Útvarpslög og samkeppnislög

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 22:53:53 (7481)

2004-05-03 22:53:53# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, JBjart (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[22:53]

Jónína Bjartmarz (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. hefur hlustað, segir hv. þm., á málflutning minn í þessu máli og leggur út af honum eins og hún skilur hann. Ég verð að segja fyrir mitt leyti, frú forseti, að ég botna ekkert í málflutningi hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur og ætla ekki að reyna að leggja út af honum.

Ef fyrirtæki eru ekki rekin til að skila hagnaði, þá spyr ég: Í hvaða tilgangi vill markaðsráðandi fyrirtæki á matvörumarkaði eða einhverjum öðrum reka fjölmiðil? Er það þá ekki til þess að hafa áhrif og völd, eða á einhvern hátt að nýta hagræðið af því að fyrirtækin eru rekin saman? Þetta er það sem við hljótum að velta fyrir okkur. Hvort það er rekstrargrunnur til að reka fyrirtæki eins og þetta ef það er leyst upp er bara eitthvað sem ég á eftir að kanna hvort sé eða sé ekki. Frásagnir af því eru mjög misvísandi, þ.e. hvort svo sé. Ef það er ekki hagnaðarvonin, frú forseti, hlýtur það að vera eitthvað annað sem menn ætla að ná fram með rekstrinum. Hvers vegna ekki áhrif og völd? Það hafa menn beinlínis sagt og forstjóri Baugs viðurkennt.