Útvarpslög og samkeppnislög

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 20:16:49 (7427)

2004-05-03 20:16:49# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[20:16]

Hjálmar Árnason:

Virðulegur forseti. Á íslenskum fyrirtækjamarkaði á síðustu árum hafa orðið gífurlega miklar breytingar. Það má með sanni segja að íslenskur fyrirtækjamarkaður standi á viðkvæmu þroska- og þróunarstigi. Fyrir þróuninni eru ýmsar ástæður og má fyrst nefna þær breytingar sem orðið hafa þar sem dregið hefur verið úr opinberum rekstri og einkaaðilar í vaxandi mæli tekið við rekstri sem áður var á hendi hins opinbera, rétt eins og hefur gerst víðast hvar í nágranna- og samkeppnislöndum okkar.

Önnur ástæða þess er sú að verðmætasköpun og velsæld hefur verið mikil í þjóðfélaginu og þar af leiðandi mikil verðmæti orðið til og um þau verðmæti hafa skapast fyrirtæki.

Eitt af því sem hefur leitt til þessa er m.a. að samkeppni hefur farið mjög vaxandi á hinum mikla íslenska fyrirtækjamarkaði og menn hafa brugðist við samkeppninni með ýmsum hætti, m.a. með þeim hætti að steypa saman fyrirtækjum í nafni hagræðingar með það að markmiði að styrkja samkeppnisstöðu einstakra fyrirtækja. Þetta hefur leitt til þess að fyrirtækjum á einstökum sviðum hefur fækkað og til hafa orðið samrunafyrirtæki, sum hver æðistór. Meðal annars vegna þessa hafa iðulega á hv. Alþingi og víðar í samfélaginu orðið heitar umræður um þróunina og þar hafa ekki síst ýmsir hv. þm. stjórnarandstöðunnar staðið fyrir utandagskrárumræðum, lagt fram fyrirspurnir og jafnvel þingmál önnur, þingsályktunartillögur, þar sem fjallað er um þessa þróun á hinum íslenska fyrirtækjamarkaði.

Hvaða hugsun skyldi vera á bak við þá umræðu og þær utandagskrárumræður sem snerta olíugeirann, tryggingageirann, fjármálageirann, samgöngumálin og þannig má áfram telja? Hvaða hugsun skyldi vera á bak við þann vilja sem hefur birst í því að einstakir hv. þm. stjórnarandstöðunnar hafa ítrekað komið með utandagskrárumræður og fyrirspurnir? Rökin hafa verið þau að fákeppni sé óæskileg fyrir neytendur á Íslandi og að einstakir aðilar eigi ekki að hafa frjálsan aðgang að vösum almennings, að vösum neytenda, þeir eigi ekki að græða í skjóli fákeppni. Samkeppni eigi að veita aðhald, leiða til lægra vöruverðs, lægra verðs á þjónustu og þar fram eftir götunum, en slíkt gerir fákeppni ekki.

Undir þessi sjónarmið sem fram hafa komið í ítrekuðum utandagskrárumræðum á liðnum árum um þessi mál get ég tekið. Hins vegar vekur það athygli mína, frú forseti, að á síðustu missirum hefur verið heldur hljótt um Samf. hvað varðar fákeppni á einstökum sviðum og nefni ég sérstaklega matvörumarkaðinn. Hin æpandi þögn Samf. á því sviði hefur vakið athygli mína á síðustu missirum. Þá hlýtur maður að spyrja hvort allt sé í lagi á matvörumarkaðnum.

Ef við lítum yfir þann geira má segja að fyrir u.þ.b. tíu árum hafi verið um 20 aðilar að keppa á matvörumarkaði hérlendis. Enginn þeirra hafði stærri markaðshlutdeild en u.þ.b. 24%. Í dag, frú forseti, er einn aðili með yfir 50% af matvörumarkaði á Íslandi og Samf. þegir þunnu hljóði. Á því kann ég ekki skýringu og hefur vakið undrun mína.

Meðan einn aðili hérlendis er með um og yfir 50% á matvörumarkaði, sem er líklega einn mikilvægasti markaður í daglegu lífi fólks, má benda á til samanburðar að í Bretlandi og Þýskalandi er enginn aðili með meira en u.þ.b. 27%. Það sem meira er að stjórnarformaður BigFood Group matvörukeðjunnar í Bretlandi hefur lýst áhyggjum yfir því að stærsti aðilinn í Bretlandi, Tesco, er með 27% markaðshlutdeild og vekur það ugg og áhyggjur einstaklinga og fólks í Bretlandi.

