Útvarpslög og samkeppnislög

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 23:43:45 (7496)

2004-05-03 23:43:45# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, KHG
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[23:43]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Hér hafa verið miklar umræður í dag um þetta mál og ekki að ófyrirsynju. Hér er um að ræða býsna viðamikið mál sem hefur hreyft við mörgum í þjóðfélaginu. Það er eðlilegt því það lýtur að löggjöf um fjölmiðla og fjölmiðlar eru einn hornsteinninn í lýðræðislegu þjóðfélagi þannig að það er eðlilegt að menn hafi skoðanir á því hvernig eigi að ganga frá og útbúa löggjöf um það efni.

Ég vil segja, herra forseti, að mér finnst eðlilegt að menn taki þetta mál til umfjöllunar. Ég hefði hins vegar talið eðlilegt að menn litu til málsins í heild og huguðu að löggjöf um hringamyndun í atvinnulífinu. Ég hef haft nokkrar áhyggjur af því um nokkurt skeið að mjög mikil samþjöppun hafi verið á mörgum sviðum atvinnulífsins. Þar er nærtækast að nefna matvörumarkaðinn og fjármálamarkaðinn. Það hefur á seinustu árum þróast líka yfir í það að fyrirtæki hafa orðið mjög umsvifamikil í öðrum atvinnugreinum en þau byggja meginstarfsemi sína á. Þar vil ég fyrst og fremst nefna fjármálafyrirtækin sem hafa með beinu eignarhaldi í öðrum atvinnugreinum stjórnað þróuninni í þeim með mjög afgerandi hætti.

[23:45]

Þar má nefna ýmis dæmi eins og afskipti bankanna af svínarækt og kjúklingarækt, svo ekki séu önnur dæmi nærtæk nefnd því til sönnunar. Við getum nefnt sjávarútveg og fleira í þeim dúr.

Ég tel fyllstu ástæðu til að setja löggjöf um hringamyndun til þess að takmarka vald og áhrif einstakra fyrirtækja og aðila þvert í gegnum atvinnulífið. Ég bar fram tillögu um það á flokksþingi Framsfl. í febrúarmánuði á síðasta ári sem var samþykkt, svohljóðandi:

,,Undirbúin verði löggjöf um hringamyndun í atvinnulífinu þar sem m.a. komi til greina að skipta upp stórum fyrirtækjum sem eru markaðsráðandi.``

Þetta er mín almenna afstaða til máls af þessu tagi.

Ég hef ekki í aðdraganda þess máls sem hér er komið inn í þingsali velt sérstaklega fyrir mér hvort ástæða væri til að setja sérstaka löggjöf um fjölmiðlamarkaðinn og draga hann þannig út úr. Ég er eiginlega á því að það sé ekki eðlilegt, heldur eigi menn að taka málið í heild og undirbúa löggjöf um hringamyndun. Ég sé ekki forsendur fyrir því að taka eitt svið atvinnulífsins út úr í þessu skyni. Löggjöf um hringamyndun hlýtur að taka á viðskiptaþætti málsins með það að markmiði að tryggja samkeppni af því að menn trúa því að samkeppnin sé besta leiðin til að tryggja viðskiptavinunum lágt verð og góða þjónustu. Þess vegna ætti hún að stuðla að samkeppni á fjölmiðlamarkaði alveg eins og samkeppni á matvörumarkaði og víðar.

Menn leggja önnur sjónarmið til grundvallar því og spyrja: Eigum við að setja sérstaka löggjöf um fjölmiðla til að tryggja það að lýðræðisleg umfjöllun í þjóðfélaginu verði með einhverjum þeim hætti sem menn telja eðlilegt? Nú er hlutverk fjölmiðla fyrst og fremst það að draga fram staðreyndir máls, segja frá þeim staðreyndum og draga fram þau sjónarmið sem eru í hverju máli þannig að þeir sem tala fyrir þeim geti komist að í fjölmiðlum með sjónarmið sín. Þau eru meginhlutverk fjölmiðla. Það er engin skylda á fjölmiðlum að þeir hafi ekki skoðun. Þeir mega hafa skoðun en þeir verða að gæta þessara atriða við fréttaflutning í einstökum málum.

