Útvarpslög og samkeppnislög

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 23:39:34 (7494)

2004-05-03 23:39:34# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[23:39]

Halldór Blöndal (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tók það svo að hv. þm. hefði verið að tala um að ríkisstjórnin hefði tök á sjónvarpinu. Ef það hefur ekki komið fram í ræðu hv. þingmanns hef ég tekið rangt eftir og bið afsökunar á því. Mér þykir vænt um að hv. þingmaður skuli bera traust til starfsmanna Ríkisútvarpsins og telja þær árásir sem Ríkisútvarpið hefur orðið fyrir, m.a. af öðrum þingönnum Samf., ekki á rökum reistar. Mér þykir gott að hv. þingmaður skuli deila þeim skoðunum með mér og læt sérstaka ánægju í ljósi yfir því að hv. þingmaður skuli hafa traust og trú á ríkisfjölmiðlunum. Mjög gott að fá það fram. (Gripið fram í.)

Á hinn bóginn held ég að það sé óhjákvæmilegt fyrir hv. þingmann að skýra nánar hvers vegna hún telur að aðrir geti ekki rekið Stöð 2 jafn vel og Baugur. Það kemur fram hjá forstjóra Baugs, eins og ég gerði grein fyrir, að það er mjög góður kostur að fjárfesta í Stöð 2 og er engin ástæða til að draga dómgreind hans í efa hvað það varðar (BH: Það má enginn kaupa.) og vísa því til annarra manna. Þessi dómur forstjórans liggur fyrir og ekki þarf að draga í efa greind hans og reynslu í bisness.

Annars langar mig að lokum að spyrja hv. þingmann hvort hún telji að óæskileg samþjöppun á eignarhaldi í fjölmiðlum hafi átt sér stað. Fá já eða nei við því ef hv. þm. vill vera svo elskuleg.