Þar sem markaðshlutdeildin í Bretlandi og Þýskalandi er þannig að enginn er með meira en 27% virðist matvöruverð í Evrópu vera lægst miðað við þróun neysluvísitölu í löndum Evrópu. Hins vegar þar sem markaðshlutdeildin er á hendi færri aðila og risastórra aðila sem eru með yfir 27%--30% eru meiri sveiflur í verði og tilhneiging til hækkaðs verðs. Hvers vegna? Líklega vegna þess að þá verður samkeppnin minni.

Þegar einn aðili hefur þannig tögl og hagldir á einu markaðssviði má segja að viðkomandi aðili taki við hlutverki Verðlagsstofnunar sem hafði það hlutverk áður fyrr að gefa upp viðmiðunarverð. Einn drottnandi aðili á hvaða sviði sem er hefur í rauninni tekið við hlutverkinu með því að stýra verðlagi samkeppnisaðila, með því að hafa fullkomið tak á birgjum sínum og með því að kaupa upp og/eða drepa af sér samkeppnisaðila.

Þetta má telja, virðulegur forseti, eitt af brýnustu viðfangsefnum okkar, að koma á virkri samkeppni, ekki bara á matvörumarkaði heldur á hinum íslenska neytendamarkaði almennt vegna þess að það eru hagsmunir neytenda. Þetta eru staðreyndir sem ég nefndi af matvörumarkaði og þær skipta fólkið í landinu mest af öllu því allir þurfa að njóta matar.

Þegar við bætist að einn aðili, ein stór keðja, er með um og yfir 50% má líka bæta því við að sami aðili er drottnandi á ýmsum öðrum sviðum, hin mikla fyrirtækjasamsteypa. Þar má nefna fasteignasvið, byggingarvörur, lyfjasölu, farþegaflutning og ýmsar sérvörur eins og íþróttavörur, það má nefna vátryggingar og afþreyingu að ónefndum fjármálamarkaðnum eða brauðgerðinni. Allt er þetta gífurlega stór og mikil keðja sem er drottnandi á þeim sviðum sem íslenskir neytendur þurfa á að halda í sínu daglega lífi.

Þess vegna er eðlilegt að spyrja í tengslum við frv.: Hvers vegna skyldi ég vera að nefna matvörumarkaðinn, tryggingamarkaðinn og byggingarvörumarkaðinn í tengslum við frv. um fjölmiðla? Vegna þess að við hljótum að spyrja hvort eðlilegt sé fyrir íslenskan samkeppnismarkað að bæta fjölmiðlun í þessa stóru samsteypu.

Það er rétt að taka fram að að mínu mati hefur þetta ekkert með einstaklinga, einhverjar tilteknar persónur, að gera. Við erum að fjalla um prinsipp. Auðvitað virðum við dugmikla einstaklinga sem hafa haslað sér völl í atvinnulífinu en við erum að ræða um prinsipp, við erum að ræða um leikreglur sem lúta að því að skapa samfélag sem er neytendum hagstætt. Það getur varla, frú forseti, verið hollt fyrir samfélagið að stórar keðjur, hverju nafni sem þær nefnast, sem eru ráðandi á einstökum sviðum hins íslenska markaðar ráði jafnframt yfir fjölmiðlum og séu ráðandi á fjölmiðlamarkaði, vegna þess að fjölmiðlar eru eitt af grundvallaratriðum í lýðræðisumræðu og eitt af grundvallaratriðum lýðræðisins almennt. Það er ef til vill einn mikilvægasti þátturinn af öllum þeim atriðum sem ég hef talið upp. Það getur ekki verið vilji Alþingis, það getur ekki verið vilji einstakra þingmanna að vilja bæta fjölmiðlum inn í hinar risastóru samsteypur á hvaða sviði sem þær eru.

Um það snýst málið og einmitt á þeim forsendum, frú forseti, hafa verið sett lög á Alþingi með samþykki allra þingmanna ef ég man rétt. Við höfum sett lög um úthlutun heimildar til reksturs ljósvakamiðla þar sem sett eru ákveðin lög með ákveðnum kröfum og ákveðnum fyrirvörum um með hvaða hætti eigi að úthluta heimildum til reksturs ljósvakamiðla og til hverra.

Ég lít svo á að með frv. sé einmitt verið að bæta samkeppnissjónarmiðinu inn í þau lög til að hindra að fákeppni verði jafnframt ríkjandi á öldum ljósvakans, á fjölmiðlamarkaðnum, rétt eins og hefur verið að gerast á öðrum sviðum hins íslenska neytendamarkaðar. Það hefur ekkert með einstaklinga að gera, frú forseti, það er hin almenna regla sem verið er að fjalla um.

