Útvarpslög og samkeppnislög

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 22:22:19 (7469)

2004-05-03 22:22:19# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[22:22]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Það kemur á óvart, það síðasta. Ég sagði við þingmanninn fyrir klukkutíma síðan að ég hefði mismælt mig en þingmanninum var ekki nóg að heyra það. Ég vona að hann kannist við það. Kannski var það fyrir tveim tímum.

Vegna þess sem hv. þm. sagði um tækniþáttinn vék ég reyndar að þessum þætti sérstaklega í ræðu minni og sagði, með leyfi forseta: ,,Samkvæmt 1. gr. frv. er lagt til að við 6. gr. útvarpslaga verði bætt nokkrum skilyrðum er varða eignarhald þeirra fyrirtækja sem útvarpsleyfi geta fengið og haldið þeim. Tekið skal fram að áskilnaður um slíkt leyfi er almennt óháður því hvaða tækni er notuð til að miðla þeirri dagskrá sem lögin taka til og leyfi þarf samkvæmt þeim til að útvarpa.`` --- Auðvitað gilda alveg sömu tæknimöguleikar hér á landi og annars staðar. Þar er enginn munur á og alls staðar eru í gildi lagakostir eins og við höfum áður rakið hvað það varðar.

Er það einhver atlaga að prentfrelsi ef einum aðila sem á sjónvarpsstöð er ekki jafnframt leyft að gefa út dagblað? Verkfallsrétturinn er heilagur. Það eru til menn sem aldrei hafa fengið að hafa verkfallsrétt, sérstaklega er tekið fram að þeir hafi hann ekki, alla ævina, til að mynda ég allt frá því að ég útskrifaðist. Það er sérstaklega tekið fram að ég hafi ekki verkfallsrétt í þeim stöðum sem ég hef gegnt. Almennur verkfallsréttur gildir, auðvitað gildir prentfrelsið.

Út á hvað gengur Evrópuráðið? Nálarauga Evrópuráðsins er það að ríki uppfylli skilyrði mannréttindasáttmálans, það er nálaraugað. Svo er látið eins og það að tillögur sem Evrópuráðið gerir sérstaklega séu til þess fallnar að níða af mönnum skóinn, taka af mönnum merki lýðræðisins, sjálft prentfrelsið. Þetta eru algjörir útúrsnúningar.

Varðandi útvarpsréttarnefnd eins og rætt var um lýtur hún almennum lögum vanhæfis. Í nefndinni sitja núna Kjartan Gunnarsson framkvæmdastjóri, Árni Gunnarsson framkvæmdastjóri, Bessí Jóhannsdóttir sagnfræðingur, Björn Ingi Hrafnsson skrifstofustjóri, Lára Júlíusdóttir hæstaréttarlögmaður, Kristín Pétursdóttir lögfræðingur og Ástráður Haraldsson hæstaréttarlögmaður. Ég hef aldrei heyrt um ágreining í þessari nefnd.