Útvarpslög og samkeppnislög

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 22:59:58 (7485)

2004-05-03 22:59:58# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, JBjart (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[22:59]

Jónína Bjartmarz (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. spyr hvar annars staðar markaðsráðandi aðila sé bannað að eiga í ljósvakamiðli.

Ég verð að viðurkenna að ég þekki það ekki gjörla eða hvort markaðsráðandi aðili hafi einhver takmörk á því hvað hann megi eiga mikið í ljósvakamiðli. Við skulum hins vegar halda því til haga að þegar við setjum reglur fyrir íslenskan fjölmiðlamarkað þurfum við sérstaklega að horfa til séraðstæðna á Íslandi. Það kemur í ljós í ágætri skýrslu sem er fylgiskjal með frv. að aðstæður eru svo mismunandi frá einu landinu til annars að það er ekki hægt að apa eftir löggjöf eða reglum sem eru settar neins staðar annars staðar. Við þurfum sérstaklega að skoða þennan markað sem við búum á.