Útvarpslög og samkeppnislög

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 21:22:07 (7449)

2004-05-03 21:22:07# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[21:22]

Halldór Blöndal (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. 5. þm. Norðvest. Guðjón A. Kristjánsson er vanur að tala sjómannamál og hugsar í skipum og öldugangi. Það er út af fyrir sig ágætt. Tími er honum líka framarlega á tungu. Hann talaði um að taka þurfi tíma til að vinna þetta verk. Ekki liggur ljóst fyrr hvaða verk hann ætlar að vinna. Hann segir að fjölmiðlarnir séu ekkert að fara á hliðina. Ekki átta ég mig heldur á því hvað hann meinar þar, sérstaklega þegar hann bætir því síðan við að nauðsynlegt sé að ná betri lendingu. Það er kannski hægt að vera úti svolítið lengur ef allt er ekki að fara á hvolf.

Ég átta mig heldur ekki á því hvaða afla þessi skip sækja sem hann hugsar svona mikið um. Það lýtur auðvitað líka að hinu, að enginn skilur hvaða verk hv. þm. vill endilega vinna. Þess vegna langar mig til að spyrja hann einfaldrar spurningar til að reyna að fá samhengi í ræðu hans: Telur hv. þm. óæskilega samþjöppun á eignarhaldi í fjölmiðlum?