Útvarpslög og samkeppnislög

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 21:47:10 (7454)

2004-05-03 21:47:10# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[21:47]

Mörður Árnason (andsvar):

Forseti. Það er auðvitað sorglegt að hinn forni ritstjóri Íslendings og mikilvirki blaðamaður á flokksblöðum hér á öldinni sem leið skuli kunna aðeins eitt ráð við sjúkdómi í fjölmiðlun og það er að höggva. Það er nefnilega hægt að lækna. Það er hægt að fara hinar mildari leiðir sem Páll Þórhallsson m.a. tekur til í gær í Morgunblaðsgrein sinni. Það eru þær mildari leiðir, það eru þær vægari leiðir sem við höfum lagt til hér samfylkingarmenn sem Páll telur ríki skylt að gera grein fyrir hvers vegna séu ekki farnar áður en höggvið er. Ég biðst undan því frá hv. þingmanni og félögum hans að vera hér kenndur við eitthvert Baugsveldi. Ég þekki ekki neinn í Baugi. Það eina sem ég geri er að kaupa hjá þeim matvörur, skyr og mjólk, í búðinni hjá þeim á Laugaveginum. Það er ókurteislegt að láta svona, sérstaklega þegar um jafnmikla kappa í lagasetningu og hagsmunatengslum er að ræða og hv. þingmann og flokksbræður hans.