Ég held að við þurfum að skoða smæð íslenska markaðarins. Ég hef að vísu fengið þær röksemdir gegn því að rétt sé að setja sérstaka löggjöf um hringamyndun að menn geti ekki haft samkeppnisþjóðfélagið hér á landi eins og það gerist í milljónaþjóðfélögunum erlendis. Menn færa fyrir því þau rök, sem eru alveg rétt, að á flestum sviðum þjóðfélagsins sé ekki um að ræða samkeppni milli margra aðila, heldur fárra aðila. Þeir eru tveir til þrír og í fáum tilvikum fleiri, á flutningamarkaði einn eða tveir aðilar, í innanlandsflugi líka o.s.frv.

Smæð markaðarins gerir það að verkum að það er kannski ekkert alveg víst að samkeppnislögmálin skili okkur á enda eins og við ætlumst til út frá þessu sjónarmiði sem ég nefndi og liggur að baki því að setja löggjöf um hringamyndun. Það hefur hins vegar orðið ofan á, getum við sagt, í pólitískri umræðu að trúa á samkeppnina. Þess vegna tel ég að við verðum að vinna eftir því þangað til við sannfærumst um annað en þá þurfum við líka að huga að löggjöf sem er til þess fallin að tryggja stöðu neytenda á markaði þó að hún kunni að vera að einhverju leyti öðruvísi en menn vildu hafa hana í öflugu samkeppnisþjóðfélagi.

Við skulum ekki gleyma því að fjölbreytni, t.d. á blaðamarkaði á Íslandi, hefur verið mikil í gegnum tíðina. Hún hefur farið minnkandi vegna þess að það var ekki rekstrargrundvöllur undir blöðunum. Eitt af öðru týndu þau tölunni og engin löggjöf hefði getað tryggt þeim rekstrargrundvöll. Það verður að gæta að því í löggjöf að hún sé um það sem getur orðið en komi ekki í veg fyrir þá fjölbreytni sem þó er til staðar.

Mér sýnist fljótt á litið að þetta frv. dragi úr möguleikunum á því að þeir fjölmiðlar starfi sem eru þó starfandi í dag, mér sýnist það, án þess þó að samkeppnin sé í nægilegu samræmi innbyrðis til að vera trúverðug. Hvernig má það vera að það sé hættulegt að fyrirtæki sem á útvarpsstöð eins og Útvarp Stjörnuna sem útvarpar íslenskri músík allan sólarhringinn en engum fréttum eigi hlut í dagblaði? Hún má eiga allar aðrar útvarpsstöðvar og það má þjappa þeim saman alveg út í það óendanlega. Það finnst frv. ekki hættulegt. Eykur annað fjölbreytnina en hitt ekki? Það verður auðvitað að vera samræmi í því, virðulegi forseti.

Menn hafa dregið fram ályktanir Evrópuráðsins til grundvallar umræðu um þetta mál. Ég er hér með ákveðna skýrslu frá Evrópuráðinu sem mig langar að fara aðeins yfir. Ég vil þó segja að ég tel að mál af þessu tagi eigi að taka almennt eins og ég nefndi. Menn eiga að leggja fram skýrslu um það til opinberrar umfjöllunar sem á síðan að vera til umræðu í nokkurn tíma áður en menn taka málið til endanlegrar niðurstöðu, t.d. með frumvarpsgerð hér á Alþingi. Það samrýmist ekki sjónarmiðum mínum um lýðræðislega umfjöllun að þau gögn sem eru grundvöllur ákvarðanatöku í þessu máli skuli þá fyrst vera gerð opinber þegar menn eru búnir að ná meiri hluta þingsins á bak við tiltekna niðurstöðu. Það samrýmist ekki þeim viðhorfum sem ég hef til lýðræðislegrar umfjöllunar máls. Það eru mörg þúsund manns í stjórnmálaflokkunum á Íslandi, þar á meðal stjórnarflokkunum, sem eru í þeim vegna áhuga síns á þjóðmálum. Það fólk vill auðvitað fá að hafa áhrif á það hvernig þessi umræða þróast. Mér finnst að menn eigi að gefa fólkinu tíma til að koma að málinu áður en búið er að ljúka því með lagasetningu. Það er allt annað að koma að máli sem búið er að loka. Þegar aðkoma áhugamanna um stjórnmál er opin eru menn að fjalla um það hvort þeir vilji hafa þá lagasetningu eða niðurstöðu sem orðin er en ekki hvort þeir geti haft áhrif á hvernig hún verður. Það er tvennt ólíkt. Málsmeðferðin er að mínu viti, virðulegi forseti, ekki í samræmi við það sem ég hefði lagt til í þessu máli.