Það er einmitt á þeim nótum sem Evrópuþingið hefur ályktað um málið og beint því til aðildarþjóða sinna, og frv. sem hér er til umfjöllunar og mikið er gert veður út af byggir einmitt á meginsjónarmiðum Evrópuráðsins. Það er á sömu nótum sem Mannréttindadómstóllinn í Strassborg hefur fjallað um málið og beint til aðildarríkja sinna. Það er á sömu forsendum sem þjóðþing einstakra Evrópuríkja og þjóðþing Bandaríkjanna hefur fjallað um málið og sett takmarkandi lög um fjölmiðla, vegna þess að menn vilja varðveita fjölmiðlana, menn vilja varðveita lýðræðið og halda uppi fjölbreytileika í fjölmiðlun. Fjölbreytileiki í fjölmiðlun nær jafnt til innihalds, dagskrárgerðar, ritstjórnar sem og til eignarhaldsins því það hangir mjög vel saman.

Þetta er með öðrum orðum gert á grundvelli hinna almennu sjónarmiða en ekki bundið við einstaklinga. Við hér á Íslandi getum ekki vikið okkur undan því þó þau sjónarmið hafi heyrst. Það er beinlínis rangt að stilla frv. upp eins og það sé til höfuðs einhverjum tilteknum einstaklingum, verið er að ræða um hina almennu reglu og um prinsippin. Það eru sömu prinsipp og þjóðir heims hafa verið að horfa á, eru að horfa á og munu horfa á. Það skyti skökku við ef við Íslendingar ætluðum að víkja okkur undan því á einhverjum annarlegum forsendum, líklega vegna þess að við séum svo sérstök sem við erum ekkert.

Það vill svo til, virðulegur forseti, því hér hefur oft verið nefndur einn ákveðinn einstaklingur, duglegur og mikill athafnamaður, að meira að segja hann hefur í merkilegu viðtali í Viðskiptablaðinu fallist á þau sjónarmið að mikilvægt og nauðsynlegt sé að takmarka drottnandi eignaraðild sömu aðila á fjölmiðlamarkaðnum. Hér stendur, með leyfi forseta: ,,Tilbúinn að fallast á fjórðungshlut í óbreyttum Norðurljósum.``

Það er hvorki meira né minna en Jón Ásgeir Jóhannsson sem segir þetta, væntanlega vegna þess að hann er sammála því meginsjónarmiði sem liggur að baki frv., að það sé óhollt lýðræðisins vegna að þar myndist drottnandi aðili sem sé jafnt drottnandi á neytendamarkaði sem og á fjölmiðlamarkaði. (ÖS: Varstu ekki að tala um prinsipp?)

[20:30]

Það skýtur hins vegar skökku við, virðulegi forseti, af því að hinn virðulegi formaður Samf. kallar fram, að ég fæ ekki betur séð en fulltrúar Samf. hafi tekið U-beygju í málinu. Svo háttar til að ég er með á minnisblaði sem ég hef tekið saman mér til fróðleiks og undirbúnings fyrir umræðuna ýmsar yfirlýsingar virðulegra þingmanna Samf. um fjölmiðlamarkaðinn á síðustu árum. Ég sé ekki betur en að þau sjónarmið sem hafa verið kynnt á síðustu fimm árum --- við þurfum ekki að fara lengra aftur í tímann --- bendi til þess, miðað við þann tón sem nú heyrist í Samf., að hún hafi skipt um skoðun.

Hér segir hvorki meira né minna en hv. formaður Samf. 30. október 2001 m.a.:

,,Eins og málin eru að þróast á fjölmiðlamarkaði í dag gæti það með vissum hætti styrkt aðra kima fjölmiðlamarkaðarins og það er nauðsynlegt til þess að tryggja lýðræðislega umræðu í samfélaginu. Hún er ekki nógu sterk í dag, m.a. út af því hvernig þróunin er á fjölmiðlamarkaðnum þar sem við sjáum að allt hnígur í átt að vaxandi samþjöppun.``

Sami virðulegi formaður, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, segir meira að segja 19. maí 2001:

,,Þá er ekki bara blokkamyndun til staðar í atvinnulífinu heldur eru nýjar blokkir að hreiðra um sig m.a. í afþreyingariðnaði. Ég spurði hæstv. ráðherra áðan hvernig stæði á því að ekki er tekið á þeim iðnaði. Af hverju er t.d. ekki blokkarinnar í kringum Norðurljós að nokkru getið?``

Þetta segir hv. þm. Össur Skarphéðinsson hinn 19. maí 2001.

