Útvarpslög og samkeppnislög

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 19:04:57 (7421)

2004-05-03 19:04:57# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[19:04]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstvirtur forseti. Þarna fékk ég staðfestingu á því að það væri stefna Sjálfstæðisflokksins að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi á sama hátt og sami flokkur beitti sér fyrir því að Póstur og sími var gerður að hlutafélagi á sínum tíma. Sá sem situr hér fyrir aftan mig, hæstv. forseti þingsins, var þá samgönguráðherra landsins. Þá var talað um að Síminn yrði ekki seldur. Hann er kominn á sölulista núna eins og allar stofnanir sem gerðar hafa verið að hlutafélögum.

Það er þetta sem ég einmitt óttast, að það koma fram þessar yfirlýsingar. Það gerðist líka með ríkisbankana. Það á bara að breyta rekstrarforminu. En síðan vitum við náttúrlega hver niðurstaðan verður.

Spurt var hvað ég vildi gera núna á þessu stigi. Ég tel að það væri fyrir því samkomulag í þinginu og í þjóðfélaginu almennt að stíga fyrsta skrefið á þessu sviði, setja lög um upplýsingaskyldu um eignarhald á fjölmiðlum. Það tel ég að við eigum að gera núna. Ég er sannfærður um að þverpólitískur vilji er fyrir því í þinginu og í samfélaginu almennt. (Forsrh.: Það hefur enga þýðingu.) ,,Enga þýðingu,`` segir hæstv. ráðherra. Ég held það. Ég held að máli skipti aðhald frá almenningi sem byggir á slíkum upplýsingum, upplýst aðhald. Það skiptir máli. Það hefur vissulega þýðingu.

,,Séríslenskar reglur,`` segir hæstv. ráðherra, að þetta séu ekki séríslenskar reglur. Við búum í séríslensku samfélagi sem heitir Ísland. Það er mjög lítið og allar aðstæður hér eru að mörgu leyti ósambærilegar við það sem gerist með stærri þjóðum. Þess vegna segi ég það að þegar til er orðin fjölmiðill sem hefur skapað sér sæmilega öruggar fjárhagslegar forsendur þá skulum við fara varlega í sakirnar.

Ég tel að aðhaldið á fjölmiðlamarkaði liggi í sterku Ríkisútvarpi, útvarpi í almannaeign.