Ég er hér með skýrslu stjórnarnefndar um fjölmiðla frá Evrópuráðinu sem er gefin út í desember 2002 og heitir ,,Media Diversity in Europe``. Hún er mjög fróðleg og dregur það fram að margar þjóðir vilja setja reglur um þessa hluti til að tryggja að umfjöllun fjölmiðla verði sem lýðræðislegust en varpar líka ljósi á það hvernig menn telja að eigi að nálgast þetta viðfangsefni. Ég vil fyrst nefna að í skýrslunni er tekið fram að fjölbreytni í eignarhaldi tryggi ekki í sjálfu sér fjölbreytni í fjölmiðlun eða efni fjölmiðilsins. Það er skýrt tekið fram í skýrslunni. Í öðru lagi er líka tekið fram sem menn hafa komist að raun um að mikil samkeppni, t.d. milli dagblaða eða milli sjónvarpsstöðva, tryggir ekki heldur fjölbreytni í efnisinnihaldi. Hvorki samkeppnin né eignarhaldið eitt og sér dugar til að tryggja fjölbreytni í fjölmiðlun. Þetta er afstaða stjórnarnefndarinnar sem ég vitna hér til. Það þarf því fleiri atriði. Það þarf að leggja mat á fleiri atriði til þess að menn geti nálgast viðfangsefnið.

Mælikvarðarnir sem menn nota í Evrópu eru allmargir. Þeir nota þá saman, ekki bara einn stakan, heldur taka þá alla saman. Helstu mælikvarðarnir sem menn nota eru áhorf eða útbreiðsla, velta, útgjöld, fjöldi rása o.s.frv. Menn leggja saman mörg atriði til að leggja til grundvallar stefnumörkuninni í þessu efni. Ef til er einhver meginlína hjá þessum þjóðum sem eru til athugunar má segja að hún sé sú að markmið löggjafar í þessum efnum sé að tryggja að a.m.k. þrír stórir aðilar séu á hverju sviði á landsvísu, t.d. tveir einkaaðilar og einn ríkisaðili. Þá liggur til grundvallar að það sem menn geta kallað eðlilega hlutdeild á markaði í öllum þessum þáttum sé á að giska þriðjungur.

Þetta eru hinar almennu reglur í milljónaþjóðfélögunum. Í fámennari þjóðfélögum getur ástandið verið annað, sérstaklega vegna þess að efnahagslegar forsendur eru ekki fyrir hendi til þess að svona margir aðilar geti starfað. Því má segja að í fámennari löndum sé venjan sú að ýmist eru bara tveir aðilar, ríkisaðili og einkaaðili, jafnvel bara einn aðili á markaðnum og í þeim tilvikum kemur samkeppnin frá erlendum stöðvum sem hafa útsendingarrétt í viðkomandi landi. Ég minni á að hér er búið að lögtaka Evróputilskipun sem við getum flett upp í útvarpslögunum sem heimilar útvarps- og sjónvarpsstöðvum að senda út um allt Evrópska efnahagssvæðið. Það er ekki hægt að banna mönnum að senda út til Íslands efni frá Hollandi eða Þýskalandi. Hvernig ætla menn að taka á því fyrirtæki? Hvernig ætla menn að skilgreina stöðu þess? Í hvaða skilningi á það að vera markaðsráðandi?

