Útvarpslög og samkeppnislög

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 19:07:20 (7422)

2004-05-03 19:07:20# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, JBjart (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[19:07]

Jónína Bjartmarz (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson lagði mér þau orð í munn í ræðu minni hér í umræðunni um fjölmiðlaskýrsluna að ég hefði verið talsmaður þess að svipta Ríkisútvarpið auglýsingatekjum og hann tengdi ræðu mína jafnframt við þau tilteknu sjónarmið að veikja ætti Ríkisútvarpið en ekki að styrkja það.

Hv. þm. til upplýsingar vil ég fá að taka það fram að megininntakið í allri minni ræðu var þýðing þess fyrir menningarlega fjölbreytni að styrkja Ríkisútvarpið. Það var megininntakið í öllu því sem ég sagði við þessa umræðu. Hv. þm. er því að fara rangt með eða hann hefur misskilið ræðu mína, hafi hann fylgst með henni eða lesið hana.

Annað sem ég talaði um var að að mínu mati skipti rekstrarformið ekki öllu máli, mér fyndist það að stærstum hluta deilur um keisarans skegg. Það er hægt að styrkja Ríkisútvarpið sem stofnun, sem ég vil viðhalda eins og margir aðrir sem ríkisútvarpi faglega og fjárhagslega. En ég held að rekstrarformið skipti þar litlu máli.

Ég hafði líka orð á því að afnotagjöldin væru hugsanlega barn síns tíma vegna þess að þau miða við útvarpstækið sjálft, sjónvarpstæki sem menn ráða yfir. En nú er hægt að fylgjast með útsendingum sjónvarpsins á netinu og það væri hægt að huga að því að taka upp aðrar fjármögnunarleiðir, til að mynda nefskattsleiðina sem margir hafa bent á.

Um auglýsingatekjurnar sagði ég, með leyfi forseta:

,,Ég tel þess vegna rétt að við aðgerðir til þess að tryggja stöðu Ríkisútvarpsins til frambúðar verði leitað leiða til þess að milda eða draga úr áhrifum þess óhjákvæmilega inngrips í rekstrarumhverfi fjölmiðla sem mun leiða af lagasetningu um þau atriði sem lúta að eignarhaldi með því að stefna að því að draga Ríkisútvarpið út af auglýsingamarkaði, eða a.m.k. að takmarka hlutverk Ríkisútvarpsins verulega á þeim markaði.``

Hv. þm. hefur mistúlkað orð mín eða fer rangt með þau, herra forseti.