í grein sinni um útvarpspólitíkina og fjallar um stýringu og eftirlit með handhöfum útvarpsleyfa, sem sé í lágmarki hér og hafi verið. Hann vekur athygli á þeim galla sem hér hefur verið mörg undanfarin ár, að útvarpsréttarnefndin sem sett var á fót í árdaga hins nýja tíma í ljósvakamiðlun, hefur ekki staðið sig. Hún hefur ekki staðið sig af ýmsum ástæðum. Við þurfum að gera okkur grein fyrir því hvers vegna það er. Hvernig varð það ástand til sem nú er uppi og hæstv. ríkisstjórn er svo í nöp við? Það þarf að segja okkur hvernig stendur á því að útvarpsréttarnefndarformaðurinn, framkvæmdastjóri Sjálfstfl., Kjartan Gunnarsson, hefur ekki staðið sig sem skyldi.

Það þarf líka að sjálfsögðu að segja okkur hvar það stendur í frv. sem nú hefur verið nefnt, og hæstv. menntmrh. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir hélt fram í sjónvarpi fyrir nokkrum dögum, að það ætti að breyta útvarpsréttarnefndinni og reka Kjartan Gunnarsson. Við sjáum það ekki í frumvarpinu. Forseti. Við sjáum það ekki í frv. að neitt sé minnst á útvarpsréttarnefnd, skipun hennar og hæfi í henni. Enn rekur allt að því sama, öll vötn falla til þess sama fjarðar að hér sé um sérsniðið frv. að ræða, frv. sem einkum er beint gegn einu fyrirtæki, sem á að höggva á tiltekið vandamál í samfélaginu, þ.e. að frumvarpsflytjandanum og semjandanum líkar ekki við eigendur þess fyrirtækis.

Það er vert að minna á að fyrirtækið sjálft, Norðurljós, hefur lýst því yfir að það stefni að því, þegar endurskipulagningu þar er lokið, sem ég vona að gerist sem fyrst en hefur tafist mjög fyrir tilverknað hæstv. forsrh. og Sjálfstfl., að fara með fyrirtækið á markað. Það að fara með þetta fyrirtæki á markað ætti í sjálfu sér að leiða til þess að eignaraðildin verði dreifð og fjölbreytt. Þær reglur sem gilda á Verðbréfaþingi eru þannig að gagnsæi verður augljóst á hverju kvöldi. Það er svo annað mál, sem verður væntanlega rætt síðar, hvernig þetta frv. fer með þau fjölmiðlafyrirtæki sem vilja vera á markaði. Ég vona að menn gefi því gaum þegar það kemur upp.

Í fullri kurteisi, sem fer Páli Þórhallssyni vel, er öll hans grein, sem ég get ekki lesið meira úr, vægðarlaus dómur um þetta frumvarp ríkisstjórnarinnar. Í grein Páls Þórhallssonar er vísað á allt aðrar leiðir, leiðir sem fara í sömu átt og við samfylkingarmenn höfum lýst hér í ræðustól og í þingmálum okkar.

Það er líka athyglisvert, svo ég taki enn einu sinni upp þessa litlu bláu bók frá 1996, að starfshópurinn um endurskoðun á útvarpslögum sem Björn Bjarnason, þáverandi menntmrh. og núverandi hæstv. dómsmrh., skipaði og í voru Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson, núverandi formaður útvarpsráðs, Tómas Ingi Olrich, fyrrverandi menntmrh., Ásdís Halla Bragadóttir, núverandi bæjarstjóri í Garðabæ og Páll Magnússon, sem skrifar einmitt, í dag að ég hygg, snjalla grein í blað þar sem hann lýsir sárindum sínum í garð fyrri ríkisstjórnar sem hann vann þó fyrir, kemst að sömu niðurstöðu. Einnig má minna á að starfsmaður nefndarinnar var ... hann heitir Jónmundur Guðmarsson --- það kemur úr hörðustu átt að ég skuli ekki muna sérkennileg nöfn. Hann starfaði þar líka og er bæjarstjóri Sjálfstfl. á Seltjarnarnesi. Niðurstaða þeirra er í raun hin sama. Ég ætla að lesa lokaorðin í kafla 11 í þeirri ágætu skýrslu starfshóps um um endurskoðun á útvarpslögum. Þar segir að ákjósanlegra sé, heldur en að setja takmarkanir á eignarhald, með leyfi forseta: ,,... að samkeppni á ljósvakamarkaði og starfsemi ljósvakamiðla í heild lúti sömu almennu leikreglum og aðrar atvinnugreinar á landinu. Í þessu sambandi skal eignarhald og starfsemi útvarpsstöðva falla undir almenn ákvæði samkeppnislaga um einokun og fákeppni þótt e.t.v. sé nauðsynlegt að aðlaga þau betur aðstæðum ljósvakans.``

Ég tek undir það og herði heldur á því. Síðan lýkur þessu, með leyfi forseta, á þessum orðum:

,,Til að mynda væri mögulegt að styrkja með einhverjum hætti lagalega framkvæmd við úthlutun útvarpsleyfa þannig að stuðlað verði að fjölbreytni og samkeppni.``

Niðurstaða nefndarinnar frá því árið 1996 vísar í sömu átt og leið Samf. í málinu. Það er afar athyglisvert í ljósi síðari tíðinda í þessu efni.

Síðan verður auðvitað að spyrja forsrh. að nokkru sem þarf að koma fram. Hann segir að frumvarpið sé til frambúðar, vísi til framtíðar og eigi ekki að tönnlast hér á atburðum úr fortíðinni. Þá er spurningin: Hvað gerist þegar þetta frv. gengur í gildi? Hvað gerist á næstu mánuðum og næstu missirum? Hvað verður eftir tvö ár? Hver á þá Norðurljós? Verða þau starfandi? Hve margir fjölmiðlar verða í landinu? Verða þeir kannski bara tveir? Ríkisútvarp Sjálfstfl. á ljósvakasviðinu og Morgunblað Sjálfstfl. á blaðasviðinu. Er það svo? Er það kannski tilgangurinn með frumvarpinu, sem nær markmiðum sínum vorið 2006 í sveitarstjórnarkosningum og vorið 2007 í alþingiskosningum?