Þetta er mjög athyglisverð ábending frá þessari stjórnarnefnd. Í hinum fámennari þjóðfélögum er hin venjulega staða sú að einn ríkisaðili og einn einkaaðili séu á markaði, eða bara einn aðili og síðan erlendar stöðvar. Þetta er mjög svipað ástand og við búum við. Mér sýnist staðan hér á landi vera mjög svipuð því sem er í öðrum fámennum ríkjum. Þetta er það sem kemur fram í téðri skýrslu.

Það sem mér þykir athyglisvert, virðulegi forseti, er hvernig nefndin leggur til að menn bregðist við ef einstakur aðili fer yfir þá þröskulda sem settir eru um stærð og umfang viðkomandi fyrirtækis. Það er lagt til að beitt verði viðurlögum eða refsingum eftir eðli máls. Hafi menn fjárfest of mikið verður mönnum gert að draga úr fjárfestingu, draga úr áhrifum á tilteknum markaði eða nýjum aðila er t.d. úthlutað nýjum útsendingartíma eða rás.

Svo er síðasta úrræðið, virðulegi forseti, ég leyfi mér að lesa það á ensku:

[24:00]

,,... or the extreme sanction of the withdrawal of a license.``

Það er síðasta úrræðið og harðasta refsingin að afturkalla leyfið. Þetta er í niðurstöðukafla skýrslunnar. (Gripið fram í.)

Mér finnst að frv. endurspegli ekki þá lýsingu sem er að finna í skýrslunni frá desember 2002 sem heitir ,,Media Diversity in Europe``. Ég tel nauðsynlegt að menn endurskoði frv. í ljósi skýrslunnar ef þeir á annað borð ætla sér að ljúka því á þessu vori. Ég held að annað væri afar óskynsamlegt og er reyndar á þeirri skoðun að frv. gangi gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar. Gildistökuákvæðið er með þeim hætti að þeim forsendum sem fyrirtæki sem hafa leyfi starfa eftir og gengu út frá þegar þau fengu leyfið er breytt. Verið er að breyta forsendunum jafnvel áður en leyfi rennur út.

Við ræddum mikið um sjávarútvegsmál á sínum tíma í þingsölum og um það hvort við ættum ekki að breyta úthlutun veiðiheimilda úr því kerfi sem er yfir í annað kerfi og ætla okkur síðan einhvern tíma til að fara á milli kerfa. Það var kölluð fyrningarleið. Mínar hugmyndir voru að fara á milli kerfa á 33 árum, 3% fyrning á ári. Í gildistökuákvæðinu er í raun 50% fyrning. Það er mjög hröð aðlögun að nýjum veruleika sem ég fæ ekki séð að gangi upp.

Þá held ég líka að það ákvæði að fyrirtæki sem skilgreint er markaðsráðandi megi ekki eiga neitt í ljósvakamiðlum sé algert einsdæmi. Ég hef ekki séð svo strangar kröfur í neinu landi. Í Frakklandi t.d. er gert ráð fyrir að hvaða fyrirtæki sem er megi eiga 49%. Ég held því að menn verði að rýmka það og eins líka að hafa takmarkanir ekki eins skarpar og eru á milli ljósvakamiðla annars vegar og blaða hins vegar. Setji menn sér einhver mörk um útgáfu, veltu og annað á það ekki að skipta máli hvort fyrirtæki er að reka sjónvarpsstöð og dagblað eða sjónvarpsstöð og útvarpsstöð. Það ætti að taka starfsemi fyrirtækisins í heild til grundvallar en ekki skilja þetta með þeim hætti sem gert er í frv.

Það má segja margt um málið, herra forseti, en ég læt þessu lokið að sinni. Ég held að mönnum væri hollt að kynna sér þær áherslur sem uppi eru af hálfu Evrópuráðsins í þessum efnum. Ég held að þær séu að mörgu leyti eilítið öðruvísi en menn hafa rætt um í umræðunni til þessa, og er ég þó ekki að gera lítið úr þeirri skýrslu sem liggur til grundvallar. Ég held að það sé margt gott í henni og að hún sé ágætur grundvöllur umræðu, en hún getur ekki verið grundvöllur niðurstöðu sem er tekin áður en umræðan hefst.