Útvarpslög og samkeppnislög

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 23:18:10 (7487)

2004-05-03 23:18:10# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, PM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[23:18]

Páll Magnússon (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég kem í ræðustól vegna orða hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur um ummæli forsrh. hæstv. og utanrrh. um afnotagjöld Ríkisútvarpsins. Hv. þm. talaði um að þessir ágætu hæstv. ráðherrar hefðu ábyrgðarlaust varpað fram hugmyndum um að afnema afnotagjöld og ekki rætt um hvað ætti þar að taka við. Ég tel að þeir hafi ekki varpað þeim hugmyndum fram af ábyrgðarleysi. Mér finnst furðulegt að hv. þm. skuli ekki hafa getið þess í ræðu sinni að í kjölfarið var m.a. rætt við hæstv. menntmrh. sem tók reyndar undir þessi sjónarmið en lýsti jafnframt þeirri skoðun sinni að hún væri fylgjandi því að nefskattur mundi fjármagna rekstur Ríkisútvarpsins.

Ég tel að við eigum að fara í umræðu um hvort rétt sé að innheimta gjald af eigendum viðtækja við fjármögnun Ríkisútvarpsins. Ég tel að það kunni að vera úrelt fyrirkomulag. Eins og útvarpsstjóri hefur viðrað í umræðunni gefast orðið aðrar leiðir við að ná útsendingum sjónvarpsins, það er m.a. gert í tölvum með sjónvarpskortum og af þeim eru ekki innheimt afnotagjöld. Fólk sem t.d. hverfur af landi brott um árabil vegna náms eða annars þarf að innsigla viðtæki til þess að komast hjá þessum greiðslum. Slíkt fyrirkomulag er kannski barn síns tíma.

Að lokum má nefna að innheimtukostnaður Ríkisútvarpsins vegna afnotagjalda nemur tugum milljóna króna. Hann er tekinn af rekstri stofnunarinnar. Þetta er óvinsælt form. Skapar stofnuninni óvinsældir meðal greiðenda að mörgu leyti, að halda úti leitarsveitum við að leita uppi viðtæki. Ég tel fullkomlega eðlilegt að skoða aðrar leiðir við fjármögnun Ríkisútvarpsins en tek undir með hv. þm. varðandi það að þar þarf að gæta mjög að sjálfstæði Ríkisútvarpsins.