Margrét Frímannsdóttir, eitt sinn talsmaður Samf., segir 19. nóvember 2003:

,,Það hlýtur að vera hlutverk okkar á Alþingi að tryggja réttlátar og skýrar leikreglur hvað varðar fjölmiðla og fjölmiðlamarkaðinn rétt eins og aðra þætti. Það er okkar að móta leikreglurnar og hafa eftirlitið og annarra að vinna úr því. Það getur vel verið að það sé nauðsynlegt að taka sérstaklega á eignarhaldinu og að fjölmiðlarnir verði í mismunandi eða fjölbreyttri eignaraðild. Þá skiptir ekki eins miklu máli hvað kemur frá fréttastofunum ef tryggð er dreifð eignaraðild og mismunandi eignaraðild á fjölmiðlunum.``

Þetta er hv. þm. Margrét Frímannsdóttir, líklega þáverandi talsmaður Samf., hinn 19. nóvember 2003.

Jóhanna Sigurðardóttir, virðuleg jafnréttisfrú Samf., segir á hinni mjög svo öflugu heimasíðu sinni 23. september 2002:

,,Við jafnaðarmenn berjumst gegn samþjöppun valds og fjármagns sem leitt hefur til fákeppni í stórum atvinnugreinum.``

15. ágúst 2002 segir hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir:

,,Þessi þróun`` --- þ.e. samþjöppunin --- ,,er alvarleg ógn við heilbrigða samkeppni og gengur gegn almannahagsmunum.``

Enn segir á þessari ágætu og kraftmiklu heimasíðu í pistli sem ber heitið ,,Tifandi tímasprengja``, 31. júlí 2002:

,,Þá tímasprengju sem nú tifar verður að aftengja. Örfáar stórar valdablokkir gífurlegra sterkra fjármagnseigenda ráða orðið öllum helstu atvinnugreinum í landinu.``

Í Morgunblaðinu segir sami þingmaður, frú Jóhanna Sigurðardóttir, 20. apríl árið 2000:

,,Fákeppni og samþjöppun valds er líka að verða meira áberandi í fjölmiðlastarfsemi sem er vissulega mjög varhugavert fyrir lýðræðið og eðlilega skoðanamyndun í landinu.``

Áfram úr smiðju Samf. Guðmundur Árni Stefánsson, virðulegur þingmaður og fyrrverandi blaðamaður segir:

,,Það gefur augaleið að ritstjórnarstefna þessara fjölmiðla tekur beint og óbeint mið af eigendum sínum, ekki með beinum hætti endilega heldur einfaldlega með markaðslegum sjónarmiðum.``

Síðan segir Ásta R. Jóhannesdóttur árið 1996:

,,Ég held að það væri vænlegast fyrir ríkisstjórnarflokkana báða að huga að stefnumótun þessarar ríkisstjórnar í fjölmiðlamálum.

Það er sannarlega þörf á skýrum reglum um rekstur ljósvakamiðla hér á landi ...`` og þar fram eftir götunum.

Jafnframt segir sami hv. þm. árið 1995:

,,Það ber einnig að rannsaka fjárhagslega tengingu fjölmiðlafyrirtækja við önnur fyrirtæki því að það er augljóst að slík tenging hefur bein áhrif á tjáningarfrelsið.``

Virðulegur forseti. Ég skil ekki hvers vegna hv. þm. Samf. leggjast gegn því frv. sem hér er til umræðu vegna þess að það byggir á almennum sjónarmiðum til þess að varðveita það að hér geti starfað sjálfstæðir, öflugir fjölmiðlar án þess að vera háðir ofurvaldi einhvers eins risastórs aðila. Samf. gengur meira að segja það langt að hún greiðir atkvæði gegn því að málið komi til umræðu og fái eðlilega vinnslu í nefnd. Þess vegna fæ ég ekki betur séð en að virðulegir fulltrúar Samf. hafi beinlínis tekið U-beygju. Af er sem áður var þegar Samf. kom reglulega hingað upp til þess að vara við þróun á íslenskum neytendamarkaði þar sem hún taldi tilhneigingu til fákeppni vera orðna of einkennandi fyrir hinn íslenska fyrirtækjamarkað. Ég fæ ekki betur séð af málflutningi Samf. en að hún styðji fákeppni á sviði fjölmiðlamarkaðar og af því hef ég, frú forseti, töluverðar áhyggjur.