Útvarpslög og samkeppnislög

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 22:47:13 (7477)

2004-05-03 22:47:13# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, JBjart (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[22:47]

Jónína Bjartmarz (andsvar):

Frú forseti. Spurningu minni er enn ósvarað: Hvers vegna hefur Samf. aðra afstöðu til samþjöppunar á fjölmiðlamarkaði en í viðskiptalífinu almennt?

Hér segir hv. þm.: Við viljum fara aðrar og vægari leiðir. Hvers vegna gildir það bara í þessum rekstri? (BH: Samkeppnislög gilda.) Samkeppnislög, hv. þingmaður, hafa ekki sama gildi varðandi rekstur fjölmiðla þar sem við þurfum m.a. að standa vörð um tjáningarfrelsið og að þau gildi á viðskiptalífinu, alveg rétt. Af því að hv. þm. vísaði til þess að sú sem hér stendur er löglærð vísa ég til þess að hv. þm. er það jafnframt. Hún túlkar samkeppnislögin svo og ég held því fram að henni sé ekki stætt á því af því að sérstakar reglur gilda, sérstök sjónarmið, um tjáningarfrelsið. Það er ekki viðskiptalegs eðlis.

Svo að svarað sé varðandi afturvirknina veit hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir alveg eins og ég að úti í samfélaginu greinir lögfræðinga og prófessora á um það ákvæði. Ég geri ráð fyrir að við skoðum það sérstaklega í allshn.